02.04.1927
Efri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 5. landsk. (JBald) hefir nú gert grein fyrir ástæðunum til þess, að hann skrifaði undir nál. með fyrirvara. Við hinir sjávarútvegsnefndarmenn, sem höfum athugað þessa breytingu, sem hv. Nd. gerði á frv., álítum, að breytingin sje ekki hættuleg, og gæti undir vissum kringumstæðum verið rjett, að þessi heimild væri í lögunum. Munurinn er þá þessi, að við tveir nefndarmenn, hv. formaður sjútvn. (BK) og jeg, erum þessu samþykkir og leggjum til, að frv. verði samþykt eins og það er nú komið frá hv. Nd., en að 3. nefndarmaðurinn, hv. 5. landsk., er að vísu ósamþykkur þessu ákvæði, en, eins og hann hefir lýst yfir, ætlar hann þó ekki að leggjast á móti frv. fyrir þessar sakir. Það er því óhætt að segja, að sjútvn. leggi til, að frv. verði samþykt eins og það er nú komið frá hv. Nd.