02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3514 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Sveinn Ólafsson:

Jeg get byrjað á líkri játningu og fram kom hjá hv. 1. þm. Árn. (MT), að jeg greiddi atkvæði á móti þessu frv., þegar það fór hjer frá 2. umr., og ástæðan til þess, að jeg gerði það, var auðvitað svipuð og fyrir hv. 1. þm. Árn., sem sje sú, að jeg taldi og tel ekki í frv. felast þá rjettarbót, sem ástæða sje til að halda fram til sigurs.

Jeg get látið þess getið strax, að jeg er í rauninni mótfallinn í þessu máli bæði flytjanda frv., hæstv. stjórn, og mínum eigin flokksbræðrum, sem styðja þetta mál og leggja áherslu á það atriði, að fækka þingum. Það er ekki aðeins, að það sje engin rjettarbót; jeg tel þvert á móti, að það sjeu hrein rjettarspjöll, spilli að miklu leyti því stjórnarfari, sem nú er. Það dregur bersýnilega, eins og fleiri að vísu hafa fundið, þó að óbeint sje, vald og áhrif á þau opinberu mál úr höndum þjóðarinnar og flytur það vald að sama skapi yfir í hendur stjórnarinnar, dregur þannig valdið úr höndum þingsins og felur það stjórninni. Hún verður miklu einráðari en áður og aðhaldsminni, og það, sem sjerstaklega er ætlast til, að verði að ávinningi — þingafækkunin — verður beinlínis til tjóns. Jeg legg alls engan trúnað á það, að í reyndinni verði nokkur þingafækkun. Ef til vill kynni svo að verða einu sinni eða tvisvar, meðan nýjabrumið væri mest, en heldur ekki oftar. Úr því yrðu aukaþing annaðhvert ár og hin árin fjárlagaþing, sem vegna erfiðleikanna við að búa til fjárlög fyrir tvö ár í senn myndu verða snögt um lengri en nú gerist, auk allra þeirra missmíða, sem giska má á við tveggja ára fjárlög. Jeg held í raun og veru, að aukafjárlögin fyrir 1921 geti gefið dálitla bendingu um það, hvernig fara mundi, þegar Alþingi ætti að fara að geta í eyðurnar og búa til fjárlög fyrir löngu ókominn tíma, tíma, sem lægi nærri heilt kjörtímabil framundan.

Hjer var í raun og veru boðið miklu álitlegra boð en nú liggur fyrir við 2. umr. málsins; það boð bauð hv. meiri hl. stjórnarskrárnefndarinnar, og það boð mátti segja, að væri þó raunverulegt sparnaðartilboð, þar sem þingmannafækkunin var, eða niðurfelling landskjörs. En þessu boði var reyndar hafnað, og jeg tel rjett að hafna því, þótt það væri raunverulegur sparnaður að því, af því að það leiddi jafnframt til rjettindaskerðingar fyrir mikinn hluta þjóðarinnar.

Samkvæmt þessu, sem jeg hefi sagt, hlýt jeg nú þannig að greiða atkvæði á móti frv. út úr þessari hv. deild. Jeg geri það hiklaust, af því að jeg lít á flutning málsins eins og loddarahátt. En með því að jeg get ekki vitað, hvort frv. muni ganga fram eða ekki, þá leiðir það af sjálfu sjer, að jeg styð þær till., sem mjer þykja til bóta vera, ef svo ólíklega færi, að frv. yrði að lögum; en þar sem jeg vil ekki styðja frv. sjálft, þá mun jeg að lokum greiða atkvæði á móti því.

Jeg flyt hjer eina ógnar lítilvæga brtt., á þskj. 482, og er hún um það að bæta aftan við 33. gr. stjórnarskrárinnar því ákvæði, að þeirri grein megi breyta með lögum, en sú grein ákveður, að þingið skuli koma saman í Reykjavík, nema konungur, þegar sjerstaklega stendur á, ákveði einhvern annan samkomustað. Aðalástæðan til þess, að jeg ber fram þessa brtt., er sú, að jeg tel rjett, að þjóðin með einföldum lögum geti tekið ákvörðun um þetta efni, alveg eins og hitt, hvenær á árinu þingið eigi að koma saman. Ef þjóðin nú t. d. árið 1930 vildi eða yrði sammála um að flytja þingið úr stað, sem vissulega margir óska eftir og álíta rjett, að gert verði, þá finst mjer rjett, að hún geti það án þess að kostað verði til stjórnarskrárbreytingar til þess að lögfesta þá skipun.

Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) lagði á móti þessari brtt., eins og reyndar fleirum, og fann það til meðal annars, að þessi brtt., ef samþykt yrði, gæti leitt til þess, að ekki aðeins þingið yrði flutt frá Reykjavík, heldur jafnvel til þess, að það yrði flutt úr landi. Jeg þarf nú ekki að skera þessum hv. þm. roð, eins og kallað er, um skilningsleysi, enda veit hann vel, hvað þarna er í efni. Háttv. þm. er vel kunnugt um það, að löggjafarsvið Alþingis nær ekki út fyrir landhelgistakmörkin, og það myndi þegar af þeirri ástæðu ekki geta flutt Alþingi til annara landa. En hinsvegar mætti vissulega ætla, að Alþingi, þó að þetta ákvæði væri rýmkað, færi ekki að setja þingið niður á eitthvert eyðisker, eða þar, sem sjerstaklega óhaldkvæmt væri að hafa það, og vitanlega myndi það verða innan endimarka löggjafarsvæðisins.

Nú er svo ákveðið víðar í stjórnarskránni, eins og líka í þessu frv., sem fyrir liggur, að einstökum ákvæðum hennar megi breyta með einföldum lögum; en það mætti auðvitað, ef maður vildi hártoganir við hafa, geta sjer þess til, að Alþingi notaði einhverntíma þessa heimild til óforsvaranlegra hluta, en slíkt eru alt of langt sóttar samlíkingar og tekur ekki að tala um það.

Samkvæmt því, sem jeg nú hefi sagt, vil jeg láta þess getið, að jeg mun styðja tillöguna á þskj. 489, því að í henni felst vissulega rjettarbót. Á það hafa líka fleiri minst, sem talað hafa, enda tel jeg hana sjálfsagða. Hún færir sem sje aldurstakmarkið niður úr 35 í 30 ár fyrir þá, sem kosningarrjett hafa við landskjör. Einnig skal jeg geta þess, að jeg styð brtt. hv. þm. Str., á þskj. 476, og álít hana sjálfsagða rjettarbót. Fleiri tillögur má nefna; t. d. get jeg vel nefnt 1. lið í brtt. hv. 1. þm. Reykv. (JakM); en jeg vil hinsvegar taka það fram, að jeg álít brtt. þá, sem fram er komin frá hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), hv. þm. Borgf. (PO) og hv. þm. Ak. (BL), töluvert athugaverða, jafnvel hættulega. Jeg er sem sje fulltrúa um það, að ef þessi stjórnarskrárbreyting verður lögfest á þessu þingi, þá líður ekki langur tími áður en þjóðin finnur til þarfarinnar að breyta til árlegra þinga aftur, og þá er það alveg óviðurkvæmilegur þröskuldur í vegi fyrir breytingunni, að þingrof þurfi. Þess vegna vil jeg leggja til, að heimildin til að breyta þessu aftur með einföldum lögum verði látin haldast.

Jeg hirði svo ekki að minnast á fleiri brtt.; jeg lít reyndar misjafnlega á þær, sem hjer liggja fyrir, en jeg skal geta þess út af brtt. frá hv. 1. þm. Árn., sem vill færa þinghaldið til haustsins, að jeg álít það með öllu ósamrýmanlegt við landshætti hjer á landi.

Hv. þm. Ak. hefir lagt til, að þingið byrjaði 1. febrúar, en það er tillaga, sem mjer fellur ekki, því að jeg lít svo á, að því nær sem þingið er flutt vetrarsólhvörfum og myrkri, því ver sje það sett, en því nær ljósi og löngum dögum sem það flyst, því betra, og þá best á miðju sumri eins og var til forna. En báðar þessar brtt. um færslu þingtímans verð jeg að líta á eins og þær sjeu fremur til skaða en bóta.