22.03.1927
Efri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2318)

63. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á jörð í nágrannahreppi

Guðmundur Ólafsson:

Það er nú búið að tala æði mikið um þetta frv., og eru sum rökin með og móti því lítt skiljanleg. Þeir, sem hafa talað með frv., hafa haldið því fram, að ef þessi forkaupsrjettur handa kaupstöðunum verður samþyktur, þá gæti þeir fengið jarðirnar með sanngjörnu verði. Hv.

2 þm. S.-M. (IP) sagði, að þetta kæmi í veg fyrir mjög hátt verð, en aftur tók hv. 1. þm. G.-K. (BK) dæmi af því, að það mætti fá einhvern mann til að bjóða nógu hátt í jörðina, án þess að hann ætlaði nokkuð með hana að gera, aðeins til þess að koma henni í uppsprengt verð. En jeg geri nú ráð fyrir, að jeg beri álíka mikið skyn á þessa forkaupsrjetti eins og aðrir hv. deildarmenn, og jeg get ekki sjeð, að þetta frv. hafi neitt að þýða. Jeg ljet þess getið, þegar frv. kom fyrst til umr., að mjer fyndist það alveg óþarft, það væri aðeins til þess að sýna frjósemi hv. flm. (JBald) hjer á þinginu, en að það væri alveg gagnslaust að vera að semja og samþykkja slík lög, því að hverjum dettur það í hug, að kaupstaðir geti ekki alveg jafnt keypt jarðir, þó að þessi lög komi ekki til? Enda hafa þær mismunandi ástæður, sem fram hafa komið hjá tveimur hv. þm„ sem talað hafa um frv., sýnt það ljóslega, og að minsta kosti færði hv. 1. þm. G.-K. (BK) glögt dæmi um það, að það er ljett verk, að fá einhvern mann til þess að bjóða í hverja þá jörð, sem um er að ræða. Jeg stakk líka upp á því, ef hugsað væri til að gera þetta frv. að lögum, að þá væri rjettara að láta hreppsbúa, sem vantaði jörð og tæki hana sjálfur til ábúðar, sitja fyrir forkaupsrjettinum, en þá fjekk jeg það svar hjá hv. 5. landsk. (JBald), að það væri ekki hægt að koma þessháttar fyrir í lögum. Það er nú skýring, sem ekki gengur í mig, því að það er hægt, þó að það verði máske gagnslaust. (JBald: Forkaupsrjettirnir verða þá fleiri en fimm. Já, en lögin eru nú prentuð, svo að það er hægt að lesa þau og telja forkaupsrjettarrununa, og það dettur vist engum í hug, að jörð í næsta hreppi við kauptún sje seld svo, að kauptúnið viti ekki af því. Jeg geri ekki litið úr þeirri hættu fyrir hreppa, ef kauptún ná í jarðir í þeim, að sveitarþyngsli kunni mjög að aukast í hreppunum við það. Fin hvað það snertir, sem hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) stungu upp á, að jarðirnar skyldu falla undir lögsagnarumdæmi kaupstaðanna, þá vil jeg benda á, að það væri ekki skemtilegt fyrir hreppsfjelög, þar sem margar jarðir fjellu undir annað lögsagnarumdæmi, er lægju á víð og dreif um allan hreppinn. Jeg held, að það væri best að losna við þetta frv., því að jeg held, að það sje nóg komið af forkaupsrjettindum á jarðirnar. Brtt. hv. 2. þm. S.-M. (IP) gerir náttúrlega nokkurn mun, að því leyti, að þá nær þessi forkaupsrjettur ekki nema að næstu jörð, en svo víkkar það út hringinn, því að þegar búið er að ná í fyrstu jörðina á þennan hátt, þá gæti sama komið til mála um einar 3—4 jarðir á eftir. (MK: Ekki nema með því, að fyrsta jörðin væri lögð undir lögsagnarumdæmi kauptúnsins). Jeg held, að það sje ekkert um það í frv., en hv. 4. landsk. (MK) á við það, að ef sú brtt., sem fram er komin, yrði samþykt, þá væri ekkert við það að athuga, en jeg er búinn að sýna fram á, að það yrði nokkuð svipað fyrir því. En svo var hv. þm. (MK) að tala um það, að hreppar hefðu stundum komið af sjer ómegð á kaupstaði. En til þess veit jeg ekki, og jeg held, að allir geti sjeð það, að ef kaupstaður og hreppur vilja keppa í slíkum málum, þá er það auðsjeð, hvor er betur settur, því ef einhverri bæjarstjórn er það mikið kappsmál að ná í ákveðna jörð, ætli kaupstaðurinn standi þá ekki betur að vígi? Jeg sje, að hv. 2. þm. S.-M. (IP) brosir. Jeg þykist viss um, að hv. þm. (IP) skilur, að þetta eru ólíkir aðiliar, svo að kaupstaðurinn er nógu vel settur með að ná í það, sem 1 ann vill, þó að þetta frv. sje ekki samþykt, seni jeg reyndar er mest á móti at því að jeg álít, að það sje gagnslaust að öllu leyti.