16.05.1927
Efri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3596 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

* Jeg hefi ekki miklu að svara hæstv. forsrh.; honum hefir oft tekist betur að halda á sínum málstað en í þetta sinn. Hann vildi ekki beinlínis bera mjer á brýn alvöruleysi í þessu máli, en þó kvað hann liggja nærri að álykta svo samt sem áður, vegna þess að málið lægi nú nær því, sem áður var talið, að það ætti að afgreiðast. — En það er nú bara þetta, að jeg get ekki sjeð, að málið hafi nálægst það horf, sem jeg mundi hafa getað felt mig við að fylgja því í. Jeg tók það fram, hver breyting hefði orðið á málinu í hv. Nd., og jeg geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. minnist þess, að í vetur við 2. umr. þessa máls kom það skýrt í ljós, hvað jeg hefði sjerstaklega að athuga við frv., og það var einmitt breyting landskjörsins. Þetta sannar till. mín, sem jeg þá bar fram um þessa leiðrjettingu, sem stjórnin telur nú og taldi þá, að væri mjög nauðsynleg á stjórnarskránni. Jeg á við þá leiðrjettingu, að kjördæmakjör og landskjör fari saman. Jeg játaði það þá — og játa enn —, að með því má fá dálítinn sparnað, án þess að gildi landskjörsins sje á nokkurn hátt raskað. Till. mín í vetur gekk í þá átt að sameina kosningar án þess að kjörtímabil landskjörinna væri stytt og án þess að þingrof næði til þeirra. Þetta er hæstv. ráðh. vel kunnugt, og því er ástæðulaust að sveigja að því, að hjá mjer sje að finna sama alvöruleysið í þessu máli eins og jeg hefi gefið í skyn og hefi þóst sjá skína út úr meðferð málsins í þinginu. Jeg er algerlega samkvæmur því, sem fram kom í hv. deild, þegar málið var til 1. umr. Það er einmitt þetta, sem jeg lagði áherslu á í mínum dómi, að landskjörið sje þýðingarlaust, nema sem einskonar uppbót á kjördæmaskipuninni fyrir þau hjeruð, sem verða hart úti með núverandi kjördæmaskipun. Þetta er öllum ljóst, og þess vegna er ekki minsti fótur fyrir því að gefa í skyn, að jeg hafi á nokkurn hátt breytt um stefnu.

Hæstv. ráðh. sagði, að í frv., eins og það nú liggur fyrir, hafi jeg og hv. 1. landsk. (JJ) fengið í fullum mæli það, sem við óskuðum. (Forsrh. JÞ: Það sagði jeg ekki!). Jeg skrifaði orðin niður. Þetta er misskilningur. Við höfum ekkert fengið annað en það, að kjördæmakjörnir og landskjörnir skuli kosnir samtímis. Það er eitt af þeim atriðum, sem við lögðum áherslu á, en það var ekki það eina. Á hinn bóginn hefir kjörtímabil landskjörinna verið stytt, og þá á að kjósa alla í einu. En aðalgallinn, sem við höfum talið á frv., er það, að þingrof nær til landskjörinna þingmanna. Mál þetta hefir með öðrum orðum heldur spilst í meðferðinni heldur en batnað. Hæstv. ráðh. tjáði sig sammála, að stjórnarskrárbreytingu ætti ekki að hafa að leikfangi. Jeg er þakklátur honum fyrir þá viðurkenningu, en jeg hefði helst óskað, að sú viðurkenning hefði komið fram í einhverju fleiru en orðunum. Hann tók fram, að höfuðáherslan hefði verið lögð á, að landskjör og kjördæmakjör færu saman. Gallinn er, að það er engin áhersla lögð á það; það liggur nær að ætla, að lögð sje áhersla á að gera landskjörið þýðingarlaust. Það er það, sem mjer virðist maður fá út úr þessu öllu saman.

Út af þeim orðum, sem fjellu frá mjer um bráðabirgðaákvæði, þá má það vel vera rjett, að fyrsta bráðabirgðaákvæðið, sem nú er í stjórnarskránni, sje enn í gildi og hljóti að verða í gildi. Þó álít jeg, að það geti verið álitamál. En um hin ákvæðin er jeg í engum vafa, að þau eru búin að fullnægja sínu gildi.

Að endingu sagði hæstv. forsrh., að ef breytingin gengi fram nú, efaðist hann ekki um, að hún gengi fram á næsta þingi. Við getum náttúrlega látið uppi spádóma og gert okkur fræga fyrir, en jeg verð að segja, að mjer þykir líkara, að minn spádómur rætist. Það skyldi þá helst liggja í því, ef gagnstætt reyndist, að sú ráðstöfun, sem kann að verða gerð um kosningarnar, hvenær þær fari fram, geti valdið því, að kjósendur úti um landið hafi ekki átt kost á að átta sig á málinu. Það er varla hægt að vænta þess, að kjósendur sjeu búnir að því fyrir júlíbyrjun. Það skyldi þá verða þetta, sem gerði það að verkum, að fylgismenn þessa frv. yrðu í meiri hluta við kosningarnar.

Hvernig í ósköpunum eiga menn að fara til kosninga um annað eins mál og þetta? Jeg býst alls ekki við, að kjósendur kjósi með tilliti til stjórnarskrárinnar. Enda er það það sanngjarnasta, að þjóðin líti á þetta mál sem lítils virði og byggi kosningarnar á alt öðrum grundvelli. Og það eitt meðal annars sannar það, hve lítils virði og óþarft þetta mál er, að það er ómögulegt fyrir nokkurn flokk að ganga til kosninga með þetta mál sem grundvallaratriði.