02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3508 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram nokkrar brtt., sem er að finna á þskj., 471.

Jeg ætla þá fyrst að snúa mjer að þeirri brtt., sem aðalbreytingin er fólgin í, sem sje þeirri, að kosningarrjettur til Alþingis, sem nú er bundinn við 25 ára aldur við kjördæmakosningar og 35 ár við landskjör, skuli færast niður í 21 ár. Jeg hefi áður skýrt frá því hjer í hv. deild, hvernig þessi 21 árs kosningarrjettur hefir rutt sjer víða til rúms erlendis og þótt gefast þar vel, svo að jeg sje ekki ástæðu til að orðlengja frekar um það nú. En á hitt mætti benda, að þar sem svo er fyrir mælt í lögum, að menn skuli myndugir 21 árs og þá fjár síns ráðandi, þá virðist einmitt samræmi í, að kosningarrjetturinn miðist við sama aldurstakmark. Það mun líka vera skoðun margra, að eftir því sem aldur færist yfir menn, því seinna gangi löggjafarstarfið, svo að þar er enn ein ástæða fyrir því að færa kosningarrjettinn niður.

Um búsetuskilyrðið er það að segja, að í staðinn fyrir 5 ár, eins og nú er, þá held jeg, að nægi, að komi 1 ár. Þetta mun upphaflega vera sett vegna Dana, til þess að fyrirbyggja, að þeir gætu haft áhrif á löggjöf okkar. En það virðist ástæðulaust að óttast, að innflutningur þeirra verði svo mikill, að þeir reynist okkur ofjarlar. En 5 ára búsetuskilyrðið er órjettlátt gagnvart þeim Íslendingum, sem dvalið hafa erlendis, en tækju sjer hjer bólfestu aftur.

Eftir því, sem flokkum er skipað í þinginu, hefi jeg litla trú á, að þessar rjettmætu brtt. mínar verði samþ. T. d. veit jeg með vissu, að Íhaldsflokkurinn er á móti því að færa kosningarrjettinn niður. Hann veit sem er, að eftir því sem fleiri ungir menn kjósa, eftir því eykst andstæðingunum fylgi. Það er reynsla um allan heim, að ungir og áhugasamir menn eiga ekki samleið með neinum Íhaldsflokki eða afturhaldi. En þó að jeg þykist vita fyrirfram, að till. mínar hafi lítinn eða engan byr, hefi jeg þó ekki hikað við að bera þær fram.

3. brtt. mín er bein afleiðing af 2. brtt., um kosningarrjettinn, eða m. ö. o., að kjörgengur við alþingiskosningar skuli hver sá ríkisborgari vera, sem kosningarrjett hefir. Í raun og veru mætti segja, að ekki sje ástæða til að takmarka með lögum aldur til kjörgengis, heldur láta kjósendur eina um það, eins og víða tíðkast erlendis. En þó fanst mjer rjettara að miða kjörgengið við 21 árs aldur.

Þá er það 4. brtt., sem fer í þá átt að færa út þjóðaratkvæði. Í stjórnarskránni er ákvæði um, að þjóðaratkvæðis skuli leita um breytingar á stjórnarskránni og sambandslögunum, og er þessu þannig fyrir komið, t. d. um stjórnarskrá okkar, að breytingar á henni öðlast ekki gildi nema þingið sje leyst upp og efnt til nýrra kosninga og að hinir nýkjörnu þm. fallist á breytingarnar. Með brtt. minni er ætlast til, að þjóðaratkvæðis megi leita um hvaða þingmál sem er, ef ákveðin tala kjósenda í landinu óskar þess skriflega. Þetta verður vitanlega ekki gert, nema líkindi sjeu til, að annar þjóðarvilji ríki í landinu en sá, er stjórnin reiknar með, að því leyti, er til stuðningsmanna hennar kemur í sjálfu þinginu. Samskonar ákvæði er að finna í stjórnarskrám sumra erlendra ríkja, t. d. Sviss, og hefir þótt gefast vel. Þetta er sjálfsagður hemill á því, hvernig þm. hagi sjer yfir höfuð og aðhald fyrir þá að fylgja vilja kjósendanna.

Jeg hefi með vilja hlaupið yfir 1. brtt. mína, en ætla nú að víkja nokkrum orðum að henni.

Í 26. gr. stjórnarskrárinnar er svo fyrir mælt, að með einföldum lögum megi skipa svo fyrir, að hlutbundnar kosningar til Alþingis fari fram í Reykjavík. Þetta hefir nú verið gert, og eru þannig 10 þm. af 42, sem sæti eiga á Alþingi, kosnir hlutbundnum kosningum, 4 úr Reykjavík og 6 landskjörnir. Þetta er gert til þess, að flokkarnir njóti meira jafnrjettis. En ef þetta er rjett ályktað og hefir þótt nauðsynlegt, þá ætti sama að gilda annarsstaðar, að minsta kosti í flestum þeim kjördæmum, sem kjósa eiga tvo þingmenn. Það hefir komið fram í einu blaði íhaldsins, að ákveða, að fjórðungskosning væri hlutbundin. Jeg vænti þess, að þessi till. verði prófsteinn á það, hvort hv. þm. Nd. líta svo á, að hlutbundin kosning sje rjettmæt eða ekki, og hvort þeir yfirleitt vilji breyta í það horf, að hlutbundnar kosningar komist á eða ekki.

Jeg ætla svo ekki að tala meira um mínar brtt., en minnast á 3–4 aðrar.

Það er þá fyrst brtt. á þskj. 461, frá hv. 1. þm. N.-M. Er það sjerstaklega liðurinn 2.b., sem jeg get ekki fallist á. Mjer finst það mjög undarlegt, að samþykkja þurfi persónulegar styrkveitingar með 3/5 hlutum atkvæða, en meiri hluti atkvæða ráði um annað. Segjum sem svo, að till. komi um að veita hlutafjelagi fjárstyrk; þá þarf ekki nema einfaldan meiri hluta til þess að samþykkja það, en hluta atkvæða til þess að samþykkja styrkveitingu til efnilegs námsmanns. Jeg get ekki skilið, að þess muni þurfa.

Þá er brtt. á þskj. 468, frá hv. 1. þm. Árn. Jeg get alls ekki fallist á 3. lið þeirrar brtt., þótt jeg hinsvegar geti fallist á aðra liði hennar, um að þing komi saman 20. september, í stað 15. febr. Þetta er alls ekki hægt, ef halda á þeim kjördegi, sem verið hefir og þingið virðist vilja halda, því að þá koma þingkosningar á miðjum þingtíma.

Þá hefir hv. 1. þm. S.-M. komið með brtt. þess efnis, að breyta 33. gr. stjórnarskrárinnar, og á þar líklega við, að halda megi Alþingi á Þingvöllum. En verði þessu breytt, má líka heyja þing annarsstaðar en á Íslandi, því það er skilyrði í stjórnarskránni, að Alþingi sje háð hjer á landi. Jeg legg því eindregið á móti þessari brtt.