04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3548 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Torfason:

Það stóð svo á, að hæstv. forsrh. var ekki við, þegar jeg hjelt fyrri ræðu mína, svo að jeg verð að svara honum, þegar jeg er forseti taki það til greina og verði ekki mjög nískur á tímann.

Hæstv. forsrh. byrjaði á því að segja, að jeg hefði ausið hann auri. Það gerði jeg ekki og það geri jeg aldrei jafnvel ekki ráðherra. Jeg hefi aðeins talað um hans stjórnarmennsku, sem er alt annað mál, og lýst skoðun minni á henni og frv. því sem hjer liggur fyrir.

Hæstv. ráðh. vildi láta vera sem jeg hefði hálftekið aftur 2. till. mína á þskj. 468. Það er þvert á móti. Jeg vildi einmitt benda á að sú tillaga væri í samræmi við brtt. á þskj. 489 og henni til uppbótar.

Hæstv. ráðh. var að tala um sparnað. Já, hann lítur auðvitað svo á, að þetta frv. sje sparnaðarfrv. en jeg tel sparnaðinn út af fyrir sig enga rjettarbót. Það mætti þá eins segja, að það væri rjettarbót fyrir kjósendurna, að kosningarjetturinn væri tekinn af þeim, því að óneitanlega væri það sparnaður að þurfa ekki að ómaka sig á kjörfundi. Jeg viðurkenni heldur ekki, að hjer sje um neinn sparnað að ræða. Jeg hafði vitaskuld í háttv. Ed. heyrt ráðh. segja að fjárlögin mundu betri, ef þau væru gerð fyrir 2 ár í einu, en jeg er alveg hissa á því, að hæstv. ráðh. skuli láta sjer detta í hug að koma með slíka fyrru. Það er svo sem álíka eins og ef hæstv. ráðh. teldi sig nú á fimtudegi geta betur spáð um veðrið á sunnudaginn kemur en á morgun. En til þess að taka dæmi úr reynslunni sjálfri, skal jeg vitna í það, að ef við í fyrra hefðum átt að búa til fjárlög fyrir árið 1928, hefðu þau áreiðanlega orðið miklu hærri en nú. Sparnaðarhugur þingsins hefir mikið aukist síðan í fyrra, sem von er, þar sem allir landshagir eru á hraðri leið niður á við. Þessu þýðir ekkert að mótmæla. Jeg er líka sannfærður um, að sparnaðar tillögur stjórnarskrárinnar verða aldrei framkvæmdar, að minsta kosti ekki fyr en gengið er í „pari“ eða búið er að stýfa.

Hæstv. ráðh. þóttist hafa góðar og gildar ástæður til að vera ekki við, þar sem hann hefði endilega þurft að vera viðstaddur í Ed. En jeg hlýt að líta svo á, að í Ed. hafði verið miklu ómerkilegra mál á dagskrá en þetta er, og ef hæstv. ráðh. getur ekki verið við, er ekki annað fyrir hann að gera en að láta taka málið af dagskrá, þangað til hann getur sint því.

Hæstv. ráðh. er að bera á mig, að mig langi til að sitja á hverju þingi. Þessu þarf jeg ekki að svara. Það er altaf hægt að koma með slíkar getsakir, og jeg er hissa á, að hæstv. ráðh. skuli leggjast svo lágt. Hann má vita það, að bæði jeg og aðrir þingmenn viljum gjarnan hafa þingin styttri en þau eru nú. Hæstv. ráðh. getur ekki brugðið mjer um, að jeg hafi á nokkurn hátt reynt að tefja þingið með mælgi eða öðru slíku, enda hefi jeg embætti að gegna, sem bíður tilkomu minnar.

Þá vildi hæstv. ráðh. halda því fram, að það væru góð vinnubrögð að láta stjórnarskrármálið ekki koma hjer til meðferðar fyrir en þetta. Þessu verð jeg að mótmæla. Hjer í hv. deild var mjög lítið að gera framan af þingtímanum. Ef slík stórmál eiga að athugast vel, þá er altaf siður að bera þau fyrst fram í stærri deildinni, ef þau hafa ekki legið fyrir henni áður, eins og var t.d. um bankafrv.

Tillaga mín var ekki lítilfjörlegri en svo, að komið hafa síðar fram samskonar tillögur frá öðrum þm.Hæstv. ráðh. gat sparað sjer alt umtal um landskjörið í minn garð. Jeg hefi ekki nefnt það einu orði. Það er ekki stjórnarbót, miklu fremur fyrirkomulagsatriði, og mætti kalla það lögrjetting, en frekar ekki. — Hæstv. ráðh. endaði með því að líkja mjer við óþekkan strák, sem er hræddur við vöndinn. Það hlýtur að standa í sambandi við það, að hæstv. ráðh. hefir þóst hirta mig. Jeg á vitanlega ekki að dæma um, hvort það hefir tekist eða ekki, en jeg verð að segja, að úr því að honum þykir svona vænt um vöndinn, hlýtur honum að þykja vænt um embættið, sem fylgir honum, en ekki hygg jeg, að honum takist þó nokkurntíma að verða minn böðull.