14.05.1927
Efri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2260)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Hæstv. mentamálaráðherra hefir nú skýrt málið frá sínu sjónarmiði, en ekki hefir það verið til styrktar hans málstað, heldur þvert á móti styrkt mótmæli mín. Hann játar, að staðurinn sje óákveðinn, og veit því heldur ekki, hvað lóð undir húsið kemur til að kosta.

Eins og hv. 2. landsk. (IHB) tók rjettilega fram, þarf mikið landrými til slíkrar byggingar, og það getur því stórum aukið kostnaðinn, að kaupa lóð. Sýnir þetta, hve afskaplega illa málið er undirbúið. Nefnd sú, er sett var hjer til þess að athuga málið, komst að þeirri niðurstöðu, að óhugsandi væri að byggja á lóð mentaskólans. Ef fullnaðarteikning hefði fylgt, sem altaf hlýtur að fylgja fullnaðaráætlun, þá hefði hún verið miðuð við lóð þá, er byggja átti á.

En þetta sýnir, að ummæli hæstv. ráðh., að málið sje fullkomlega undirbúið, eru ósönn, því að það er ómögulegt að gera fullnaðarteikningu og fullnaðaráætlun án þess að vita, hvar húsið á að standa. Það var óhugsandi, enda datt það engum í hug, að gera uppdrátt að stúdentagarðinum fyr en menn vissu um, hvar lóðin var, og jafnvel þá sóttist mörgum það fullerfiðlega, þótt þeim væri kunnugt um stað lóðarinnar og alla aðstöðu. Hæstv. ráðh. (MG) sagði, að mál þetta hefði ekki verið borið undir rektor skólans í vetur og hann ekki hafður í ráðum, en á ummælum hæstv. ráðh. skildist mjer, að rektor hafi farið þessa á leit áður. Þetta er misskilningur, því að rektor sagði við nefndina, að hann hefði aðeins farið fram á húsaleigustyrk. Hitt er rjett, að rektor mun ekki hafa neitt á móti því, að bygt verði hús til heimavistar fyrir 200–300 þús. kr. En það er ljóst, að hann hefir ekki átt frumkvæðið að þessu máli og ekki einu sinni verið hafður með í ráðum, enda ekkert hugsað um þann stað, sem þyrfti til lóðar undir slíka byggingu. Það er óneitanlega merkilegt, að krafan hefir ekki komið frá skólanum sjálfum, sem er þó hin eðlilega leið.

Hæstv. ráðh. (MG) sagði, að mál þetta hefði tvisvar sinnum verið rætt áður. Það er að vísu rjett, en það var undir alt öðrum kringumstæðum, eða þegar breyta átti kenslu skólans. En alt er þetta sprottið af þeim ugg, að skóli komi á Akureyri, er bætt geti úr þörf sveitamanna, án þess að þeir komi undir áhrif Reykjavíkur. Þessi krafa um að koma latínu í allan skólann magnaðist ekki fyr en því var hreyft, að Norður- og Austurland fái skóla. Þá þutu menn upp til handa og fóta með að fá innleidda latínu og latneskan stíl í alla bekki mentaskólans, því að með því yrði bandið slitið við Akureyrarskólann, og svo kom heimavistin eins og böggull þar við. Sem sagt: krafa þessi kom af pólitískum, en ekki mentamálalegum ástæðum. Ef hún hefði verið borin fram af þörf skólans, þá hefði kennarafundur og rektor skólans borið hana fram fyrir stjórnina, eins og kennarar Akureyrarskólans, sem óska að fá umbætur á þeim skóla.

