18.05.1927
Neðri deild: 81. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3625 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Hv. þm. Str. kannast sjálfsagt við máltækið: Heiðra skaltu skálkinn, svo hann skaði þig ekki. Jeg hafði þetta fyrir augum, er jeg skrifaði undir nál. stjórnarskrárnefndarinnar, og hv. þm. Str. veit ósköp vel, hvernig fylgi mínu við þetta ákvæði var varið. Það var berum orðum tekið fram, að niðurfelling landskjörsins væri beint skilyrði fyrir fylgi sumra okkar við frv. Þó að jeg ynni það til að vera með þinghaldi annaðhvert ár fyrir þá bót að fá landskjörið lagt niður, þá er ekki þar með sagt, að jeg hafi ætlast til, að þetta yrði samþykt. Jeg var alveg sannfærður um, að niðurfelling landskjörsins var sama sem að fella frv. Mín afstaða hefir því aldrei verið önnur en sú, að reyna með öllu mögulegu móti að koma frv. fyrir kattarnef. Hv. þm. Str. hefir nú fallið frá skilyrðum þeim, sem við settum í upphafi, en það hefi jeg ekki gert.

Hæstv. forsrh. sagði, að það þýddi ekki að vera að vitna í fjáraukalögin 1926. Jeg var bara að benda á, að það er hægt að eyða fje á margvíslegan hátt, án þess að þingið setji útgjaldaaukandi löggjöf. Jeg hygg, að stjórnunum takist prýðilega að eyða fje á milli þinga. Hæstv. ráðh. ætti líka að vita það, að það er hægt að setja útgjaldaaukandi löggjöf á aukaþingum. Það verður að banna þinghald nema annaðhvert ár, ef það á að ná þessu takmarki. Þá vildi hæstv. ráðh. ekki viðurkenna, að völdin færðust úr höndum þjóðarinnar yfir í hendur einstakra manna með þessu fyrirkomulagi. Vitanlega er valdið ekki endanlega tekið úr höndum þjóðarinnar, en þegar þjóðarfulltrúarnir koma ekki saman nema annaðhvert ár, þá eru völdin tekin af þeim hitt árið.

Þá játaði hæstv. forsrh. það hreinskilnislega, að það væri meining frv. að framlengja kjörtímabil hinna landskjörnu. En með þessu er skýlaus rjettur tekinn af kjósendum landsins. Hæstv. ráðh. getur ekkert um það sagt, hvort þing verður haldið 1931 eða ekki. Það gæti ýmsra orsaka vegna orðið óumflýjanlegt að halda þing þá. En þá kæmu til með að sitja á því þingi 3 landskjörnir þm., umboðslausir af hálfu kjósenda landsins. En þetta eitt ætti að vera nægilegt til þess, að frv. þetta næði ekki fram að ganga.