07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (2303)

63. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á jörð í nágrannahreppi

Magnús Kristjánsson:

Jeg stend ekki upp til þess að mótmæla þessu frv., en aðeins til þess að gera eina fyrirspurn til hv. flm. (JBald) um það, hvernig skilja beri eina setningu í frv., sem mjer finst dálítið óljóst orðuð; það er þessi setning:

„Nú hefir sveitarfjelag hafnað forkaupsrjetti á jörð í hreppi, er liggur að kaupstað.“ ....

Jeg vildi fá skýringu á því, hvort hjer er aðeins átt við jarðir, þar sem land jarðarinnar liggur að landi kauptúnsins. Spurningin er því, hvort það er land hreppsins eða land jarðarinnar, sem þarf að liggja að takmörkum kaupstaðarins eða kauptúnsins. Það er aðeins þetta, sem jeg vildi fá upplýst, því að þetta getur haft talsverða þýðingu. Það er alt annað, hvort land ákveðinnnar jarðar liggur að landamærum kauptúns, eða hvort aðeins er átt við, að það sje iandamæri hreppsins og landamæri kauptúnsins, sem komi saman. Það getur verið, að þessi fyrirspurn min sje óþörf, en mjer finst alveg nauðsynlegt að fá skýringu á þessu atriði. Svo er annað, sem jeg get bætt við, úr því að jeg á annað borð stóð upp. Jeg get ekki annað en lýst ánægju minni yfir því, að þetta frv. er fram komið, hvað stefnuna sjálfa snertir, vegna þess, að mjer finst liggja mikil viðurkenning í því, um að sá vöxtur kauptúna, sem að undanförnu hefir átt sjer stað, sje ekki allskostar heilbrigður, þar sem viðurkent er með þessu frv., að jarðrækt sje nauðsynlegt skilyrði fyrir þrifuni þorpa, og þá um leið kauptúna yfirleitt. Það er eins og mönnum hafi stundum siest yfir þetta mikilvæga aðalatriði, en jeg álít, að það sje hinn upprunalegi tilgangur og órjúfanlegt lögmál, að sem allra flestir þurfi að lifa á einhverjum jarðargróða, einhverri framleiðslu af jörðunni. Þá fyrst gæti þorpi eða kaupstað vegnað vel, því að það er óeðlilegt, að fjöldi fólks safnist saman á litlum bletti, án þess að lifa á nokkurri framleiðslu, heldur aðeins á nokkrum atvinnusnöpum. Mjer finst, að hv. flm. frv. (JBald) hafi með þessu lýst yfir því, að hann hafi nú fengið fullan skilning á því, að það beri að leitast við að hindra þetta mikla aðstreymi að sjávarsíðunni, sem nú á sjer stað, og þess vegna er það rjett, að frv. sje fullur gaumur gefinn.