08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2249)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Jón Auðunn Jónsson:

Út af ummælum þeim, sem hjer hafa fallið, vil jeg geta þess, að við gagnfræðaskólann á Akureyri eru ekki nægar heimavistir fyrir þá, sem skólann sækja. Mjer er kunnugt um, að á síðastliðnu hausti voru tveir piltar úr Ísafjarðarsýslu vonsviknir í þessu efni. Þeir höfðu vonast eftir heimavist, en vegna þrengsla gat ekkert af því orðið.

Jeg álít, að nauðsynlegt sje að koma upp heimavistum við þennan skóla. Kostnaður sá, er foreldrar hafa af því, að menta börn sín, er svo mikill, að ekki veitir af, þótt reynt sje að ljetta undir með þeim. Jeg veit það af eigin reynslu, hvað það kostar, að eiga nemendur hjer í mentaskólanum, meðan fyrirkomulagið er svo sem nú er það. Og jeg lít svo á, að þeir, sem vilja koma í veg fyrir, að heimavistahús verði reist fyrir utanbæjarnemendur við mentaskólann, vilji stuðla að því, að Reykvíkingar einir verði færir um að kosta börn sín til æðri mentunar, og það verði nokkurskonar einkaleyfi fyrir þá, að sækja mentun til hinna æðri skóla. Í ræðu hv. frsm. minni hl. fanst mjer og kenna reipdráttar milli Akureyrarskólans og mentaskólans hjer, og þess hugsunarháttar, að ef hjer komi heimavistir, þá muni það tefja fyrir framkvæmd þeirrar hugmyndar, er margir Norðlendingar hafa alið í brjósti, að koma upp mentaskóla á Akureyri. Í þessu máli má ekki hugsa um hjeraðsmetnað einan, heldur hafa það fyrirkomulag, sem gerir sem flestum kleift að afla sjer mentunarinnar.