18.05.1927
Neðri deild: 81. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3627 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg var ekki inni í deildinni og heyrði því ekki ræðu hv. þm. Str., en jeg sje af því, sem hefir verið skrifað niður fyrir mig, að hann hefir verið að endurtaka ýmislegt af því, sem hann hefir minst á áður, svo sem gengishækkun hinnar íslensku krónu. Það er hægt að finna svör gegn því tali hans á nægilega mörgum stöðum í Alþingistíðindunum, svo að það er óþarfi að bæta við það. Þá hafði hann það eftir mjer, að með þinghaldi annaðhvert ár ætti að vera hægt að koma í veg fyrir útgjaldaaukandi löggjöf. En jeg sagði það nú ekki, en hitt sagði jeg, að það mundi vera minni hraði á útgjaldaaukandi löggjöf með þinghaldi annaðhvert ár.

Þá hafði þessi hv. þm. gripið til þess, sem honum er tamast, að fara að gera upp á milli flokkanna um eyðslusemi á landsfje, og nefndi frv. stjórnarinnar um heimavistir við hinn almenna mentaskóla. Þar var nú ekki um aukningu árlegra útgjalda að ræða, heldur fjárframlag í eitt skifti fyrir öll. Jeg skal alls ekki mæla Íhaldsflokkinn undan því, að hann taki tillit til óska landsmanna um ýmsar endurbætur; jeg segi jafnt sannleikann, þótt Íhaldsflokkurinn eigi hlut að máli. Hv. þm. Str. má skemta sjer við það að telja upp hlutdeild Íhaldsflokksins í þessu efni; jeg mun ekki fara að gera hans flokki sömu skil, þó það væri vitanlega hægt. En þessar sjerstöku aðferðir hans vekja hjá mjer ugg um það, að hann mundi ekki vera jafnhreinskilinn og jeg, ef hann þyrfti að segja sannleika, sem sneri broddunum að hans flokki. Það er leiður ágalli, sem þessi hv. þm. hefir, að geta aldrei talað um nokkurt mál án þess að bera lof á sinn flokk, en ófrægja andstæðingaflokkinn.