04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3559 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg var eiginlega alveg búinn að svara fyrirspurn hv. 1. þm. Reykv., en jeg get bætt því við, að úr því að hv. þm. hefir heyrt, að þetta stæði til, þá hefir það komið til mála hjá þeim, sem hafa talað um það, og þá meðal annars við hv. 1. þm. Reykv. En stjórnin hefir ekkert talað um þetta, og það er af þeirri ástæðu, að hún hafði alt aðrar fyrirætlanir að því er snerti fjárlagafrv. en þær, að láta það fara út úr þinginu með þeim tekjuhalla, sem það fór með úr hv. Nd., og þeim fyrirætlunum hefir stjórnin nokkurnveginn komið fram með þeirri rjettingu, sem fjárlögin hafa fengið við 2. umr. í hv. Ed., hvað sem síðar verður; en stjórnin mun leggja fram þá krafta, sem hún getur, til þess áð koma í veg fyrir, að það verði hlaðið útgjöldum á fjárlagafrv. og þar með skapaður tekjuhalli. Hins getur hv. þm. ómögulega vænst, að það sje farið að svara spurningum um það, hvað mundi koma, ef hitt og þetta kæmi fyrir. Náttúrlega getur meðferð þings á fjárlögum orðið til þess, að þing verði rofið, eins og hvert annað sundurþykki á milli þings og stjórnar. —

Mjer skildist hv. þm. gera ráð fyrir því, að stjórnin segði af sjer og ryfi þing. Það getur naumast farið saman; ef slíkt sundurþykki kemur fyrir, þá gæti stjórnin valið um, hvort hún vildi gera, en hún getur ekki hvorttveggja í senn; og hitt hefi jeg aldrei heyrt, að slíkt aukaþing yrði kallað saman til þess að breyta þeim fjárlögum, sem reglulegt þing hefir gert. En jeg vil geta þess, að jeg gef þetta svar að órannsökuðu máli.