22.03.1927
Efri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (2313)

63. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á jörð í nágrannahreppi

Björn Kristjánsson:

í athugasemdunum við frv. þetta á þskj. 96 sjest, að aðaltilgangur flutningsmanns er sá, að tryggja kaupstöðum og kauptúnum nægilegt land til ræktunar, þar sem skortur er á því í kauptúnunum sjálfum. Og í ræðu hv. 2. þm. S.-M. (IP) fanst mjer hið sama koma fram, að tryggja það, að næg mjólk væri fáanleg, svo íbúarnir þess vegna gætu haft góða heilsu. Tilgangurinn er því hinn sami hjá báðum, að tryggja kaupstöðum og kauptúnum land til yrkingar. En þegar litið er á frumvarpið, veitir það ekki þessa tryggingu. Til þess að slík trygging hefði fengist, hefði þurft að vera lögnámsrjettur, en það er ekki í frumvarpinu, heldur aðeins talað um forkaupsrjett, ef einhver vill selja. Jeg álít því frv. þetta gersamlega þýðingarlaust, því að það væri aðeins tilviljun, ef góð jörð væri seld hjá kaupstað, að hann gæti ekki fengið hana. Hitt atriðið, sem háttv. meiri hl. hefir bent á, að frv. þetta geti auðveldlega orðið til þess að hækka jarðir í verði fyrir kauptúnunum, því að ómögulegt er að sanna, að verð það, sem bæjunum er boðið, sje hið sanna verð; það má hreint og beint hafa strámenn til þess að bjóða á móti, án þess að hægt sje að sanna, að verðið sje falskt. Þetta er því alveg tilgangslaust, því að forkaupsrjett þennan má fara kringum á margan hátt. Jeg verð því að vera meiri hl. landbn. sammála í því, að frv. þetta nái á engan hált tilgangi sínum og því sje rjett að fella það.