16.05.1927
Efri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3565 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jóhannes Jóhannesson:

Það hefir nú farið sem áður, að stjórnarskrárnefndin hefir ekki getað fylgst að í málinu og komið fram með samhljóða tillögur í því. Jafnvel meiri hluti nefndarinnar hefir ekki að öllu leyti getað staðið saman, því hv. 2. landsk. þm. (IHB) ber fram brtt. við frv. eins og það liggur nú fyrir, sem hv. þm. Vestm. (JJós) og jeg getum ekki fylgt.

Í hv. Nd. hafa orðið þrjár breytingar á frv., er máli skifta, frá því er það fór hjeðan úr deildinni.

Sú breytingin, sem mjer finst skifta mestu, er, að kjörtímabil bæði landskjörinna og kjördæmakjörinna þingmanna er stytt úr 6 árum niður í 4 ár, og geri jeg ráð fyrir, að hv. Nd. leggi langmesta áhersluna á þessa breytingu. Hjer í þessari hv. deild mætti og sú breyting stjfrv. á núgildandi stjórnarskrá, að kjörtímabil kjördæmakjörinna þingmanna var fært upp í 6 ár úr 4, megnri mótstöðu og var talin skerða þjóðræðið að miklum mun. Til samkomulags við hv. Nd. og til þess að stofna ekki stjórnarskrármálinu í voða, höfum við hv. þm. Vestm. og jeg eftir atvikum getað fallist á þessa breytingu á frv. og því ekki komið fram með neina brtt. við 4. gr. þess.

Önnur breytingin, sem orðin er á frv., er sú, að aldur sá, sem kosningarrjettur og kjörgengi til landskjörs er bundinn við, er færður úr 35 árum niður í 25 ár, og er því, eins og frv. liggur nú fyrir, hinn sami við landskjör og kjördæmakjör.

Hjer finst okkur of langt farið, er mismunurinn á landskjöri og kjördæmakjöri í þessu efni er með öllu feldur niður, og getum ekki sætt okkur við það. Við hefðum helst óskað, að landskjörsaldurinn hefði haldist óbreyttur, en til samkomulags við hv. Nd. viljum við þó slaka til og fallast á, að aldurinn verði færður niður í 30 ár, og að því lúta brtt. okkar við 6. og 7. gr. frv.

Þriðja breytingin er í því fólgin, að numið er burt úr stjórnarskránni það skilyrði fyrir kosningarrjetti og kjörgengi til Alþingis; að hlutaðeigandi standi ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk.

Nú er búið að breyta fátækralögunum á þann veg, að eftirleiðis verður allur eðlilegur sveitarstyrkur, sem stafar af elli, sjúkdómum, ómegð, slysum, atvinnuleysi o. s. frv., veittur sem óendurkræfur sveitarstyrkur, og standa þeir, er slíkan styrk fá, ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, og halda því kosningarrjetti sínum og kjörgengi óskertu. Endurkræfan sveitarstyrk fá þeir einir, sem sakir óreglu eða leti hafa orðið styrks þurfandi, og finst mjer satt að segja ekki nema sjálfsagt, að slíkir menn missi kosningarrjett og kjörgengi. Það er mjer mjög ógeðfeld tilhugsun, að menn, sem ekki geta sjeð sjer og sínum farborða sakir óreglu, leti eða annarar ómensku, eigi að fara að sjá fyrir og stjórna okkur hinum. Þegar frv. þetta var til meðferðar í Nd., var ekki útsjeð um það, hvernig fara myndi um fátækralagafrv. stjórnarinnar á þessu þingi, og eins og fátækralögin eru nú, var nokkur ástæða til að fella hið umrædda ákvæði úr stjórnarskránni. Nú er það hinsvegar orðið bert, að fátækralagafrv. verður að lögum á þessu þingi, og er því ekki einasta óþarft, heldur óviðfeldið og skaðlegt að fella ákvæðið niður, því ef veittur, endurkræfur sveitarstyrkur hefir ekki rjettindamissi í för með sjer, mun það verða rothögg á sjálfsbjargarviðleitni margra og auka sveitarþyngslin að miklum mun, og á það að vera trygt með stjórnarskránni, að slíkt komi ekki fyrir, alveg eins og það er trygt með henni, að þjófar og bófar hafi ekki kosningarrjett og kjörgengi til Alþingis.

Tillaga til þess að laga þessa misfellu felst í 1. brtt. á þskj. 569.

Mjer dettur ekki í hug að væna hv. Nd. um það, að þessi breyting verði frv. þar að falli, þar sem nú er sýnt, að fátækralagafrv. verður að lögum á þessu þingi.

