08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2247)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Jeg var búinn að gera grein fyrir afstöðu minni og minni hl. nefndarinnar og ætlaði að láta þar við sitja, en hv. frsm. meiri hl. (MJ) gaf mjer tilefni til að segja örfá orð.

Hann mintist á það, að það mundi varla koma til mála, að veita fje í þessu skyni í fjárlögum fyrir það ár, sem þá væri að líða. Getur það að vísu vel verið, að fjárveiting komi þá ekki til greina fyr en á fjárlögum fyrir næsta ár á eftir. Hv. þm. sagði, að með þessu móti mundi málið tefjast um eitt ár. Jeg gekk inn á það áðan. En jeg get ekki sjeð, að í þessu efni geti eitt ár haft svo mikið að segja.

Annars er það svo, að það má eiginlega færa nákvæmlega samskonar rök og hv. frsm. (MJ) færði fyrir því, að veita svona lagaðar heimildir fyrir alla skapaða hluti, með öðrum orðum: að gera fjárlögin alveg óþörf. Það má altaf segja svo um allar framkvæmdir, að þær geti orðið fljótari, ef stjórninni er gefin heimild til að taka fjeð úr ríkissjóði, án þess það standi í fjárlögum. Kannske hv. frsm. meiri hl. (MJ) vilji flytja þá till., t. d. til breytingar á stjórnarskránni, sem liggur fyrir, að fjárlög sjeu alls ekki samin, heldur hafi stjórnin ríkissjóðinn í sínum höndum og megi nota hann eins og hún vill. Þetta er í raun og veru alveg í samræmi við hans skoðun.

Hv. frsm. meiri hl. vildi ekki efa, að við minnihlutamenn bærum góðan hug til þessa máls, en sjálfur kvaðst hann bera betri hug til þess, og hans skoðanabræður. Jeg skal ekki leggja beinan dóm á þetta. Hann ber betri hug til þessa frv., en hvort hann ber betri hug til þess, að heimavist komi við skólann, tel jeg vafasamt. Jeg hygg og, að reynslan hafi sýnt það hjer á Alþingi, að jeg hefi yfirleitt borið eins góðan hug til fátækra nemenda og hann. Og jeg hefi gert meiri tilraun til að ljetta þeim námsbrautina en hv. þm. (MJ). Það er enginn vafi, að það er miklu heppilegra fyrir fátæka nemendur út um landið, ef mentaskóli kemur á Akureyri, heldur en nokkurn tíma þessi heimavist hjer, þótt hvorttveggja sje nauðsynlegt. Fyrir því hefi jeg barist á undanförnum þingum, en hv. frsm. meiri hl. (MJ) lagt þar á móti.

Hv. frsm. tók orð mín svo áðan, að jeg teldi, að altaf mundi nóg verkefni til fyrir menn, sem þyrfti að veita dýrtíðarvinnu. Þetta sagði jeg ekki, heldur, að nú á næstu árum mundi nóg verkefni fyrir höndum til slíkrar vinnu, þótt heimavistahúsið bættist ekki við. Og það hygg jeg sje rjett. Mjer sýnist hjer svo mikið um framkvæmdir, sem ekki er lokið, að nóg verði á þessu ári og því næsta, t. d. landsspítalinn.

Þá vildi hv. frsm. telja, að þótt það ef til vill hefði verið ástæða til þess í fyrstu, að bera þetta mál undir rektor mentaskólans, þá væri sú ástæða alveg fallin burt, því að nú væru komnar fram brtt., að í stað „námssveina“ komi „nemendur“, og einnig um að bygging þessi væri ekki bundin við lóð skólans. En gallinn er sá, að brtt. hafa ekki heldur verið bornar undir rektor skólans; og jeg veit ekki, hvort hann muni telja heppilegra að samþ. frv. með brtt. eða ekki, svo að ástæður þessar eru alls ekki niður fallnar.

Jeg þarf ekki fleira að taka fram viðvíkjandi ræðu hv. frsm. Ræðu hæstv. ráðh. (MG) heyrði jeg ekki vel. Mjer skildist hæstv. ráðh. þykja vænt um það traust, sem honum fanst koma fram hjá minni hl. til hæstv. stjórnar. Jeg held hann hafi í raun og veru gert of mikið úr þessu, því að það eina, sem jeg sagði fyrir hönd minni hl., var það, að við bærum ekkert sjerstakt vantraust til stjórnarinnar, að hún misbrúkaði þessa heimild. En við álítum það heppilegra og varlegra, að binda fjárveitinguna við fjárlög.

Þar sem hæstv. ráðh. (MG) beindi til hv. þm. Str. (TrÞ), að hann efaðist um velvilja manna í þessu máli, þá hlýtur hann að hafa meint það líka til okkar minni hl. nefndarinnar. Það má nú altaf segja svona hluti. En jeg get ekki kannast við það, að minni hl. hafi ekkert viljað fyrir málið gera; því að í þeirri dagskrá, sem hann leggur til að samþ. verði, er því beinlínis slegið föstu, að mjer sýnist, að það eigi að byggja heimavistina, þegar ástæður leyfa. Þess vegna finst mjer reyndar, að við viljum dálítið fyrir þetta mál gera, þó að við kærum okkur ekki um að leggja svo mikla áherslu á það, að við teljum þörf á að gefa stjórninni óbundnar hendur um fjárveitingu.