16.05.1927
Efri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3584 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg ætla að byrja með því að svara hv. 1. landsk. (JJ) nokkrum orðum.

Mjer skildist á honum, að það væri ekki alveg vonlaust að ná samkomulagi við hann um afgreiðslu málsins, en aftur á móti virðist einskis slíks að vænta af hv. 2. þm. S.-M. (IP), eftir hans ræðu að dæma. Háttv. 1. landsk. spurði, hvers vegna stjórnin hefði lagt áherslu á kosningalagabreytingu, og kallaði það aukaatriði.

Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Stjórnin taldi það alveg sjálfsagt, hvenær sem gerð væri breyting á stjórnarskránni, að gera um leið leiðrjettingu á landskjörinu.

Hún áleit enga meiningu í því að kveðja alla þjóðina að kjörborðinu í einu til þess að kjósa 3 þm., eða jafnvel ekki nema einn, eins og átti sjer stað síðastliðið haust. Hún áleit þetta sjálfsagða lagfæringu á stjórnarskránni og var jafnsannfærð um það þegar í byrjun eins og nú, að þetta á að gerast, hvort sem menn nú vilja kalla þetta aukaatriði eða aðalatriði.

Þá spurði háttv. 1. landsk. að því, hvers vegna stjórnin hefði gengið inn á brtt. hv. 1. þm. Reykv. (JakM) um það, að allir þm. skuli kosnir til 4 ára. Í sambandi við þetta vil jeg minna hv. 1. landsk. á það, sem áður hefir farið okkar á milli hjer í deildinni út af lengingu kjörtímabilsins.

Stjórnin hafði stungið upp á öðru, en orðað greinina alveg eins og gert var í brtt. hv. 1. þm. Reykv., að undanskildu því, að uppástunga stjórnarinnar var um 6 ára kjörtímabil, en till., sem samþ. var í Nd., 4 ára. Þetta hafði áður verið rætt hjer, og bæði hv. 1. landsk. og hv. 2. þm. S.-M. voru óánægðir með 6 ára kjörtímabilið. Nú hefi jeg gengið inn á þessa tilslökun til samkomulags, að ákveða kjörtímabilið 4 ár í stað 6. Þessi brtt. kom aldrei fram hjer í því formi, sem hún þurfti að vera til þess að stjórnin gæti gengið inn á hana. En þegar hún kom fram í hv. Nd., var þannig frá henni gengið, sem vera þurfti, og þá lýsti jeg því yfir, að jeg mundi ganga inn á hana til samkomulags.

Aftur á móti voru hinar till., sem samþ. voru í hv. Nd., samþ. gegn vilja stjórnarinnar og án minna meðmæla.

Hv. 1. landsk. sagðist ekki sjá neitt fast „plan“ í þessu. En jeg verð nú að segja það, að þegar verið er að bjarga gegnum þingið stjórnarskrárbreytingu, sem verður fyrir andstöðu vegna skiftra skoðana þeirra manna, sem vilja að hún gangi fram í aðalatriðum, þá er það ekki minn háttur að vilja ekkert gera til samkomulags.

Mjer er sama, þó hv. 2. þm. S.-M. og hv. 1. landsk. finni ekki neitt „plan“ í því. Þetta verða menn oft að gera, að sveigja til frá báðum hliðum, til að ná samkomulagi um ýms mál á þingi.

Nú höfum við sveigt til um lengd kjörtímabilsins, svo að hv. 2. þm. S.M. og hv. 1. landsk. hafa fengið það, sem þeir vildu, og jeg vænti því, að þeir sjái sjer fært að fylgja frv. fram við atkvgr.

Þá spurði hv. 1. landsk., hvort þetta frv. ætti aðeins að skoða sem tilraun stjórnarinnar til að fá kosningar á slætti í sumar, og spurði, hvaða dag jeg hefði hugsað mjer að láta kosningar fara fram. Hann bætti því við, að ef kjördagurinn væri hagstæður, þá væri síður ástæða til að ætla, að hjer væri um kosningabrellu að ræða.

