02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3522 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Jónsson:

Jeg gat um það hjer, þegar Landsbankafrv. var til 1. umr., að jeg myndi bera fram brtt. við stjórnarskrána í sambandi við bankamálið, og hefir henni verið útbýtt hjer á þskj. 480.

Í nál. meiri hluta bankanefndarinnar var þess getið, að þeir nefndarmenn vildu leggja það til, að tekin yrðu upp í stjórnarskrána ákvæði um nokkur grundvallaratriði viðvíkjandi seðlabanka ríkisins, og þá sjerstaklega um það, að seðlaútgáfurjetturinn skyldi bundinn við þann banka, svo að honum yrði ekki ráðstafað á annan hátt, t. d. til einkafjelaga, og að ekki væri hægt með lögum að skuldbinda bankann annaðhvort til að veita lán eða gefa upp skuldir, með öðrum orðum að koma í veg fyrir þá hættu, sem getur verið í því, að löggjafarvaldið hafi alt of bein umráð yfir bankanum og geti notað það vald sitt á krepputímum, eða þá eftir því, sem pólitískum flokkum býður við að horfa. Það hefir verið reynt að koma í veg fyrir þetta með því að selja þessi rjettindi í hendur vissum hluthöfum, og er þá málið komið undir ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarrjettinn, og er þá bankinn trygður gegn þeirri hættu.

Nú sje jeg það, að hjer getur verið um tvær leiðir að ræða í þessu efni. önnur er sú, að fylgja nokkuð mikið orðanna hljóðan, eins og hjá hv. meiri hl. milliþinganefndarinnar, að ekki megi skuldbinda bankann gegn vilja bankastjórnar; en þó hvarf jeg frá því og vildi heldur bera málið fram í því formi, sem fram kemur í bankalagafrv., hafa ákveðnar upphæðir og tímalengd, sem veita má lán til ríkisins úr seðlabankanum. Það er vitaskuld, að þetta getur ekki átt við annað en seðlabankann sjálfan, og það er svo ríkt ákveðið, að ekki megi lána ríkissjóði í neinni annari mynd en hjer er ákveðið, og ekki heldur fara í kringum lögin með því að láta bankann veita lánið óbeinlínis, t.d. með kaupum á verðbrjefum og með þessu er ætlast til, að kveðið sje ríkara að heldur en hægt er að gera í bankalögunum sjálfum, til þess að hindra, að hann verði misnotaður í þessu skyni.

En jeg ætla ekki að eyða löngum tím í það að mæla fyrir þessari brtt., af því að jeg hefi ráðið það við mig að taka hana aftur, en mjer þótti rjett, úr því að henni var útbýtt, að gera þessa stuttu grein fyrir henni. En ástæðan til þess að jeg tek hana aftur, er sú að hv. Ed þóknaðist að meta stjórnarskrárbreytinguna meira heldur en bankamálið, og hefir þess vegna tafið það svo lengi, að það er hjer til 1. umr. á sama tíma og stjórnarskrárbreytingin er það fara hjeðan út deildinni; en jeg hafði samt hugsað, af því að því máli gekk svo greiðlega í fyrra, að það myndi nú sigla beggja skauta byri í gegnum deildina. En nú er svo komið, að hjer eru komnir einhverjir kastvindar, og þá úr annari átt en jeg hafði búist við. Það er eins og sumir háttv. þm. hafi verið að leita með logandi ljósi í þessu máli til þess að finna eitthvað, er þeir gætu hengt hatt sinn á og snúist gegn málinu. Jeg verð nú að segja það að jeg kann ekki við að vera að halda fram breytingu á stjórnarskránni, er á að snerta þessa stofnun, en ef til vill kemst ekki á nú í bráð. Ef frv. það verður samþ. þá er altaf nægur tími til að koma inn í stjórnarskrána ákvæði um seðlabankann á þennan hátt. En fari nú svo, að það verði ekki afgreitt, eða kannske felt, þá stendur þetta ákvæði í stjórnarskránni sem illa gerður hlutur. Er því rjettast að taka till. aftur. Jeg býst líka við, að það sje óhætt að sleppa henni nú, því að það verður nú víst varla liðið meira en eitt ár frá því stjórnarskrárbreytingin er gerð og þangað til menn vilja fara að breyta aftur. Það má alt eins vel búast við því, að hægt verði að koma þessu ákvæði inn í stjórnarskrána fyrir 1930.

Jeg ætla ekki að tefja umr. með því að fara að tala um hinar aðrar brtt. Og um frv. alment ætla jeg heldur ekki að segja mikið. Annars finst mjer nú engin þörf á því að breyta stjórnarskránni. Jeg er það íhaldssamur, að jeg vil halda í hana eins og hún er, svo lengi sem ekki eru í henni ákvæði, sem standa beint í vegi fyrir auknum framförum. En nú er svo komið að það er orðinn nokkuð almennur vilji á prófa þinghald annaðhvert ár. Mjer virðist því sjálfsagt að lofa mönnum að prófa það, því að það er sýnilegt að meðan þetta ekki er gert, þá verður altaf veið að klifa á þessu og þingin tafin með gagngerðum breytingum er ganga í þessu átt. Því er rjett, að menn fái að reyna það og hlaupa af sjer hornin með það. En það er alveg sjálfsagt að það standi opin leið til þess að breyta í þessu aftur með almennum lögum. En verði sú brtt. samþ. sem nemur þetta ákvæði burtu, þá er jeg alveg óviss um, hvort jeg fylgi frumvarpinu áfram.