Svo er þó ekki hjer, heldur eru það stjórnmálamenn, sem vilja vegna hagsmuna flokka sinna koma sínum skoðunum að. Fram rektor mentaskólans hefir aðeins komið fram ósk um húsaleigustyrk, og það væri auðveldara fyrir landið, að láta þann styrk í tje, en að byggja þessa stóru byggingu að óþörfu. Hæstv. ráðh. (MG) gat þess, að mjer þætti furðu sæta, að skólafrv. kæmi frá landsstjórninni. Það er að vísu satt, að frá stjórninni hafa komið fram tvö slík frv. í vetur, og er þetta annað þeirra. Bæði eru þau með því marki brend, að vera hlutdræg í vil vinum stjórnarinnar, því að sama máli er að gegna um samskólafrv., með því að hæstv. ráðh. (MG) og hans menn greiddu atkv. á móti því, að taka unglingaskóla utan Reykjavíkur inn í frv. og láta þá njóta sömu hlunninda. Þó hefir fólk viða lagt fje fram til slíkra unglingaskóla, svo sem til Flensborgarskólans. Stjórnin þýtur upp til handa og fóta að bera fram slíkt frv. fyrir Reykjavíkurskólana, en þegar bent er á, að margir skólar utan Reykjavíkur ættu fremur að hafa slík hlunnindi, þá varð stjórnin svo hrædd, er hún sá, að afleiðingarnar gátu orðið þær, að fólk úti á landi gæti notið jafnrjettis, að ekki hefir bólað á frv. síðan. Mun það vera að tilhlutun stjórnarinnar, sem mun hafa sest á þetta óskabarn sitt. (MG: Dæmalaust er þm. sannleikselskandi!). Frv. þetta ber ekki vott um neinn mentamálalegan áhuga eða umhyggju fyrir almenningi, heldur hlutdrægni á háu stigi.

Þá var hæstv. ráðh. (MG) tregur til að leyfa till. um heimavist við kennaraskólann að fara í gegnum þessa deild. Það stendur svo á þar, að skólastjóri ljet í ljós, að hann teldi mikla nauðsyn fyrir skólann áð fá heimavist. Hæstv. ráðh. sinnir því engu, þótt skólastjóri þar biðji um heimavíst, en aftur á móti ætlar hann að gefa öðrum skóla heimavist óumbeðið.

Það gegnir engri furðu, þótt ekki komi gagnlegar mentamálatill. frá stjórninni eða flokki hennar, því að mjer er ekki kunnugt, að í þeim flokki sjeu menn nje konur, sem hafa áhuga fyrir mentamálum yfirleitt. Það er því ekki nema eðlilegt, að fram komi slíkir vanskapningar, þegar stjórnin fer að skifta sjer af mentamálum.

Þá þótti hæstv. ráðh. (MG) það furðu gegna, að nefndin skyldi ekki hafa kynt sjer eldri skilríki þessa máls. Hæstv. ráðh. ætti að skiljast það, að þingnefnd gat ekki átt von á að finna húsateikningar í Alþingistíðindunum, hvorki frá 1925 eða öðrum árum. Að minsta kosti er mjer ekki kunnugt um, að í þeim sjeu birtar myndir og teikningar. Hæstv. ráðh., sagði, að þar væri skilríkin að finna, en af þeim þarf fyrst og fremst að heimta teikningu. Ef það skyldi svo vera misminni hjá hæstv. ráðh., að teikninganna væri að finna í gömlum þingtíðindum, verður hann að játa, að undirbúningur málsins er mjög slæmur. Hv. 2. landsk. (IHB) leitaði eftir áð fá frekari gögn, vegna nefndarinnar, en þau voru engin til. Við höfðum frjett, að sjest hefðu lausir frumdrættir að teikningu til hússins, en svo var það heldur ekki meira. Sannleikurinn er sá, að engin teikning er til, því að annars hefði stjórnin sýnt nefndinni hana. Mjer þætti gaman, ef hæstv. ráðh. vildi upplýsa það, hvort það er almennur siður á Alþingi, að koma fram með fjárbeiðnir hliðstæðar þessari, eða þegar bankarnir láta til húsabygginga, hvort þeir vilja þá ekki sjá teikningu að húsinu. — Annars . leiðir þarna blindur blindan, því að hæstv. ráðh. veit ekkert, hvernig heimavistir eiga að vera, og húsameistari ekki heldur. Vil jeg í því tilefni minnast á það, að þá er landspítalinn, sem nú er í smíðum, var teiknaður, var það gert í samráði við forstöðunefnd spítalabyggingarinnar, en í henni áttu sæti meðal annars nokkrir helstu læknar landsins. Þótti rjett, sem vonlegt var, að láta þá aðila, sem að spítalanum standa og hafa vit á, hversu slíkri stofnun skuli fyrir komið og eiga væntanlega síðar að taka einhvern þátt í daglegri starfsemi þar, ráða tilhögun byggingarinnar, þótt húsameistari teiknaði. En hjer er farið öfugt að. Ef þegar eru gerðar ákveðnar till. um byggingu heimavistanna, þá er það utan við kennaralið skólans og af mönnum, sem engin kynni hafa af uppeldismálum og mundu ekki hafa neitt af heimavistunum að segja, er þær væru upp komnar.

