16.05.1927
Efri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3574 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Eins og kunnugt er,. á jeg hjer brtt. við stjórnarskrárfrumvarpið, og hefir hæstv. forsrh. (JÞ) skýrt frá efni þeirra, svo um það þarf jeg ekki að fjölyrða, og læt mjer því nægja að skýra afstöðu mína til þeirra.

Mjer er það ekkert launungarmál, að jeg vil ekki missa landskjörið eins og það er nú. Það er óbundið allri kjördæmapólitík og til þess nær ekki þingrof. Það getur verið og hefir verið kjölfesta í þinginu. Jeg tel landskjörið líka hafa gefist sæmilega þessi rúmlega 10 ár, sem það hefir staðið, að það gefi ekki ástæðu til breytinga. Því þetta tímabil, sem það hefir staðið, hafa ekki færri en 5 af 12 landsk. þm. verið ráðherrar, og þar af þrír forsætisráðherrar. Þetta bendir til þess, að í landskjörið hafi ekki verið seilst eftir lökustu mönnunum.

Verði frv. hv. Nd. samþykt, verður hinsvegar lítið eða ekkert eftir af landskjörinu nema „kjörsvæðið“. Jeg bið hv. þm. að taka eftir því, að jeg segi „kjörsvæðið“. Því get jeg ekki unað, og hefi því borið fram brtt. við þau ákvæði, sem jeg með engu móti get aðhylst, en það er stytting kjörtímabils hinna landskjörnu og þingrofsákvæðið. 4. gr. frv. gerir hvorttveggja, að stytta kjörtímabil landskjörinna og láta þingrof ónýta umboð þeirra.

Fyrsta brtt. mín á þskj. 578 miðar að því að fella 4. gr. frv., svo að 27. gr. stjórnarskrárinnar standi óbreytt. Þá sje jeg ekki, að ástæða sje til að gera Reykjavíkurþingmönnum hærra undir höfði en öðrum hjeraðskjörnum. Það er síst ástæða til að kjósa varamenn í Reykjavík, þar sem hægt er að kjósa þingmenn með stuttum fyrirvara. Þess vegna hefi jeg með orðunum „um alt land“ í 2. brtt. lagt til, að 28. gr. stjórnarskrárinnar fái að þessu leyti að standa óbreytt. Það væri þá nær að taka upp þá gömlu tilhögun, sem gilti frá 1848 til 1874, að hafa varamenn í öllum kjördæmum. Jeg álít óþarfa að gefa Reykjavíkurkjördæmi þessa sjerstöðu og legg því til með 2. brtt. minni, að 28. gr. stjórnarskrárinnar standi óhreyfð.

Þriðja og fjórða brtt. mín er nauðsynleg afleiðing af 1. og 2. brtt. minni. Sama máli er að gegna um 5.–6. brtt., við 10. gr. Þær helgast af því, að jeg vil ekki, að nokkur vafi geti verið á því, að þingrof sje með öllu áhrifalaust á landskjörið.

