01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2350)

44. mál, yfirsetukvennalög

Flm. (Jakob Möller):

Jeg hefi leyft mjer að taka upp og bera hjer fram frv. það, sem hv. þm. Snæf. (HSteins) flutti í hv. Ed. á síðasta þingi. Það var þá afgr. frá Ed., að vísu allmikið breytt, en náði ekki fram að ganga þessari hv. deild. Það var þó játað af öllum, að brýn nauðsyn væri að bæta kjör yfirsetukvenna að einhverju leyti, en til bráðabirgða var það ráð tekið, að skora á ríkisstjórnina að greiða dýrtíðaruppbót að sínum hluta af launum þeirra, og á sýslunefndir og bæjarstjórnir að gera slíkt hið sama að sínum hluta. Auðvitað var þessi afgreiðsla málsins ófullnægjandi og gat ekki orðið nema bráðabirgðaráðstöfun. Og þess vegna vænti jeg, að hv. þdm. taki mjer það ekki illa upp, að jeg hefi nú tekið málið upp á ný. Og það því síður sem fullyrða má, að það hafi nú þegar komið í ljós, að þessi ráðstöfun hv. deildar á síðasta þingi hafi ekki náð tilgangi sínum, þar sem dýrtíðaruppbótin, sem ætlast var til, að yfirsetukonurnar fengi, mun alls ekki hafa verið greidd alstaðar af hálfu sýslunefndanna, og þannig er sýnt, að þessu verður að skipa með lögum. En að öðru leyti hefir þessi ráðstöfun líka reynst ófullnægjandi, því að engar horfur eru á því, að hún muni verða til þess að ráða bót á því böli, sem henni var ætlað, sem sje vöntuninni á yfirsetukonunum. Því að fullyrða má, að þeim hjeruðum fari fjölgandi, sem yfirsetukonur vantar í, og aðsóknin að yfirsetukvennaskólanum fer enn minkandi. Eru nú á honum 5 stúlkur, en talið að þurfi að vera 12 á ári, svo að þörfinni verði fullnægt. Og nú sverfur jafnvel svo að, að því er einn prófessorinn í læknadeild háskólans skýrir frá, að stjórnin hefir neyðst til að skipa gersamlega ólærðar yfirsetukonur í sum hjeruðin. En með því fullyrði jeg, að við sjeum komnir á hættulega afturfararhraut. Þó að einhver kunni að segja, að betra sje að veifa röngu trje en öngu, þá hygg jeg samt, að menn mundu kippast við, ef þeir heyrðu, að farið væri að skipa ólærða skottulækna sem fullgilda hjeraðslækna. En á þessu tvennu er í raun og veru ekki verulegur munur.

Heilbrigðismálin eru vafalaust mikilsverðustu mál þjóðarinnar. Og Alþingi hefir líka lagt mikla rækt við þau. Því verður ekki neitað. En þessi grein þeirra hefir orðið útundan að nokkru leyti. Að vísu hafa kröfurnar, sem gerðar eru til kunnáttu ljósmæðra, verið auknar og þeim gert að skyldu að verja meiri tíma til náms. En þess hefir ekki verið gætt, að jafnframt væri óhjákvæmilegt að gera stöður þeirra eftirsóknarverðari, kjörin betri. Og afleiðingin verður sú, að engar ljósmæður fást, sem fullnægja kröfunum, og nota verður í þeirra stað algerlega ólærðar konur, eins og fyrir áratugum síðan. En ef við kjósum heldur að hörfa aftur um áratugi í þessu efni, heldur en að bera óhjákvæmilegan kostnað af þeim framförum, sem stofnað er til með aukinni ljósmæðramentun, þá verðum við líka að horfast í augu við afleiðingarnar af því, sem óhjákvæmilega verða þær, að við færumst nær því ástandi, sem var fyrir áratugum síðan, sem lýsti sjer í margfalt meiri ungbarnadauða og sængurkvennadauða en við höfum haft við að búa hin síðari árin. Það stoðar ekkert að berja höfðinu við steininn í þessu efni og segja, að ljósmæðurnar geti stundað aðra atvinnu að svo og svo miklu leyti, og þess vegna geti þær komist af með lægri laun.