Hæstv. ráðh. (MG) neitar þverlega, að þessar framkvæmdir sjeu fyrirhugaðar í því skyni að reyna að spilla fyrir, að upp komi mentaskóli á Norðurlandi, heldur segir hann leikinn gerðan til þess að skapa mentaskólanum jafnrjetti við Akureyrarskóla. Nú er það í sjálfu sjer dálítið kyndugt, að vera að tala um jafnrjetti við mentaskóla á Akureyri, meðan ekki er þar slíkur skóli. Það er því verið að „forgrípa“ sig á máli, sem hæstv. stjórn hefir beitt áhrifum sínum til að tefja og eyða, með því meðal annars að kúga einn flutningsmanna til að bregðast sínum málstað. Leikurinn er að því leyti svo ójafn, meðan skólarnir eru ekki hliðstæðir, að ekki getur verið um neitt jafnrjetti að ræða, af því að undirstöðuna vantar undir jafnrjetti. Hitt er engum vafa undirorpið, að það hefir vakað fyrir mönnum í sambandi við þessar heimavistir, að koma kenslu skólans í það horf, að ekki væri ástæða til að krefjast annars skóla og koma á þann hátt í veg fyrir, að Norðlendingar fái sinn gamla Hólaskóla endurreistan. Hæstv. ráðh. (MG) er sennilega alveg ókunnugt um það, að frændþjóð okkar, Norðmenn, hafa leyst sitt mentaskóla- og stúdentamál á sama hátt og vakir fyrir mjer og mörgum fleirum. Þeir hafa reist hvern skólann á fætur öðrum úti um sveitirnar, með styrk viðkomandi hjeraða, þar sem bændasynirnir og bændadæturnar, er vinna á heimilum sínum og byrja ekki nám sitt fyr en fullorðin, geta átt kost á hentugri skólagöngu. Þar er kenslu hagað á annan veg en gerist í borgarskólunum og lagðar þyngri byrðar á herðar nemendum en ófermd börn geta borið. Þá má krefjast meira af nemendum, því að þeir eru fullorðnir menn og þroskaðir. Náminu er því líka lokið á skemri tíma heldur en í bæjaskólunum, er taka við nemendum sínum svo að segja á barnsaldri.

Hæstv. ráðh. (MG) áleit það fjarstæðu, að menn gætu lært á skemri tíma á Akureyri en hjer. Það er ekki miðað við það, að þangað korni gáfaðri menn, heldur er átt við það, að laga Akureyrarskóla að sama skapi að þörfum sveitapilta eins og mentaskólinn er miðaður við þarfir Reykjavíkurnemenda. Á Vors í Noregi er kent til stúdentsprófs 10 mánuði á ári í 4 ár. Nemendur eru flestir til muna þroskaðri en hjer, um og yfir tvítugt. Þessi námstími samsvarar því, að Akureyrarskóli gæti útskrifað stúdenta eftir 5 ára nám, með 8 mánaða kenslu árlega. Auðvitað er gert ráð fyrir nokkuð ströngum inntökuskilyrðum, en nemendurnir geta líka lagt meira á sig heldur en börn 12 –13 ára gömul.

