16.05.1927
Efri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3602 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skil það af orðum hv. 5. landsk., að hann er hræddur við, að kosningarnar komi fljótt, og telur hann það verra fyrir flokk sinn. Jeg hjelt satt að segja, að hann hefði haft nægan tíma til þess að koma með aðfinslur í garð stjórnarinnar og koma þeim út um landið nú í 3 ár. Það verður ekki öðruvísi tekið en sem hól um stjórnina, ef hann álítur, að kosningar muni ganga henni í vil, ef þær fara fram með stuttum fyrirvara, því að hvorki hefir hann nje aðrir andstæðingar sparað að naga um hryggjarliði stjórnarinnar. Það er þá eitthvað annað um þessa stjórn en aðrar, ef hún á hægt með að ganga til kosninga undirbúningslaust. En hún hefir líka setið lengur en nokkur önnur stjórn í Evrópu, og því býst hv. 5. landsk. við því, að hún verði lífseig áfram. Er gott að fá slíkan spádóm svona rjett undir þinglokin.