08.03.1927
Efri deild: 22. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (2294)

77. mál, útflutningsgjald

Flm. (Jónas Jónsson):

„Öðruvísi mjer áður brá“, mættu þeir segja, sem heyrðu ræðu hæstv. forsrh. (JÞ), er þeir minnast þess, þegar hann var að reyna að lauma þriggja ára reglunni inn í tekjuskattslögin, eða þegar hann í fyrra stóð fyrir því, að gefa eftir 400 þúsund krónur í skatti af oliu, kolum, salti og síldartunnum (Forsrh. JÞ: Kjöttunnum og kornvöru, svo að alt sje upp talið!) — Jeg verð að benda hæstv. ráðherra á, að það var ekki honum að þakka með kjöttunnurnar og kornvöruna. Það voru aðrir, sem áttu frumkvæðið að því. Hæstv. ráðherra fer likt og hinum deyjandi syndara hjá Ibsen í Pjetri Gaut, sem ætlaði að fara að lesa Faðirvorið, en mundi ekki eftir öðru en: Gef oss í dag vort daglegt brauð! Hæstv. ráðherra man ekki eftir nema vissum flokk manna, þegar hann er að veita ívilnanir eða vernda hagsmuni. Stunduin eru það brotlegir og drykkfeldir embættismenn, sem hann vill halda hlífiskildi yfir, eins og kom í ljós í fyrra málinu á dagskránni í dag. En þetta mál liggur þannig fyrir, að ríkisstjórnin er búin að leggja til að skerða tekjur ríkissjóðsins. Hún hafði efni á því í fyrra að kasta í burtu nærri hálfri miljón af gjöldum frá sjávarútveginum, en þegar ljetta á að nokkru byrðar landbúnaðarins, þá kveður við annan tón. Út af þeirri röksemd hæstv. ráðh., að sjávarútvegurinn beri þyngri byrðar, þá er vert að athuga það, að stærsta útgerðarfirmað, sem hefir mest undir höndum af sjávarafurðum, fyrirfinst ekki á tekju- og skattaskrám undanfarin ár. Einn af forstjórum þessa fjelags, sem er þingmaður, hefir játað, að það sje gengishækkunin, sem valdi þessu. Með öðrum orðum, það er hæstv. ráðherra persónulega að kenna, að þeir, sem hann segir, að beri þyngstu byrðarnar, geta það ekki. peir fyrirfinnast ekki í þeim skrám, þar sem nöfn þeirra ættu að standa með gyltu letri, sem sterkustu stoðir þjóðfjelagsins. Þetta þyrfti hæstv. ráðh. að athuga nánar. Það þýðir ekki að gorta og glamra um það, að vissar stjettir beri þyngstu skattabyrðarnar, þegar þær staðreyndir koma á móti, að taka verður miljóna lán þeirra vegna og þing eftir þing eru á ferðinni uppgjafir til þeirra. Þetta er ekki hægt að sameina. En svo, þegar farið er fram á að Ijetta undir með landbúnaðinum, þá verður hæstv. ráðherra drýldinn og gefur í skyn, að helst beri að fella slíka málaleitun við 1. umr. Þá fór hæstv. ráðherra ekki rjett með, er hann sagði, að þetta útflutningsgjald næmi 1–2 hundruð þúsund krónum. Það liggur ekki nærri því, að það sje 200 þús. kr., en mun vera lítið eitt yfir 100 þús. kr. pá sagði hæstv. ráðh., að lögin mundu verða lítt skiljanleg, þegar búið væri að fella þær breytingar, sem í þessu frv. felast, inn í þau. Jeg get vel trúað því, að hann skilji það ekki, þegar þess er gætt, að hann skildi ekki frv. það, sem var til umr. áðan, en öllum öðrum mun vera þetta ofur skiljanlegt. Afstaða hæstv. ráðh. gagnvart þessu frv. mínu er samt ekki skiljanleg á annan hátt en að hann vilji níðast á landbúnaðinum, er hann lækkaði ótilkvaddur skattinn á sjávarútveginum í fyrra, en tekur illa tilsvarandi breytingum gagnvart landbúnaðinum. Ef hæstv. ráðh. kynnir sjer umræður um framlengingu laga um útflutningsgjald á þingi áður, þá getur hann sjeð, að tveir samherjar hans, hæstv. atvrh. (MG) og hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) fylgdu framlengingunni með samviskunnar mótmælum. En síðan hefir ranglætið ekki minkað. Þá kom hæstv. ráðh. ekki nærri þeirri röksemd minni, að frekar bæri að hlífa þeirri atvinnugrein, sem byggist á ræktun landsins og hefir aukna ræktun landsins í för með sjer, heldur en þeirri, sem stundar rányrkju. Hæstv. ráðh. bætti við rangri skýringu um ræktunarsjóðinn. Hann sagði, að það væri samningsbundið við ræktunarsjóðinn, að þetta gjald gengi til hans, og því mætti ekki rifta. En samningurinn getur auðvitað ekki gilt lengur en meðan þingið breytir ekki um gjaldstofn. En auk þess fær ræktunarsjóðurinn hinn part gjaldsins, þó því verði ljett af landbúnaðarafurðunum. En annars hættir þetta gjald innan skamms að renna til ræktunarsjóðsins, því að miljónin, sem lögin tiltaka, er bráðum komin. En það kann nú að vera meining hæstv. ráðh., að láta þetta 1/2% aukagjald haldast, eftir að það hættir að renna til ræktunarsjóðsins, skattleggja bændurna, til þess að hafa nógu hátt launaða menn á varðskipunum.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar,en aðeins geta þess, að ef hæstv. ráðh. greiðir atkvæði á móti þessu frv. og fær samherja sína til þess, þá sýnir það, hve gífurleg hlutdrægni í garð landbúnaðarins fyllir brjóst ráðherrans.