Eins og stjórnarskrárfrv. liggur nú fyrir eru í því engin ákvæði um það, hvenær lögin eiga að ganga í gildi, og ef við svo búið væri látið standa, mundu lögin sennilega ekki öðlast gildi fyrri en einhverntíma á árinu 1928, eftir hinum almennu reglum um gildistöku laga. Afleiðingin af því yrði aftur sú, að á þinginu 1928 yrði aðeins hægt að semja fjárlög fyrir eitt ár, nefnilega árið 1929, eftir núgildandi stjórnarskrá, og yrði þá ekki hjá því komist að halda fjárlagaþing árið 1929 til þess að samþykkja fjárlög fyrir árin 1930 og 1931, og leiddi af þessu, að fjárlagaþingin yrðu í framtíðinni árin með stöku tölunni, eins og kosningarnar, en þingin haldin á undan kosningunum, og leiddi aftur af því, að eftir nýjar kosningar kæmi þingið ekki saman fyrri en meira en ári eftir, að kosningarnar væru um garð gengnar, nema aukaþing væru kölluð saman, og hljóta allir að sjá, hve óhentugt og óviðkunnanlegt það væri.

Verði hinsvegar sett inn í frv. ákvæði um það, að lögin öðlist gildi þegar er konungur hefir staðfest þau, má, ef svo sýnist, kalla saman aukaþing í haust — og getur það einnig af öðrum ástæðum verið rjett og hagkvæmt, þar sem almennar kosningar standa nú fyrir dyrum — og samþykkja stjórnarskipunarlögin til fullnustu á því, og geta þau þá verið komin í gildi fyrir Alþingi 1928, og má þá á því þingi samþykkja fjárlög fyrir árin 1929 og 1930, en fjárlagaþing árið 1929 getur fallið niður. Auk þessa vinst það, að fjárlagaþingin lenda á árunum með jöfnu tölunum, en af því leiðir aftur, að aldrei líður langt frá því, að kosningar hafa farið fram og þangað til reglulegt Alþingi á að koma saman.

Vænti jeg þess, að allir sjái, hve mikið vinst við þessa breytingu, en hún felst í 3. brtt. á þskj. 569 og getur með engu móti orðið misklíðarefni við hv. Nd.

En nú gæti svo farið, að af einhverjum ástæðum yrði ekki hægt að halda aukaþing í haust, til þess að samþykkja frv. til fullnustu, eða að mönnum þætti það óhentugt eða vildu spara kostnaðinn við aukaþingið, og má þá samt búa svo um hnútana, að hægt verði á þinginu 1928 að samþykkja fjárlög fyrir bæði árin 1929 og 1930, spara fjárlagaþing 1929 og ná því, að fjárlagaþingin falli á árin með jöfnu tölunum. Ráðið til þess er að samþ. og setja í frv. nýtt ákvæði um stundarsakir eins og það, er 4. brtt. á þskj. 569 hljóðar um, og í því skyni er hún borin fram, og má segja um hana eins og 3. brtt. á því þskj., að óhugsandi er, að allir sjái ekki gagnsemi hennar og að hún geti ekki orðið misklíðarefni við hv. Nd.

Jeg hefi nú gert nokkra grein fyrir brtt. á þskj. 569 og þeirri skoðun minni, að þær sjeu eðlilegar og nauðsynlegar og geti ekki orðið málinu að falli, þótt samþyktar verði. Jeg leyfi mjer því að mæla sem best með því, að þær verði samþyktar í þessari hv. deild, og tel vafalaust, að frv. verði þá samþ. óbreytt í hv. Nd. Jeg fæ ekki sjeð, að tillögurnar sjeu þess eðlis, að nokkur maður, sem greitt hefir frv. atkvæði eins og það liggur fyrir nú, geti hafnað því og snúist á móti því, þótt þessar breytingar verði á því gerðar. Þær væru þá aðeins notaðar sem fyrirsláttur af hálfu manns, sem í raun og veru hefði verið móti frv., þótt hann hafi greitt því atkvæði. Hinsvegar verð jeg að ráða eindregið frá því, að gerðar verði aðrar verulegar eða frekari breytingar á frv., þar eð mjög er hætt við því, að það gæti orðið frv. til falls.

Það eru til menn í þinginu, eins og allir vita, sem telja engra stjórnarskrárbreytinga þörf nú sem stendur, og mjer er ekki ugglaust um það, að ýmsir, sem fylgt hafa málinu, hafi gert það með hangandi hendi og að mikið þurfi ekki út af að bera til þess að þeir snúist á móti því.