18.05.1927
Neðri deild: 81. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3611 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Hjeðinn Valdimarsson:

Mjer virðist þetta frv. hafa tekið allmiklum breytingum, og ekki til batnaðar, sjerstaklega vegna þess, að kosningarrjetturinn til landskjörs hefir verið færður upp í 30 ára aldur, og menn, sem hafa þegið sveitarstyrk, missa kosningarrjett af þeirri ástæðu.

En það virðist nokkurnveginn sjeð, að stjórnarskráin eigi fram að ganga á þessu þingi eins og hún liggur nú fyrir, og ráði því hv. efri deild endanlega efni hennar, eins og sú deild rjeði að lokum fjárlögunum. Hjer eru höfð hausavíxl á hlutunum, þannig, að það sje Ed., sem ráði gangi stórmálanna, en ekki Nd., sem þó er ætlast til í stjórnarskránni, að sje aðaldeildin, sem mestu ráði. Það er hæstv. landsstjórn, sem hefir ráðin í Ed., og er þetta því gert með hennar vitund og vilja og á hennar ábyrgð, enda kemur það heim við þröngsýnis- og lýðkúgunaranda hennar og Íhaldsflokksins.

Það er tilgangslaust að sinni að deila mikið um þetta mál, en jeg vil þó drepa á, hvernig gengið hefir með stjórnarskrármálið hjer á þingi milli tveggja stærstu flokkanna, Íhaldsflokksins og Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn hefir nú svo lengi, í blöðum og ræðum, útbásúnað nauðsyn þings annaðhvert ár, og að til þess þurfi stjórnarskrárbreytingu, og loks að kjördagur eigi að vera að sumrinu, að hann er búinn að sannfæra kjósendur sína um, að þetta sje hið eina rjetta, þótt hinsvegar þm. flokksins sjálfir sjeu hvergi nærri sannfærðir. Þess vegna er það, þegar slík brtt. við stjórnarskrána kemur fram, að Framsóknarmenn geta ekki snúist í gegn henni, þora það ekki fyrir kjósendum, sem þeir hafa sjálfir afvegaleitt í málinu, þó að þm. flokksins sjái nú, að það er íhaldið eitt, sem græðir á þessari stjórnarskrárbreytingu.

Um Íhaldsflokkinn er það að segja, að það, sem fyrir honum vakir, er í rauninni ekki að fá þing aðeins annaðhvert ár, þótt hæstv. forsrh. sje að vísu ant um að hafa tveggja ára fjárlög, til þess að geta ráðið sem lengst í einu án aðhalds þingsins. En það, sem er mest áhugamál Íhaldsins, er að geta komið fram kosningum á þeim tíma, sem flokknum er hentugastur og andstæðingunum erfiðastur, og þess vegna er stjórnarskrárbreytingin hömruð í gegn, til þess að reyna að koma á sumarkosningu, í stað vetrarkosningar. Við sumarkosningu eru verkamenn dreifðir út um alt land, langt frá heimilum sínum, og eiga því erfitt um kjörsókn og jafnvel ómögulegt. Enda þótt þetta virðist vera aðalástæðan, sem vakir fyrir hæstv. stjórn og Íhaldsflokknum, þá vil jeg þó beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvenær kosningar muni fara fram, ef stjórnarskrárbreyting verður samþykt, og gefa þannig hæstv. ráðh. tækifæri til að afsanna mál mitt, ef hann getur. Það er haft eftir kosningasmölum íhaldsins hjer í bænum, að kosningar eigi að fara fram 1. júlí, og það er hart, að þess háttar menn skuli vera fróðari um slíka hluti og vita fyr um það en þm. andstæðinganna í sjálfu þinginu. Nú er það svo, að þótt þingrof eigi fram að fara þegar stjórnarskrárbreyting er samþykt, þá ber þó eftir kosningalögum og stjórnarskrá engin nauðsyn að láta kosningar fara fram þegar í sumar. Stjórnarskráin segir, að það skuli stofna til kosninga innan tveggja mánaða frá þingrofi, sem merkir, að nægilegt sje að auglýsa kosningu innan tveggja mánaða frá þingrofi, en kosningar þurfa ekki að fara fram þá þegar, og þess vegna væri hægt að hafa kosningar að haustinu til, fyrsta vetrardag, sem er hinn almenni kosningadagur, ekki síst þegar út er runnið kjörtímabilið, eins og nú; en sumarkosning virðist vera það eina, sem getur skapað hina bestu aðstöðu fyrir stjórnina. En alt útlit er fyrir, að hæstv. stjórn ætli að hverfa að því ráði, til þess að níðast á aðalandstæðingum sínum, Alþýðuflokknum.