Jeg býst við, að hæstv. ráðh. geti ekki annað en viðurkent, að það er dálítið skrítinn fjörkippur, sem alt í einu er kominn í heimavistarmálið utan við mentaskólann og kennara hans og án óska eða kröfu utan af landi. Jeg vildi óska, að hæstv. ráðh. benti mjer á eina einustu þingmálafundargerð, þar sem greint sje frá kröfum um bygging slíks húss sem heimavistahúss við mentaskólann. Jeg held hún sje engin til. Og ástæðan til þess er sú, að fólk hefir ekki fundið til neinnar knýjandi þarfar á þessu sviði. Hinsvegar er mjög mikill áhugi fyrir því víða um land, að fá skólanum á Akureyri breytt í það horf, að vera hliðstæður mentaskólanum í Reykjavík. Undir þá ósk renna fleiri en ein stoð, og hefir því lýst verið oft og mörgum sinnum bæði í ræðu og riti. En nú mun jeg minnast á það eitt, að auk þess sem rjettmætur metnaður Norðlendinga krefst þess, að fá reistan fullkominn mentaskóla nyrðra, er önnur ástæða ekki veigaminni, þótt lítt hafi verið á loft haldið hingað til, en hún er sú, að menn eru víða um land alt annað en ánægðir með þann anda, sem ríkir og hefir um langan aldur ríkt í skólanum syðra. Þess er skamt að minnast, að námssveinar ljetu púður í ofn í einni skólastofunni, til þess að fara skyldi sem fara vildi. Um þetta leyti var svo mikill uppreisnarandi í skólanum, að einn hinn valdasti kennari og þektasti vísindamaður þessa lands var flæmdur frá skólanum. Og þótt ekki hafi á yfirborðinu að minsta kosti nú á seinni árum bólað á opinberri uppreisn, þá hefir þar vantað hið innilega heimilislíf og góða samvinnuanda milli kennara og nemenda, sem þarf að vera, til þess að skóli nái tilgangi sínum. Þessu er alt öðruvísi háttað í Akureyrarskóla. Alt frá stofnun þess skóla hefir þar ríkt sátt og samlyndi, og svo er enn. Þeir menn eru margir hjer á landi; sem er það mikið kappsmál vegna landsins sjálfs, að upp komi mentastofnun, þar sem meiri uppeldisbragur sje á skólastarfinu heldur en verið hefir í mentaskólanum og lærða skólanum alla tíð frá dögum Sveinbjarnar Egilssonar rektors. Síðan skólinn fluttist frá Bessastöðum og til Reykjavíkur og skólasveinar hrópuðu hið fræga „pereat“ fyrir hinum ágæta manni, Sveinbirni Egilssyni, hefir aldrei gróið um heilt, þótt misjafnt hafi verið, ýmist beinn uppreisnarandi eða þá dauð þögn og þurrakuldi.

Jeg get reyndar búist við, að tilfinningalífi hæstv. ráðh. (MG), sem fengið hefir uppeldi sitt í þessari mentastofnun, sje svo háttað, að hann finni ekkert við það að athuga, þótt embættis- og vísindamannaefnum hinnar íslensku þjóðar sje nauðugur einn kostur að ganga gegnum þessar einu dyr. Jeg skal taka það fram, að jeg býst við, að kenslan í mentaskólanum sje að mörgu leyti góð, og altaf forsvaranleg að því er snertir þekkingarítroðning. En það er annað, sem vantar, og það er lífið og andann í skólann.

Það, sem vakir fyrir hæstv. mentmrh. (MG), er það, að láta mentaskólann halda áfram því „mónópóli“, sem hann hefir haft hingað til. Á því sviði er hann með „mónópóli“, þótt Íhaldið vilji ekki „mónópól“ á steinolíu og tóbaki. Það er tvímælalaust, að sjerhver maður í þessu landi, sem hefir skilning á því, hvernig heilbrigt skólalíf á að vera, er sáróánægður með þann anda, sem ríkir í mentaskólanum, og óskar alls ekki eftir „mónópóli“ til handa þeim skóla, sem ekki hefir meira til unnið en hann. Fyrir svo sem 20 árum var jeg samtíða í Danmörku einum sæmdar- og merkispresti íslenskum. Talið barst einhverju sinni að mentaskólanum. Hann kvaðst óska þess, að sá skóli yrði fluttur upp í sveit og umskapaður frá rótum, svo að ekkert af einkennum hins gamla skóla fengi inngöngu í hinn nýja. Jafnvel bókasöfn skólans mætti helst ekki flytja á milli. Svo var dómur þessa klerks, sem var einn af mætustu mönnum þessa lands og hafði bæði sjálfur verið í þessum skóla á námsárum og átt þar tvo syni sína við nám.

Nú er ekki hugsað til, að þessar heimavistir standi á neinn hátt undir eftirliti skólastjóra, heldur á þetta að verða einskonar hermannaskáli, sem koma má fyrir, hvar sem vera skal. Það er ekkert sjeð fyrir því, að aðalmaður skólans geti haft þar nokkurt eftirlit, því síður áhrif.