Þessi ummæli gefa mjer tilefni til þess að svara spurningunni ekki að svo stöddu. Mjer er svo ant um, að þetta mál gangi fram, að jeg vil gjarnan reyna að ná samkomulagi við hv. 1. landsk. og flokk hans um kjördaginn. Jeg er einnig fús til að sveigja til í því efni, ef það mætti verða til þess að bjarga málinu gegnum þingið.

Háttv. 2. landsk. (IHB) vill hafa landskjörið eins og það er, og skal jeg ekki deila um það, en er, eins og jeg hefi áður lýst, alveg á gagnstæðri skoðun um þetta. Mjer finst það alveg misráðið að kalla alla kjósendur saman um alt land til að kjósa 3 þm. á miðju kjörtímabili. Það er einmitt að mínu áliti annað aðalatriði frv. að fá þessa lagfæringu á landskjörinu.

Því, sem háttv. 2. landsk. sagði um aukaþing í haust, hefi jeg svarað. Það er nefnilega hægt, með því að setja inn ákvæði um það, að stjórnarskráin öðlist gildi jafnskjótt og konungur hefir undirskrifað hana, að setja þegar á næsta þingi, 1928, fjárlög fyrir tvö ár. (IHB: Er þá aukaþing í haust útilokað?). Það er útilokað, að halda þurfi aukaþing í haust vegna stjórnarskrárinnar. En það getur altaf komið fyrir eitthvað það, sem geri það nauðsynlegt að kalla þingið saman, en eins og stendur er ekki neitt, sem bendir á það, að þess muni þurfa í haust.

Að öðru leyti vil jeg taka það fram út af orðum hv. 2. þm. S.-M. um meiri hluta nefndarinnar, að það er ekkert í brtt. hv. 2. landsk. á þskj. 578, sem fer í bága við brtt. á þskj. 569, svo að hv. 2. landsk. (IHB) getur vel fallist á till. meiri hl., þó að hún hafi borið sínar brtt. fram út af fyrir sig. (IP: Gerir hún það?). Um það skal jeg ekkert segja, þó að jeg telji hana vel geta það. Hv. þm. (IHB) sagði, að ekki mætti hafa stjórnarskrárbreytingu að leikfangi, og jeg er henni alveg sammála um það. En jeg tel ekki, að málið sje haft að leikfangi, þó að stjórnin vilji koma nokkuð til móts við óskir annara til þess að koma aðalatriðum málsins fram. En til þess þarf það meiri hl. í hvorri þingdeild í einhverri mynd. Mjer er full alvara að gera alt, sem í stjórnarinnar valdi stendur, til þess að málið gangi fram. Í frv. eins og það er nú eru öll þau höfuðatriði, sem stjórnin taldi vera í stjfrv. og hún lagði mesta áherslu á þegar í upphafi. Jeg hefi aldrei talið ákvæðið um lengd kjörtímabilsins neitt höfuðatriði, en hitt legg jeg áherslu á, að landskjörinu verði breytt svo, að kosningar til þess geti farið fram samtímis og kjördæmakosningarnar.

Jeg vil ekki gera hv. 2. þm. S.-M. sömu skil og bregða honum um alvöruleysi 4 þessu máli. En það virðist þó liggja nærri, þar sem hann var málinu fylgjandi við fyrri umr. hjer í deildinni, en nú snýst hann á móti því, einmitt þegar það er komið í það horf, að það er nær hans óskum, eins og þær hafa komið fram hjer áður, en þá var.

Hv. þm. hjelt því fram, að öll gildandi ákvæði um stundarsakir ættu að falla niður.

Fyrsta ákvæðið snertir kosningarrjett þeirra manna, sem ekki hafa fengið hjer ríkisborgararjett, og það verður að standa meðan þeir eru á lífi.

Hv. þm. endaði ræðu sína með því að láta í ljós þá von, að frv. yrði ekki samþykt á næsta þingi, þótt það næði nú fram að ganga. Þetta segir hann auðvitað sem andstæðingur málsins. Annars gæti hann ekki alið slíkar vonir í brjósti. Jeg fyrir mitt leyti efast ekki um, að frv. verður samþykt á næsta þingi, ef nú næst samkomulag um það.