07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (2306)

63. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á jörð í nágrannahreppi

Guðmundur Ólafsson:

Nú eru þegar orðnar nægar umræður um ekki stærra frv., og skal jeg því ekki vera fjölorður.

Jeg verð að taka í svipaðan streng og ýmsir aðrir, sem hjer hafa áður talað, að jeg fæ ekki sjeð þörfina á þessu frv. Mjer er ekki ljóst gagnið, sem af þessu á að leiða, en mjer virðist næstum hlægilegt að fara nú enn á ný að bæta við forkaupsrjettarununa. Ef þessu heldur áfram, verður bráðum ómögulegt að selja jörð nema eftir eintómum forkaupsrjettum. Abúendur hafa forkaupsrjett, börn þeirra, stjúpbörn, fósturbörn (JBald: Systkini, foreldrar). Ofan á þessa ættingja-halarófu og sveitarfjelag finst hv. flm. (JBald) nauðsynlegt að hnýta kaupstöðum og kauptúnum. Gerir hann mikið úr því, til hvílíkrar blessunar þetta verði hreppunum, sem verði þeirrar náðar aðnjótandi, að kaupstaður eignist jörð í þeim. Jeg er nú að vísu ekki kunnugur niörgum jörðum, sem kaupstaðir eiga, en jeg hefi ekki orðið þess var, að það skini svo sjerstaklega á þeim. Þar sem jeg þekki til, hefir sumstaðar mestalt hey verið flutt af þeim til kaupstaðanna, en ábúendurnir varla verið sjálfbjarga. Það má vera, að þessu sje nokkuð annan veg farið hjer í Reykjavík, en því er jeg ekki kunnugur. — Sje jeg því enga ástæðu til að lengja forkaupsrjettarstrolluna ennþá meira.

Mjer finst, að eins og nú er ástatt, standi kaupstaðirnir betur að vígi um að eignast þær jarðir, er þeir vilja, sakir þess, að þeir geta boðið fyrir þær hærra verð. Standa þeir þannig miklu betur að vigi en fátækir forkaupsrjettarhafar.

Ef ætti að fara að fjölga forkaupsrjettum, held jeg, að betra væri að bæta við einhverjum hreppsbúa, sem þyrfti á jörð að halda og tæki hana til ábúðar.

Hv. flm. (JBald), lagði til, að frv. yrði vísað til landbn. En jeg finn nú ekki landbúnaðarbragðið að þessu frv., og vil því leggja til, að málið fari til hv. allsherjarnefndar.