04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3536 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Torfason:

Jeg verð að segja, að jeg sakna hjer vinar í stað

Þegar mál þetta var rætt hjer í gær, sást hæstv. forsrh. varla, heldur dvaldi hann í Ed. og hlustaði á lítilsverðar umræður um bitlinga til einstakra manna og fyrirtækja, þótt hann vissi, að ekki gat öðruvísi farið en flokkur hans og fjvn. þar vildi vera láta. Þetta er líka komið á daginn. Hann hafði því enga afsökun til þess að vera þar og svívirða stjórnarskrá landsins með því að vera ekki viðstaddur, þegar rætt var um breytingar á henni. Þarna birtist þá hæstv. forsrh., það er óneitanlega skemtilegt að fá að horfa á hann litla stund. (PO: Þá dró niður í þingmanninum). Framkoma hans er fyllilega samboðin frv. því, sem fram var borið. Eins og það var í upphafi, var það ekkert annað en afturhalds- og skemdafrv., ætlað til þess að afla flokki hans fríðinda, ef hægt væri. Hæstv. ráðh. hefir ekki álitið þetta merkilegra mál en svo, að því þyrfti ekki að sinna.

Þá mun jeg víkja að brtt. mínum á þskj. 468. Jeg sje mjer til mikillar gleði, að aðrir þm. hafa síðar komið fram með allar þær till., sem jeg flutti í einu lagi, og með því, að jeg þykist vita, að muni nær að fá þær samþ. hverja fyrir sig en í einu lagi, tek jeg fúslega mínar brtt. aftur.

Jeg gleymdi við 2. umr. að minnast á brtt. um að fella niður það stjórnarskrárákvæði, að þurfalingar missi kosningarrjett, ef þeir hafa þegið af sveit, hvernig sem ástæður þeirra eru. Jeg skal lýsa yfir því, að þessi till. er borin fram sem afleiðing þess, er gerst hefir á þingi í meðferð fátækralaganna. Var þá ekki hægt að koma því atriði að, að mönnum væri veittur styrkur án þess þeir mistu kosningarrjett, nema á talsvert ambögulegan hátt. Þess vegna lít jeg svo á, að sjálfsagt sje að breyta þessu á einhvern veg. Að öðru leyti eru þessar till. fram bornar til þess að sýna mína stefnu í málum þessum, nefnilega þá, að breytingar á stjórnarskránni eigi ekki að gera nema því aðeins, að þjóðin fái einhverjar rjettarbætur samfara þeim; en ekkert slíkt get jeg fundið í þessu frv. stjórnarinnar. Þá skal jeg ennfremur taka það fram, að við nánari og ítarlegri athugun get jeg ekki sjeð, að þessi sparnaðartill. um þinghald annaðhvert ár hafi við nein rök að styðjast. Jeg er þess alveg fullviss, að af því mundi alls engan sparnað leiða, eins og bæði jeg og hv. 1. þm. Reykv. (JakM) færðum rök fyrir í gær. Auk þess, sem tveggja ára fjárlög mundu óhjákvæmilega leiða af sjer mikil fjáraukalög, er enn eitt fyrirbrigði, sem mjög tíðkaðist í gamla daga, og það var það, að hægt var að bera sömu till. upp tvisvar í sömu þingdeild við fjárlögin, og varð það til að auka mjög útgjöldin. Ef það gekk ekki að fá hana samþ. við fyrra árið, þá var hún borin upp við seinna árið, o. s. frv. En það, sem eitt fyrir sig gerir frv. alveg ótækt í mínum augum, er það, að þinginu er ætlað að sjá 32 mánuði fram í tímann frá því að frv. kemur fyrir þingið, en stjórninni er ætlað að sjá ennþá lengra, eða full 3 ár fram í tímann, og það þegar okkar gjaldeyrir reikar á reiðiskjálfi — jeg hika ekki við að nota það orð — og ómögulegt er að sjá, hvernig fer í þeim efnum. Það er á einskis manns færi að sjá það. Jeg verð að segja það, að jeg get ekki trúað þeirri stjórn, sem nú situr, sem er og var svo óskaplega skammsýn í gengismálum okkar, til þess að sjá svo langt fram í tímann. Það stendur líka svo á, að það má búast við meiri breytingum á þjóðarhögum okkar á hverjum 3 árum nú, en áttu sjer stað á 10 árum fyrir stríðið mikla, og þessi breyting mundi þá jafngilda því að fjárlög hefðu verði sett til 10 ára í gamla daga.

