18.05.1927
Neðri deild: 81. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3628 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Tryggvi Þórhallsson:

Það eru aðeins örfá orð til hæstv. forsrh., og þó aðallega í spaugi sögð. Hann sagðist ekki hafa heyrt það, sem jeg sagði, og var mjer kunnugt um það.

Hann sagðist snúa broddunum að sínum flokksmönnum, þegar þörf væri á, og gerði það í sambandi við þetta mál, en bætti þó við, að það væri meira en jeg gæti gert gagnvart mínum flokksbræðrum.

Jeg vildi nú minna hann á það til gamans, að það kom fyrir í vetur í hv. Ed., að einn hv. þm. var þar á öndverðum meiði við flokksbræður sína, og kom það hæstv. ráðherra til að rifja upp gamalt rímnaerindi, sem hljóðar svo:

Ekki sjer hann sína menn, svo hann ber þá líka.

Þá dró hæstv. ráðh. dár að þessum flokksbróður mínum fyrir að hann sneri broddunum að sínum mönnum.

Úr því verður framtíðin að skera, hvort jeg hefi ástæðu til að snúa broddunum að mínum mönnum. En mjer þykir ekki nema vænt um, að hæstv. forsrh. hefir nú sjeð og viðurkent, að hann þyrfti að snúa broddunum að sínum eigin flokki.