10.03.1927
Efri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (2285)

75. mál, ölvun embættismanna, skipstjóra o.fl

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg verð að segja, að það kom mjer mjög á óvart, að hæstv. forsrh. (JÞ) skyldi mæla í móti þessu frv., vegna þess, að bæði færði hann ekki nógu ljós rök fyrir þeirri niðurstöðu, sem hann komst að, og í öðru lagi virðist mjer hugur hæstv. ráðh. (JÞ) og hans flokksbræðra beinast meira og meira í þá átt, að vinna á móti bindindismálinu á þinginu. Jeg skal að vísu játa það, að ýmislegt hefir áður komið fram hjá nánustu mönnum hæstv. ráðh. (JÞ), sem ekki styrkir þetta, en jeg vil taka það fram, að á fundi, sem haldinn var í Búðardal í haust, talaði hæstv. ráðh. (JÞ) svo ákveðið með vörnum á móti áfengi, er hann mælti með tveimur frambjóðendum síns flokks, hv. 2. þm. Rang. (EJ) og hv. 6. landsk. (JKr), einmitt með það fyrir augum, að báðir þessir menn, eins og jeg þykist vita, að koma muni fram við atkvgr. í þessu máli, væru ákaflega einarðir fylgismenn bindindismálsins, eins og sá flokkur, sem hæstv. ráðh. (JÞ) stýrir. það var, sem sagt, ein af aðalástæðunum fyrir því, að Íhaldsflokkurinn efldist á þingi, viðhorf áfengismálsins, og þegar hæstv. ráðh. (JÞ) athugar þetta nánar, þá mun hann sjá, að nú er að því komið að sýna það í verkinu þeim mönnum, sem trúðu honum þar og annarsstaðar, að honum, sem formanni flokksins, sje það ákaflega mikið áhugamál að halda áfenginu í skefjum. Aðalrökfærsla hæstv. forsrh. (JÞ) var sú, að gera menn ekki misjafna fyrir lögunum, það mætti, sem sagt, ekki gera aðrar kröfur, segjum til forsætisráðherra Íslands, en til manns, sem flytti sorpið úr bænum út á ruslhaugana. Náttúrlega er gott að halda því fram yfirleitt, að menn sjeu jafnir fyrir lögunum, en það er samt mikill misskilningur í því fólginn, þar sem um er að ræða þann manninn, sem falið er að fara með æðstu völd í landinu; þar er honum fenginn bæði rjettur og skyldur, og það er eins með annan mann, að honum er fengið minna vald og þá um leið minni skyldur. Segjum t. d., að hæstv. forsrh. (JÞ) væri í stjórnmálaleiðangri, í þeirri ferð dettur hestur með hann, svo að ráðherra meiðist mikið, og segjum, að hann kæmi þá á stað, þar sem læknirinn lægi augafullur og svæfi í 12 tíma. Hvílík hætta væri það fyrir þjóðfjelagið að setja forsætisráðherra sinn í svo mikinn háska á lífi og limum, fyrir það, að maðurinn, sem settur hefir verið í þetta trúnaðarstarf, er þannig á sig kominn! Það eru vitanlega allir jafnir fyrir lögunum, því að læknirinn á eins að binda um meiðsl fátækra manna eins og ráðherra, en þörfin á ábyrgðinni er ekki ávalt jafnmikil, og jeg tek þetta dæmi til þess að sýna fram á, að þjóðfjelagið verður að gera alveg sjerstakar kröfur til manna, sem þannig er trúað fyrir lífi borgaranna.

Það er mjög undarlegt, að hæstv. ráðh. (JÞ) skyldi ekki hafa veitt eftirtekt ræðu hv. 2. þm. S.-M. (IP), því ef hæstv. ráðh. (JÞ) hefði gert það, þá hefði hann aldrei haldið þá ræðu, sem hann hjelt, því að Alþingi hefir sýnt það fyrir skemstu, að meiri hluti þess telur ákaflega mikinn mun á því, hvort við tveir, sein einstaklingar, komum ölvaðir inn í bifreið, eða hvort bifreiðarstjórinn er drukkinn og við tveir ódruknir. Það er, sem sagt, búið að slá því föstu, að það komi þjóðfjelaginu miklu meira við, ef bifreiðarstjórinn er undir áhrifum áfengis, og þannig að miklu leyti hindraður frá að beita viti sínu og kröftum, heldur en einhver einstaklingur, sem situr í bifreið hans, og vil jeg nú spyrja hæstv. ráðh. (JÞ), hvort hann sje ekki búinn að slá því föstu lagalega, að þessi aðferð, sem hjer er talað um, sje rjett, nefnilega, að þjóðfjelagið geri að vissu leyti miklu meiri kröfur til manns í þessari stöðu, og að þetta hefir komið fram um bifreiðastjórana, þá er það vegna þess, að það er svo nauðsynlegt.