Að því er snertir 2. brtt. mína um að staðinn fyrir 35 í 30 gr. komi 30, þá hefi jeg ekki búist við, að hún verði samþ., en þó skal jeg taka það fram, að ef till. á þskj. 489. við 29. gr. um að færa kosningaaldurinn niður í 30 ár, verður samþ. þá er brtt. mína á þskj. 468 að skoða sem viðbót við hana að því leyti, að hver sem er 30 ára og hefir kosningarrjett hafi líka kjörgengi. sú till. er þannig aðeins viðbót.

Hvað 3. till. mína á þskj. 468 snertir, þá er hún sett fram sem bending án þess að mjer hafi dottið í hug, að hún verði samþ. en hún er alveg rökrjett afleiðing af því, sem samþ. hefir verið, að hafa fjárlögin til tveggja ára, nauðsynleg til þess að stytta þann tíma, sem þingið og stjórnin þarf að spá fram í tímann. Hitt er annað mál, að jeg geng þess ekki dulinn, að þeir sem vilja hafa kjördaginn fyrsta vetrardag, verða á móti þessari færslu þingtímans, en þetta á að vera til þess að ráða bót á hinu langa fjárhagsári, og hefi jeg ekki heyrt að hæstv. ráðh. hafi gert ráð fyrir neinu í þá átt. Einn hv. þm. sagði um þessa till., að hún hlyti annaðhvort að vera fram borin af heimsku eða í spaugi. En það er hvorugt. Till. er fram borin í fullri alvöru, sem ábending til hæstv. stjórnar, en hvað hans till. snertir hv. þm. Ak. (BL), um að flytja þingið fram til 1. febrúar, sýnir hún átakanlega, að þm. býst við því að þingið verði lengra með þessu fyrirkomulagi en hingað til, og það bendir ljóslega til, að mikils sparnaðar er ekki að vænta. Það er til gamalt máltæki, sem aldrei verður of oft endurtekið sem segir: Það skal vel vanda, sem lengi á að standa. Jeg verð að segja það, að þetta á við um undirbúning þessa máls frá hendi hæstv. stjórnar.

Jeg vil leyfa mjer að benda á það, að síðan ófriðnum mikla lauk hafa komið fram mýmörg stjórnarskipunarlög um allan heim, svo tugum skiftir og mjer finst, að áður en við förum að gera breytingará okkar stjórnarskrá, þá ætti stjórnin að fela góðum mönnum að athuga þær aðaltillögur til breytinga, sem fram hafa komið og uppi hafa verið með öðrum þjóðum og gefa út rit um þær. Það finst mjer að hefði verið það minsta, sem stjórnin gat gert til að kynna þjóðinni þær hugmyndir, sem helst eru taldar til bóta með öðrum þjóðum. Fyrst þegar þetta hefir verið gert, þá er ástæða til að bera fram í frv. til breytinga á stjórnarskránni. Það á alls ekki að káka við slíkar breytingar að nauðsynjalaus, en frv. stjórnarinnar sýnir greipilega, að engin nauðsyn var að bera það fram og einnig mjög óvandaðan undirbúning frá hendi hæstv. stjórnar. Jeg verð líka að kvarta undan því, að önnur eins lög eins og þessi skuli fyrst vera borin fram í Ed. Það er ábyggilegt, að ef slík lög eiga að ganga í gegn, þá eiga þau fyrst að koma til umræðu hjer í Nd. svo að hún hafi tíma til að athuga þau áður en annirnar eru orðnar alt of miklar undir þinglokin. Það er miklu hægra fyrir hv. Ed. að komast af með lítinn tíma. Annars get jeg vel hugsað mjer að hæstv. stjórn hafi haft sjerstaka ástæðu til að bera frv. fyrst fram í Ed. Ef til vill hefir ráðið sama ástæðan eins og árið 1885 þegar flengingarfrv. sæla var borði fram í Ed. en ekki í Nd. Það var vegna hinna konungskjörnu þm. þá og eins er nú ástatt í hv. Ed.hæstv. stjórn þykist ráða þar lofum og lögum. — Eins og jeg gat um áðan, sást hæstv. forsrh. aðeins snöggvast í gær hjer í deildinni, og sýnir það virðingaleysi hans fyrir þessu máli. Og það sem hæstv. ráðh. gerði, þegar hann loks kom var ekki annað en það, að hann gat um þær brtt., sem fram hefðu komið, en rökræddi ekkert mótbárur sínar. Hann ljet sjer nægja að segja um brtt. eins og Oddur Sterki af Skaganum; Jeg er á móti honum. En þessar till. eru um rjettarbætur til handa þjóðinni, og ef þær verða samþ. þá getur þingið komist skammlaust frá þessu máli, en ekki ella, því að að segi jeg síðast orða að frv. eins og það kom frá hendi hæstv. stjórnar er ærulaust eins og ærulausu kýrnar hans Sigurðar á Selalæk.