11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2330)

62. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Ólafur Thors:

Jeg þarf ekki að benda öðrum háttv. þm. en flm. (HjV) á það, að það er alt önnur og betri aðstaða fyrir Hafnfirðinga að sækja kjörfund en menn annarsstaðar í kjördæminu, t. d. uppi í Kjós, suður í Grindavík, Miðnesi og víðar. Það sýnir sóknin í fyrra, þegar jeg var kosinn á þing. Hjer um bil allir Hafnfirðingar gátu neytt kosningarrjettarins, og það er aðalstyrkur jafnaðarmanna. Fylgismenn þeirra gátu því svo til allir kosið, en flestir þeirra, sem heima sátu, voru kjósendur Íhaldsflokksins.

Jeg ætla ekki að orðlengja þetta meira, og ekki skal jeg heldur deila um það, hvort háttv. flm. kunni að reikna. Jeg geri ráð fyrir, að honum hafi farið fram á því sviði frá því við fyrst þektumst. En jeg er ekki eins viss um, að um nokkra framför í hugsun sje að ræða.