07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2307)

63. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á jörð í nágrannahreppi

Magnús Kristjánsson:

Mjer þótti hv. flm. (JBald) taka það heldur óstint upp, að jeg skyldi benda á, að orðalag á frv. hans væri heldur ónákvæmt. Sagði hann, að það ætti eigi við að tala um slíkt atriði við þessa umr. málsins, en jeg álít það vera þvert á móti. Það er einmitt bráðnauðsynlegt að benda á það við 1. umr., ef orðalag er ónákvæmt eða villandi, þannig, að hægt sje að skilja það á margan hátt, svo að sú nefnd, sem frv. fær til meðferðar, hafi tækifæri til að sjá við lekanum þegar í stað. En það getur verið nokkuð seint, að þurfa að fara áð umturna öllu frv. við 3. umr. út af ónákvæmu orðalagi. Jeg verð að halda fast við það, að aðfinslur mínar við frv. hafi verið á fullum rökum bygðar. Skal jeg taka fram, að jeg get vel fylgt því, ef sá skilningur yrði ofan á, að forkaupsrjettur næði aðeins til jarða þeirra, sem að kaupstað eða kauptúni liggja. En eigi að taka hina skýringuna, að forkaupsrjetturinn nái til allra jarða í hreppnum, mundi jeg þurfa að hugsa mig um, áður en jeg ljeði frv. atkv. mitt.

Hitt verður ekki talið annað en gleðilegt, að hv. flm. (JBald) ljet það nú koma ótvirætt fram, að hann viðurkendi rjettmæti ummæla minna, að nú væri kominn tími til að fara að vinna að straumhvörfum um fólksflutninginn til sjávarins. Þó að hann gæfi nú þessa yfirlýsingu, hafa máske sumir álitið, að hans fyrri breytni hafi ekki gengið í þá átt. En með frv. sínu vill hann nú leggja grundvöll að því, að fólkinu, sem gint hefir verið frá sveitunum, gefist aftur kostur á að draga fram lífið á heilbrigðum atvinnurekstri. Jeg vil sem sagt ekki leggja neinn stein í götu þessa máls, en hlýt að krefjast þess, að það verði ljóst fram sett, hvað átt er við með frv.