07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (2309)

63. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á jörð í nágrannahreppi

Flm. (Jón Baldvinsson):

Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) talaði í svipaða átt og aðrir, sem á móti frv. hafa mælt, nema hann bætti því við, að sjer þætti hlægilegt að hnýta kaupstöðunum aftan í forkaupsrjettalestina. En jeg sje nú ekki, hvað hlægilegt er við það, þótt kaupstaðir og kauptún eignist þann sama rjett, sem sveitarfjelögin hafa nú, þegar þess er gætt, að þeir hafa slík áhrif á hreppana kringum sig, að þar verður miklu lífvænlegra en áður, vegna auðveldari og betri söhi á landbúnaðarvörum.

Hv. þm. (GÓ) sagði, að bráðum yrði ómögulegt að selja jörð, ef þessi forkaupsrjettaruna ætti að haldast. Jeg verð nú að kalla það að selja jörð, ef einhver forkaupsrjettarhafi vill kaupa hana. (GÓ: Jeg sagði, að það yrði ómögulegt að selja öðrum manni jörð en forkaupsrjettarhafa.) Mjer virðist, að það megi nú koma nokkuð í einn stað niður fyrir þann, sem selja vill jörð sína, hvort það er sveitarfjelagið eða annar, sem kaupir, ef hann fær það verð fyrir, sem hann vill. Og kaupstaðirnir ættu ekki að vera neitt lakari kaupendur en hver annar. Ekki hafa verið færðar neinar líkur að þeirri fullyrðingu hv. þm. A.-Húnv., að ræktun jarðanna yrði minni, ef kaupstaðirnir eignuðust þær. Hann er sá eini, sem slíku hefir haldið fram, er hann sagði, að þess væru dæmi, að alt hey væri flutt af jörðunum og í kaupstaðina, en þær látnar lenda í niðurníðslu sjálfar. Þess kann nú að vera eitthvert dæmi, að svo hafi farið, en það getur ekki verið alment. Því að reglan hlýtur að vera sú, að hey sje fremur flutt til kaupstaðanna lengra að. Hingað er t. d. flutt mikið hey bæði úr Borgarfirði og Ölfusi, en sáralítið úr næstu hreppum.

Það, sem hv. þm. (GÓ) talaði um, að frekar gæti komið til mála, að einhverjir hreppsbúa fengju forkaupsrjett, er vitanlega fjarstæða, og gerist ekki þörf að ræða þess háttar tillögur.

Jeg hefi nú athugað 1. gr. frv. betur, og sje jeg, að hún er alveg nægilega skýrt orðuð, og þarf ei um það að deila. En jeg skil ekki, af hverju hv. 4. landsk. (MK) er endilega að heimta, að við sjeum ekki sammála í þessu máli. Jeg hefi aldrei talið það heppilegt, að fólk flyktist til kaupstaðanna. En hitt hefi jeg sagt, að ómögulegt er að koma í veg fyrir það, nema fólkinu sje sköpuð lífvænlegri skilyrði annarsstaðar. Það er alls ekki rjett, að fólk hafi verið gint burt frá bjargvænlegum lífsskilyrðum til kaupstaðanna. Það er alment ekki hægt að ginna fólk þaðan, sem bjargvænlegt er og því líður vel. En liði því illa, reynir það að komast burt. Það eru þau óskrifuðu lög, sem ekki verður breytt.