22.03.1927
Efri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (2317)

63. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á jörð í nágrannahreppi

Magnús Kristjánsson:

Þó að jeg álíti, að þetta frv. megi vel fara frá háttv. deild, án þess að verið sje að orðlengja frekar um það, verð jeg þó að geta þess, að mjer þykir víkja nokkuð undarlega við um nokkrar þær röksemdir, sem komið hafa fram á móti því. Það er ekki hægt að segja, að þetta sje neitt stórmál, og mig furðar nærri á því, að hv. flm. (JBald) skyldi ekki koma með róttækari tillögur í þessu máli, vegna þess að það er mjög vafasamt, hvort þessi forkaupsrjettur mundi verða að tilætluðum notum. Eins og jeg benti á við 1. umr., þurfti frv. breytinga við, og nú er fram koinin brtt., sem gengur í þá átt, að fyrirbyggja það, að kaupstaðir geti eignast jarðir á víð og dreif í hreppunum. Þetta var sú hætta, sem hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) ljet í ljós, að hann óttaðist, og hún var líka til, ef frv. hefði verið samþykt án brtt., því að þá mætti búast við, að kaupstaðir eða kauptún færu að hola niður þurfamönnum sínum hingað og þangað, til þess að þeir með tíð og tíma geti orðið handbendi þeirra sveitarfjelaga, sem jarðirnar eru í. En eftir að þessi brtt. er fram komin, tel jeg, að þessi hætta sje algerlega horfin, vegna þess, að þar sem land kauptúns og jarðeign liggja saman, mundi ekki verða stofnað til nýbýla, heldur mundi nytjun jarðarinnar framkvæmd á þann hátt, að kaupstaðarbúar gætu notað sjer hana, án þess að þurfa að vera þar búsettir. Þess vegna álít jeg, að sú hætta sje alveg horfin, ef brtt. háttv. 2. þm. S.-M. (IP) verður samþykt. Svo er nú hitt, að þetta væri í sjálfu sjer eina ráðið til þess að fá framgengt þeirri hugmynd, sem í frv. felst, að gera kaupstaðabúum hægra fyrir um land til ræktunar. Þar sem svo hefir staðið á, að jarðir hafa legið í námunda við kaupstaði og verið lagðar undir þá, hefir í flestum tilfellum farið svo, að ekki hafa liðið nema örfá ár, þangað til aðiljar hafa orðið ásáttir um það, að jarðirnar fjellu til þess lögsagnarumdæinis, sem jarðirnar átti, og jeg veit ekki betur en að hreppunum hafi tekist að koma ár sinni vel fyrir borð, á þann hátt, að þeir hafi losnað við margvíslegar byrðar og komið þeim yfir á kaupstaðina. Þetta hefir niðurstaðan orðið, og þess vegna álít jeg, að þessi hætta fyrir hreppana, sem svo mikil áhersla hefir verið lögð á, sje mjög lítil. En það er í raun og veru ekki hægt að segja, að þessi forkaupsrjettur sje í sjálfu sjer mikils virði, en það er þó spor í rjetta átt. Þetta skapar möguleika, þótt ekki sjeu fulltryggir, til þess að mönnum geti gefist kostur á að fá umráð yfir landi og bæta þar með hag sinn á margan hátt.

Jeg segi þess vegna, þó að jeg telji þetta mál ekki svo þýðingarmikið, að það sje þess vert að halda langar ræður eða deila mikið um það, að jeg tel þó frv. heldur til bóta, og fari svo, að brtt. á þskj. 213 verði samþykt, þá mun jeg greiða atkv. með frv. Það er spor í rjetta átt, og því rjett að samþykkja það. Jeg sje ekki, að það geti orðið neinum til meins, en mundi að öllum líkindum geta orðið einhverjum til nokkurra hagsbóta.