Það hefir flogið fyrir, að aukaþing ætti að halda í ár til þess að samþ. stjórnarskrána í annað sinn. Ekki talið hægt að setja fjárlög á febrúarþinginu næsta ár fyrir 1929–’30, nema svo væri gert. En þetta er ekki rjett; fyrst og fremst er mjer nær að halda, að þessi „sæla“ stjórnarskrárbót yrði ekki samþ. á næsta þingi, hvor flokkurinn sem ofan á yrði, og þá væri 100–150 þús. kr. þinghaldskostnaði kastað í sjóinn. Að hjer er ekki of hátt ályktað, má sjá af því, að 1925 mun þingkostnaðurinn hafa verið um 270 þús. kr. En slík „flotheit“ sætu illa á þinginu nú og ekki ólíklegt, að þau kynnu að orka tvímælis hjá hv. kjósendum. En þó að stjórnarskrárfrumvarpið yrði samþ. í annað sinn og til kæmi að setja fjárlög á næsta reglulegu Alþingi fyrir 1929–1930, þá þyrfti ekkert aukaþing að halda til þess, hvorki í ár nje næsta ár. Það mætti samþ. stjórnarskrárbreytinguna í byrjun febrúarþingsins með afbrigðum frá þingsköpunum og fá staðfestingu konungs með símanum og síðan samþykkja fjárlög á sama þingi. Að þessu lýtur 6. brtt. mín, enda sje jeg á þskj. 569, sem mjer barst eftir að brtt. mínar fóru í prent, að annaðhvort hefir aukaþingsfrjettin ekki verið áreiðanleg eða horfið hefir verið frá henni aftur, — eða er ekki svo? Sje þessi skilningur minn rjettur, stendur í rauninni á sama, hvort brtt. mín eða 3. og 4. liður á þskj. 569 verður samþykt, og er þó síðari leiðin líklega fult svo heppileg vegna upphafs 38. gr. stjórnarskrárinnar, enda mun jeg samþykkja hana. Jeg get því tekið 6. brtt. mína aftur í þessu sambandi vil jeg geta þess, að jeg tel eðlilegast, að kosningar fari ekki fram fyr en í haust, þó að stjórnarskrárfrv. yrði samþ. á þessu þingi. Kæmi það best heim við neitun Alþingis á að flytja kjördaginn. Væri og í því falin sanngirni bæði við kjósendur og þá þm., sem ætla að gefa kost á sjer til þingsetu aftur. Kjósendur gætu annars ekki haft nokkra þekkingu á gerðum fulltrúa sinna á þessu þingi og þm. ekki varið gerðir sínar, ef kosningar ættu að fara fram í júlí, og væri það því að því leyti bein fjarstæða að færa kjördaginn. Þá má líka benda á, að 1908 liðu 4 mánuðir milli þingrofs og kosninga og 1913 51/2 mánuður.

Jeg kem þá að aðalatriðinu, sem vakti fyrir meiri hluta nefndarinnar. (JJ: Hv. þm. (IHB) er ekki meiri hluti). Á brtt. mínum stendur ekki, að þær sjeu frá meiri hl., heldur frá Ingibjörgu H. Bjarnason. Fyrir meiri hl. stjórnarskrárnefndarinnar hjer í hv. deild vakti aðallega eða jafnvel eingöngu þrent, sem sje 1. fækkun þinghalda, 2. vörn gegn því, að kjósa þyrfti nýjan varamann, ef svo slysalega færi aftur, að aðalmaður og upprunalegur varamaður fjellu frá, og 3. viðnám við því, að landskjör kæmi í bága við þjóðhátíðina 1930. öllum þessum þrem atriðum fylgi jeg enn. Jeg samþykki 1. gr. Nd.-frv., sbr. 8. og 9. gr. frv., þó mjer líki ekki viðbótin, um að ákveða megi árlegt þinghald með einföldum lögum. Með því er þó fjárlagaþing annaðhvert ár komið — á pappírinn. — Jeg er einnig samþ. úrfellingu 5. gr. á orðum 28. gr. stjórnarskrárinnar: „en varamenn skulu vera jafnmargir og þingmenn kosnir hlutbundnum kosningum um land alt“. Með þeirri úrfellingu og síðari breytingu á 73. gr. kosningalaganna er 2. atriði borgið, og er þá eftir 3. atriðið, vörn gegn því, að þingkosningar trufli alþingishátíðina 1930. Ráðið til þess liggur í brtt. mínum við 10. gr. frv. Og meira að segja er með því jafnframt opnuð leið til þess, að sameina mætti landskjör og hjeraðskjör, sem sumir leggja nokkuð upp úr.

Gangi þessar tillögur mínar fram, þá yrði kosið í stað eldri helmings landskjörinna árið 1931, um leið og hjeraðskjörið færi fram, og árið 1934 í stað yngri helmingsins, o. s. frv. Það þarf varla að gera ráð fyrir þingrofi án stjórnarskrárbreytingar, enda þótt það hafi komið einu sinni fyrir, árið 1908.

Jeg hefi nú skýrt brtt. mínar svo, að jeg mun láta þar við sitja. Þykist jeg hafa fært rök að því, að þær eru ekki lakari en aðrar brtt. og jafngóðar þar, sem þær falla saman við aðrar brtt.