Ljósmæður fást ekki fyrir þau laun, sem þeim eru nú ákveðin, og ljósmæðralausum hjeruðum fer fjölgandi ár frá ári, ef ekki verður úr þessu bætt — eða þá, að í þau verður að skipa ólærðar konur, sem ekki þekkja neitt til einföldustu varúðarráðstafana við barnsburð.

Og þó er sannleikurinn sá, að í stað þess að slaka til á kröfunum, ætti einmitt að herða á þeim. Það ætti að krefjast meiri mentunar af yfirsetukonunum en gert er, þótt það hefði í för með sjer enn hærri launakröfur. Og í stað þess að neyða þær með lágum launum til þess að binda sig sem mest við önnur störf, ætti einmitt að hvetja þær til þess með hærri launum að gefa sig að sem mestu leyti við ljósmóðurstörfunum, þannig, að þær t. d. gætu verið óhindrað nægilega lengi hjá hverri sængurkonu, eftir því sem á stendur.

Jeg hefi ekki gert það að umtalsefni, hverja sanngirniskröfu ljósmæðurnar eigi til hærri launa en þær fá nú. Í því efni nægir fullkomlega að vísa til greinargerðar, sem frv. fylgir, sem er kaflar úr brjefi frá „Ljósmæðrafjelagi Íslands“ til Alþingis, og jeg efast ekki um, að hv. þm. hafi lesið með athygli. Það er líka í raun og veru viðurkent af öllum, að kröfur ljósmæðranna sjeu á fullri sanngirni bygðar. Aðeins er um það deilt, hvað frekast sje unt að pína þær til að láta sjer lynda. Og það, að núverandi launakjör þeirra sjeu óhæfilega lág og ósanngjörn, er líka þegar ljóst af því, að ljósmæður fást ekki í hjeruðin, að stúlkur vilja ekki nema ljósmóðurfræði, eða leggja það starf fyrir sig, af því að þær eiga jafnvel algerlega ólærðar kost á betri kjörum við hvaða önnur störf, sem vera skal. En það er nú einu sinni svona, að hvorki karlar nje konur fást alment til þess að vinna erfið og ábyrgðamikil störf fyrir minni laun en unt er að fá fyrir önnur störf vandaminni, aðeins heiðursins vegna eða af eintómum mannkærleika. Launin verða að samsvara kröfunum.

Það hefir verið haft á móti þessu máli, að samþykt þess yrði skoðuð sem fordæmi, og þá yrði varla komist hjá því samstundis að taka upp alt launamálið, eða að minsta kosti bæta að einhverju leyti launakjör annara starfsmanna. Það kann nú að verða fullerfitt að skella algerlega skolleyrum við rjettmætum kröfum embættis- og starfsmanna landsins um bætt launakjör, hvernig svo sem fer um þetta mál. Þó er mjer það óskiljanlegt, að hv. þm. geti fundið nokkra fróun í því, að neita þessari stjett, ljósmæðrunum, um svo skýlausan rjett þeirra, sem þeir komast ekki hjá sjálfir að viðurkenna. Mjer getur jafnvel ekki betur skilist en að það sje öllu óþægilegra, að aðrir starfsmenn landsins geti bent á þetta augljósa dæmi um ósanngirni af þingsins hálfu í garð starfsmanna landsins, sem sönnun fyrir allsherjar ósanngirni, dœmi, sem sannar sig sjálft svo greinilega, með því að ljósmóðurstöðurnar verða æ fleiri og fleiri, sem eru óskipaðar. — Um hvaða stjett aðra er hægt að sýna fram á hið sama?

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og til fjhn.