Þá fanst hæstv. ráðh. (MG) undarlegt, að menn vildu hafa heimavistir við aðra skóla, t. d. kennaraskólann, en ekki við mentaskólann. Jeg mundi vera manna fúsastur til að leggja með heimavistum við mentaskólann, ef hann væri fluttur t. d. upp að Reykjum og væri eingöngu heimavistaskóli og minkaður til muna, skift um kenslufyrirkomulag og um fram alt rofin „tradition“ skólans. Jeg vil leysa vandamálið með því að skifta milli þeirra, sem byrja ungir nám sitt, og þeirra, sem byrja fullorðnir. Heimavistir fyrir stúdentaefni, sem ekki geta hafið skólagöngu ungir, eru til þegar á Akureyri, en heimavista þarf ekki með við skólann í Reykjavík, því hann er beinlínis fyrir Reykjavik eina. Með reglugerð er hann einskorðaður við þá nemendur eina, sem eiga heima í Reykjavík eða eiga þar einhverja vandamenn, svo að þeir byrja nám barnungir. Verði skóli stofnaður á Akureyri, mun aðalaðsókn verða þangað, því að sá skóli mundi lagast eftir landsþörfum. Að því hlýtur að reka, hvenær sem tekið verður á þessum málum með forsjá, að aðgangurinn að mentaskólanum verður gerður þrengri. Á skömmum tíma hefir nemendafjöldinn vaxið úr 100 upp í 270. Það verður að klippa neðan af ákveðna tölu af þeim, sein ganga undir próf, og segja: fleirum tekur skólinn ekki við til náms. Mentaskólinn í Vors í Noregi er undirbúningsskóli undir stúdentspróf, aðallega fyrir bændabörn. Hann hefir 4 árganga með 60 nemendum í hverjum. Fleirum tekur skólinn ekki á móti. Skólastjórinn þar sagði mjer, að sjer þætti mjög leiðinlegt að verða að senda aftur menn, t. d. norðan af Hálogalandi, sem komnir eru þangað til þess að taka próf inn í skólann, en hafa flotið út af við prófið. En hjá því verður ekki komist. Þetta er nú einu sinni lífsins lögmál, að þeir hreppa hnossið, sem best ganga fram. En sem sagt: hæstv. landsstjórn hefir haft sjerhagsmuni Reykjavíkurbæjar eingöngu fyrir augum, látið skólann fletjast út í stærri og stærri köku — því að fólkið, sem ekki veit, hvað það á að gera við börnin sín, þarf endilega að láta þau „stúdera“, jafnt þau gáfuðu sem ógáfuðu, þó ekki sje nema til þess að halda þeim frá götusollinum og láta þau hafa eitthvað fyrir stafni. Loks er svo komið, að skólahúsið er að springa utan af öllum þessum kynstrum og leigja verður kenslustofu úti í bæ. Jafnframt þessu leyfir hæstv. mentamálarh. (MG) sjer að leggja stein í götu þessi að taka megi jafnþungt stúdentspróf annarsstaðar. Slíkt er jafnrjettið, sem hann þykist vera að skapa.

Hæstv. ráðh. (MG) þótti furðu gegna, að minst skyldi vera á landspítalann í sambandi við þetta mál. Jeg veit ekki betur en eftir standi 1 milj. kr., sem þarf að greiðast á 21/2–3 árum, til þess að spítalinn verði kominn upp 1930. Það getur verið, að hæstv. landsstjórn búist við, að hægt verði að jafna niður 400 þús kr. á hvort árið 1929 og 1930, ep ekki hefi jeg trú á, að það verði auðvelt. En þegar landspítalinn er á döfinni og ekki hægt að standa í skilum við hann um fjárframlög, nema með harmkvælum, þ. e. erlendum ríkislántökum, þá álít jeg það hreint og beint ofdirfsku, að vera að fitja upp á stórbyggingum hjer í bæ, sem telja verður „óþarfa“ fyrir Reykvíkinga. Hæstv. ráðh. (MG) sagði að vísu, að ljetta mundi á ríkissjóði, er bæði Kristneshælið og Kleppshælið væru fullgerð. Var helst að heyra á hæstv. ráðh. (MG), að endilega þyrfti að koma peningunum einhvern veginn fyrir, og því þá ekki í heimavistum eins og einhversstaðar annarsstaðar.