08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (2245)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Það eru aðeins tvö til þrjú atriði í ræðu hv. frsm. minni hl. (BSt), sem jeg þarf að minnast á. Hann kvaðst vilja lýsa sínum góða hug til málsins með því að segja, að þegar gott ár kæmi, væri hægt að leggja fje til þessa fyrirtækis á fjárlögum eða jafnvel fjáraukalögum fyrir það ár, sem yfir stendur. Jeg hygg það sje í samræmi við álit hv. þm. yfirleitt, að heppilegast sje að komast hjá slíkum fjáraukalögum. Hv. þm. veit, að það muni ekki koma til, að veita fje, nema á fjárlögum. Það er með öðrum orðum víst, að með því að taka upp þá reglu, sem hann og minni hl. stingur upp á, þá er málið altaf tafið um eitt ár — og getur hæglega tafist lengur. Tökum til dæmis, að það yrði nú samþykt, að hafa fjárhagsþing annaðhvert ár aðeins. Málinu getur meira að segja verið stefnt út í tvísýnu um alveg óákveðið árabil. Þó að eitthvað batni í ári, þá höfum við enga tryggingu fyrir því, að þeir þingmenn, sem þá sitja, hafi nægan áhuga á þessu máli. Ef það er álit mikils meiri hl. þeirra, er nú sitja á þingi, að mál þetta sje nauðsynlegt, því á þá endilega að leggja það undir álit annars þings, hvenær hafist skuli handa um framkvæmdir, þar sem málið getur tafist með því um óákveðinn tíma? Það er vegna þessa, sem jeg sagði — og notaði þó ekki stærra orð — að það sýndi betri hug til málsins, að samþ. frv. þetta, heldur en hitt, að samþykkja rökstuddu dagskrána.

Hv. þm. (BSt) vildi ekki gera mikið úr þeirri röksemd minni, að komið gæti fyrir, að byrjað yrði á þessu verki, þegar hart yrði í ári, ef stjórnin sæi sig neydda til að veita atvinnubætur. Hann sagði, að altaf væri nóg að ráðast í, ef slíkt kæmi fyrir. Jeg skal ekki segja um það, en þó er það aðgætandi, að í slíkar atvinnubætur er ekki hægt að taka hvaða verk sem er. Það verður að vera verk, sem almennir verkamenn geta unnið; ekki er hægt að setja þá t. d. í að „innrjetta“ landsspítalann eða gera önnur verk, er „fag“-lærða menn þarf til. Það er alls ekki víst, að þau verkefni sjeu altaf fyrir hendi, sem heppileg eru til atvinnubóta. Það er miklu óheppilegra, ef stjórnin þyrfti að vera að leita að slíku verkefni í hvert skifti. Gæti þá komið fyrir, að ráðist yrði fullfljótt í einhverjar framkvæmdir, sem ekki væri tími til að athuga nóg áður, og ónýttist svo meira og minna af verkinu. Slíkt er ekki óhugsandi. Betra, að stjórnin hafi heimild, og geti hún svo snúið sjer að verki, sem búið er að ákveða að vinna. Það er einn meginkostur, að atvinnubætur verði að því sama gagni og væri þær veittar án þess að neyð knýði.

Þá talaði hann enn um það, að það væri yfirsjón, að sýna ekki rektor þessar till. Því svaraði hæstv. ráðh. (MG) og gat þess um leið, að honum hefði þótt það að, að heimavistahúsið ætti að byggja á skólalóðinni og að í stað „sveina“ í frv. ætti að vera „nemendur“. En það er hægt að nema báða þessa steina úr götunni, því að nú liggja einmitt fyrir brtt. um bæði þessi atriði.

Jeg skal ekki taka þátt í þeim deilum, hvort þetta er hliðstætt við símalögin; en jeg er viss um, að þetta er hliðstætt því, sem jeg nefndi, lögin frá 1919 um húsabyggingar ríkisins. Hjer er þó ekki farið eins frekt í sakirnar. Þar er stjórninni gefin ótakmörkuð heimild til að taka lán í þessu skyni. Þá voru menn ekki eins smeykir við það, eins og í gær, þótt ekki væri allar lánsheimildir takmarkaðar vandlega af þinginu, eða þau væru tekin til 20–30 ára. Mig minnir það væri í þessum tilgangi, sem innlenda lánið var tekið, þótt fjeð yrði að fara til annars á þeim árum, þegar þröngt var í búi.

Jeg þarf varla að fara út í það, þegar hv. frsm. minni hl. (BSt) fór að gefa ávísun á Akureyri. Rjett ályktun af þeim rökum hans væri sú, að þá væri þessi heimavist hjer til ills eins, þar sem væri miklu ódýrara að vera á Akureyri. En við vitum nú, hvað mönnum ber vel saman um þetta. Annars þarf ekki annað að segja um þetta en það, að hann gaf hjer ávísun á innstæðu, sem ekki er fyrir hendi, því að á Akureyri er ekkert pláss til að vísa á.

Þá er hv. þm. Str. (TrÞ). Hann kvað mig hafa brúkað hörð og stór orð um þá, sem ætluðu að samþ. dagskrána. Já, öðruvísi mjer áður brá! — Ef hann brúkar aldrei harðari og stærri orð en þau, sem fjell frá mjer og hæstv. ráðh. (MG), þá held jeg engum þyrfti að ofbjóða. Það mesta, sem jeg sagði, var það, að það sýndi betri hug til málsins, ef menn vildu samþ. frv. Hann sagðist alls ekki geta verið með þessu, að heimila stjórninni að taka fje, án þess að veitt væri á fjárlögum. Í fyrra var hjer samþ. að gefa hæstv. stjórn heimild til að reisa hús fyrir veðurstofuna, með alveg sama hætti og hjer er um að ræða. Frv. flaug gegnum deildina, og varla, að menn vildu ræða það. Að vísu sjest ekki, hvort hv. þm. Str. (TrÞ) greiddi atkv. með því; þótti ekki ástæða til að hafa nafnakall, en hv. þm. hefir þá ekki staðið eins vel á verði og nú, að ráðast á þessa óttalegu heimavist. Þetta dæmi sýnir ljóslega, að slíkt hefir oft verið gert með fullu samþykki þingsins.

Hv. þm. var að lýsa fjárskortinum, sem nú er, sem sýndi, hve mikil fjarstæða það væri, að þetta hús yrði reist 1928. Jeg skal ekki segja, að það verði endilega gert 1928, en jeg bendi á það, að í þingbyrjun 1924 var ekki glæsilegt útlit (TrÞ: Skárra en nú!). Það getur verið seint á þingtímanum, þegar fregnir fóru að berast af miklum afla, en í þingbyrjun heyrðist ekki talað um annað en hinar gífurlegu fjárkröggur, og alt yrði að stöðva og kubba niður vegna fjárskorts, en svo reyndist þetta ár eitt af mestu uppgripaárum, sem sögur fara af. Það er altaf vont að spá í þessa átt. En hvort þetta verður gert árið 1928, er ekki aðalatriðið, heldur það, að með því að samþ. dagskrána er málið tafið að minsta kosti um eitt ár.