Þá sagði hæstv. ráðh. (JÞ), að hjer væri verið að sverta mikla stjett manna í landinu. Er þá verið að sverta alla bifreiðastjóra með þeim lögum, sem samþykt voru? Það er enginn vafi á því, að það eru til bifreiðarstjórar, sem ekki bragða vín, og jeg hefi oft verið í bifreið, þar sem ekki hefir sjest, að bifreiðarstjórinn væri ölvaður, en jeg get samt álitið, að ástæða væri til að útiloka slíka menn alveg. Það er nú verið að reyna að ala upp bifreiðarstjóra og embættismannastjett, að skilja úr svörtu sauðina, og það er þá ekki síst gagn að þessu frv., ef það nær fram að ganga, því að það gerir auðveldara fyrir þá, sem eiga hlut að máli, að losna við þá opinbera starfsmenn, sem eru brotlegir. Jeg býst við, að menn í þessari hv. deild viti, að það hafa verið menn í trúnaðarstöðum, sem hafa verið meir og minna ófærir til vinnu sinnar í 20 ár, og hafa samt haldið stöðu sinni, og aðrir, sem hafa verið skemri tíma, og stjórnin hefir ekki sett þessa menn frá, og náttúrlega hefði verið hægt að gera það, en það mun hvergi vera beinlínis tekið fram, að ölvun geri það að verkum, að læknir standi nærri því, að missa sitt starfsleyfi. Það er í fyrsta sinn, að hjer eru settar skorður við því, sem leiðir af sjálfu sjer, að maður, sem ekki ræður við þessa ástríðu, skuli hverfa úr þeirri stöðu og vinna fyrir sjer á annan hátt, þar sem hann að vísu getur gert sjálfum sjer sama skaða, en ekki allri heildinni. Jeg hefi þess vegna sannað það, að rök hæstv. ráðh. (JÞ) eru að engu hafandi. Það er búið að slá því föstu, að þjóðfjelagið hafi rjett til þess að gera til manna í þessum stöður því harðari kröfur, því meiri ábyrgð sem þeir hafa gagnvart öðrum, mönnum, sem þeir hafa á valdi sínu og í öðru lagi neitaði hæstv. ráðh. (JÞ) því ekki, að þingið í fyrra hefði gert lög, þar sem sjerstakar sektir voru lagðar við því, ef bifreiðarstjórar væru ölvaðir við vinnu sína. Jeg hefi fengið aðfinslur fyrir það, að fara ekki lengra í kröfum mínum, t. d. um þingmenn, sem væru ölvaðir, að það ætti að skylda þá til að segja af sjer. Jeg þykist vera viss um, að með þeirri ágætu stefnu, sem hæstv. forsrh. (JÞ) lýsti yfir í Dölunum í haust, og sem jeg vona, að hann fylgi ennþá, þá sjái hann við nánari at hugun, að máske væri ástæða til að herða betur að þessu, þannig, að það kæmi aldrei fyrir, að druknir menn ættu sæti á þingi, ef þeir brytu svo í bág við alment velsæmi, að þeir ljetu sjá sig þar undir áhrifum víns. Jeg er ekki að halda þessu fram, en vildi að cins skjóta því til hæstv. ráðh. (JÞ), hvort hann vildi ekki gera þá kröfu til sinna manna, að þeir brytu aldrei alment velsæmi á nokkurn hátt, og það væri gott, ef flokkarnir gættu þess, að bjóða aldrei fram til þings þá menn, sem löng reynsla er komin um, að þeir kunna ekki að fara með vín, ef þeim er boðið það, án þess að það verði til minkunnar fyrir þá og þeirra starf. Þetta er aðeins viðbót, til þess að fá vitneskju um það, hvort hæstv. ráðh. (JÞ) er ekki samdóma mjer um það, að sjálfsagt sje að gera alt, sem hægt er, til þess að enginn af opinberum trúnaðarmönnum þessa lands verði sjer til minkunnar fyrir ölvun, og ef hæstv. ráðh. (JÞ) finnur eitthvað að þessari leið, þá vænti jeg þess, að hann bendi á aðra leið, sem hann teldi betri, og að hann vildi nú, annaðhvort við þessa umr. eða síðari umr. málsins, láta það í ljós, hvort hann hefði snúist síðan í Dölunum í haust, eða hvort ekki hefir mátt taka hann trúanlegan um þann einhuga stuðning, sem hann og hans flokkur vildi veita í áfengismálinu, og hvort þær vonir, sem hann vakti þá hjá mönnum í þessu máli, hafa verið tálvonir.