16.05.1927
Efri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3601 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Mjer finst það dálítið undarlegt í slíku máli, þegar spurt er um það, hvort kosningar eigi að fara fram þegar í sumar eða þá ekki fyr en í haust, að þá þykist hæstv. stjórn enga hugmynd hafa um það ennþá, og eru þó ekki nema 1 eða 2 dagar eftir af þessu þingi. Það er og álit allra, að stjórnarskrárbreytingin verði samþykt, þrátt fyrir alt ósamkomulag, og því er furðulegt og næsta ósennilegt, að hæstv. stjórn hafi ekki gert sjer neina grein fyrir þessu. Hitt mun sanni nær, að hún þori ekki að láta neitt uppi um fyrirætlanir sínar, áður en hún lætur þingið fara heim. Hún heldur, að ráðstafanir sínar þoli ekki dagsljósið. Auðvitað er hæstv. stjórn þegar búin að gera sjer einhverja hugmynd um þetta. Jafnvel þótt út kæmi í dag auglýsing um kosningar 1. júlí, þá er tíminn samt of stuttur. Hæstv. stjórn getur gefið yfirlýsingu um það, hvað hún hafi hugsað sjer að gera í þessu máli, fyrir því, að hún hlýtur að hafa tekið ákvörðun nú þegar. En hún vill ekki svara. Hæstv. forsrh. (JÞ) hefir sagt, að hann vildi helst ekki hafa aukaþing í sumar. Það virðist benda á, að kosningar eigi að fara fram í sumar. En ef svo er, þá er verið að brjóta rjett á þjóðinni, með því að gera henni ómögulegt að fá að vita, hvað gerst hefir á þingi í vetur. Og það er kannske vegna þess, að hæstv. landsstjórn vill ekki láta afrek sín verða upplýst frammi fyrir alþjóð, að hún ætlar nú að flýta kosningum sem mest hún má.