04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3561 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Torfason:

Út af svari hæstv. forsrh. viðvíkjandi þingrofi, þar sem hæstv. ráðh. sagði, að hann yrði að líta svo á, ef stjórnarskrárbreyting yrði samþykt, að þá mætti ekki fresta kosningum til haustsins, vildi jeg leyfa mjer að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hann lítur svo á, að þegar þing er rofið samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar, eftir að stjórnarskrárbreyting hefir náð samþykki beggja þingdeilda, og þegar á að rjúfa Alþingi, að þá eigi að fara eftir 20. gr. stjórnarskrárinnar, þegar konungur rýfur Alþingi. (Atvrh. MG: Konungurinn gerir það altaf). Vitaskuld. En það er sjálft þingið, sem skipar fyrir um það, hvenær Alþingi skuli rofið, er það samþykkir stjórnarbót, og framkvæmdarvald konungs þá aðeins formlegt. En er konungur tekur það upp hjá sjálfum sjer að rjúfa þing, móti vilja þingsins, þá á hann að láta kosningar fara fram áður en tveir mánuðir eru liðnir. Þetta skiftir alt öðru máli. Jeg segi þetta af því, að í Danmörku og víðar var t. d. mikið deilt um það einu sinni, hvort takmarka ætti rjett konungs til þess að rjúfa þing og tryggja, að þingið kæmi sem fyrst saman aftur. En þessi ástæða kemur ekki til greina, ef þingið er rofið eftir 76. gr.