24.02.1927
Neðri deild: 14. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (2268)

36. mál, bann gegn næturvinnu

Jón Ólafsson:

Frv. það, sem hjer liggur fyrir og flutt er af hv. 4. þm. Reykv. (HjV), er gamall kunningi minn frá samninganefndarfundum hjer í bænum undanfarin ár, en venjulega hefir það verið svo, þegar til þess hefir komið, að farið hefir verið fram á, að nokkuð kæmi í staðinn, þá hefir það venjulega hjaðnað niður, og engin áhersla lögð á að fá það í gegn. Mjer kemur það því dálítið undarlega fyrir, að hv. flm. (HjV) kemur með þetta inn á þing, þótt jeg á hinn bóginn kannist við, að þetta er í samræmi við fleira, sem flutt er inn í þingið frá vissum flokki. Það er, eins og kunnugt er, ekki verkamenn, sem lagt hafa neina áherslu á, að næturvinna væri lögð niður, meðal annars vegna þess, að þeir hafa fengið helmingi hærra kaup fyrir hana, og í öðru lagi vegna þess, að það er fyrst þegar kemur fram á útmánuði, að mest þarf að nota hana. Það er ekki rjett hjá hv. flm. (HjV), að verkamenn þurfi að vinna 24 tíma í lotu, því að það er engin skylda á neinum að gera það, nema því aðeins, að hann vilji fúslega leggja það á sig, vitandi það, að hann hefir meiri peninga upp úr sjer með því. Jeg held þess vegna, að það sje engin ástæða til að vera að breyta núverandi lögum, til að ráða bætur á þessu. Það leiðir af sjálfu sjer um þá, sem láta vinna þessa næturvinnu, að það er vitanlega eitthvað, sem knýr þá til þess, og það er, eins og fjölda hv. þdm. er kunnugt, ærnar ástæður til þess, að óskað er eftir þessari vinnu; það er, sem sje, þannig ástatt, að á Selvogsbanka er ekki fiskur verulega, nema að næturlagi, og því er það, að áhersla er lögð á, að sem fæstum nóttum sje eytt annarsstaðar en þar, því að það er svo, að þeir, sem hafa orðið, vegna bilunar, að dveljast hjer tvær nætur, hafa stundum orðið fyrir því óhappi að tapa þetta frá 60–100 skpd. af fiski á nóttu. Þetta er mjög óþægilegt, og því er öllum það mikið kappsmál, að geta komið afgreiðslunni svo fljótt af, að ekki þurfi að tapa mörgum nóttum. Það er oft svo, þegar þessi tími er kominn, að ekkert fiskast á daginn, að ekki er farið þaðan fyr en kl. 9–10 að morgni og komið hjer kl. 4–6 síðdegis, en það tekur venjulega 12–16 klt. að ferma og afferma skipin. Með því nú að vinna ekki að fermingu og affermingu yfir nóttina og byrja þannig ekki fyr en kl. 6 næsta morgun, geta skipin ekki farið hjeðan fyr en kl. 6–8 að kvöldi, og er þá augljóst, að þau tapa einni nóttu í hverri ferð, fram yfir það, sem þau gerðu áður, og jeg held, að það sje ekki gerandi leikur til þess, fyrir svona mikla smámuni, þar sem ekki er um að ræða, að ekki sje fult samkomulag milli þeirra, sem að þessu máli standa. Mjer finst, að það hafi verið með fullu samkomulagi þeirra, sem hlut eiga að máli, að þessi vinna að næturlagi hefir verið framkvæmd, þegar á hefir þurft að halda. Annað atriði er það, að þetta komi ójafnt niður á verkamönnum, það getur vel átt sjer stað. En þeir, sem ekki treysta sjer til þess að taka þátt í slíkri vinnu, eru yfirleitt frjálsir að því, hvort þeir stunda hana eða ekki. Það getur vel verið, að þeir, sem ekki vinna þessa næturvinnu, verði eitthvað aftur úr, en jeg veit ekki, hvort þess vegna á að gera útgerðinni, landssjóði og landsmönnum það tjón, sem af því leiðir, að tefja skipin að óþörfu frá veiðum um besta aflatímabilið, því það er vitanlegt, að af þessum atvinnuvegi hefir ríkissjóður haft miklar tekjur, og sömuleiðis fjöldi manna lifað af honum, svo að þess vegna held jeg, að ekki sje rjett að leggja á hann sjerstakar lagakvaðir, sem miða að því, að gera stórhnekki öllum áhuga og framkvæmdasemi við aflabrögð.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Mjer er þess von, að þeir, sem þekkja þetta samningastrit hjer í Reykjavík, eins og jeg þekki það, muni lítið upp úr því leggja, og undrar mig það ekki, þótt slíkt slúður berist inn á hið háa Alþingi úr þessari átt. En það er eftirtektarvert, og það virðist svo frá mínu sjónarmiði, að alt sje miðað við það, að draga úr áhuga manna fyrir sjálfsbjargarviðleitninni, draga úr því, að geta hagnýtt sjálfum sjer og öðrum krafta sína. Jeg held, að Alþingi ætti ekki að ganga á undan með að ljá hönd að slíku, og jeg álít rjett, að þessu máli verði vísað frá nefnd, því að jeg álít, að það eigi ekki að fara lengra, og tel skaðlegt að láta það verða að lögum.