07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í C-deild Alþingistíðinda. (2304)

63. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á jörð í nágrannahreppi

Björn Kristjánsson:

Eftir að hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hafði talað, hefði jeg vel getað fallið frá orðinu, en jeg vil þó segja aðeins fáein orð, fyrir þá sök, að mjer hafa borist mjög ákveðin mótmæli frá Seltjarnarneshreppi gegn þessu frv., og hefir mjer verið falið að bera þau fram. Þar eru færðar þær ástæður gegn frv., að vel geti komið fyrir, þegar á að selja einhverja jörð, að verðið sje svo hátt, að hreppsfjelagið geti alls ekki keypt jörðina, þótt það gjarnan vildi, til þess að hún lenti ekki í höndunum á Reykjavíkurbæ. Þeir segja, að það sje hart fyrir hreppinn, ef einhver ágætismaður byðist til að kaupa jörðina, að hreppurinn gæti þá ekki fengið að njóta þess manns.

það hefir, svo sem menn vita, komið fyrir áður, að jarðir hafa verið seldar frá þessum hreppi og lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. En það hefir jafnan verið gert með fullkomnu samkomulagi milli Reykjavíkur og hreppsfjelagsins. Hefir meðal annars verið sjeð fyrir, að samningar tækjust um það, hvernig hátta skyldi fátækraframfæri á þessum jörðum. En yrði þetta frv. að lögum, flytu jarðirnar þegjandi undir bæinn, en hreppurinn yrði að sjá fyrir fátækraframfæri á þeim. Sjá menn, að það getur ekki staðist.

Vil jeg aðeins bæta þessu við það, sem hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) sagði, og biðja hv. nefnd að taka það til íhugunar áður en hún leggur til, að frv. verði samþykt. Fæ jeg ekki sjeð í fljótu bragði, að hægt sje að laga frv. svo, að til mála geti komið að samþykkja það.

Eina leiðin, sem kaupstaður getur farið, ef hann vill auka við sig landrými, er að semja um það við viðkomandi hrepp, og taka til athugunar öll þau atriði, sem þar koma til greina. Þetta er alveg eins og þegar einn hreppur skiftist í tvo, að þá er ekki nóg að segja, að t. d. Akraneshreppur skuli hjer eftir skiftast í Innri-Akraneshrepp og Ytri-Akraneshrepp, heldur verður jafnframt að sjá fyrir því, að ómegð hreppanna verði rjettilega skift á milli þeirra, og margt fleira kemur þar til athugunar.

Þessháttar leið verður hjer að fara; öðruvísi er ekki hægt að flytja jörð á milli hreppa.