01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (2355)

44. mál, yfirsetukvennalög

Hákon Kristófersson:

Jeg hjelt satt að segja, að orðum mínum hefði verið svo í hóf stilt, að ekki hefði verið ástæða til, að þau kostuðu svona mikinn hávaða hjá háttv. 1. þm. Reykv. (JakM). Jeg held að það hafi ekki verið rjett hjá þessum hv. þm., að sveigja svo mjög að hinum gömlu, góðu, ólærðu ljósmæðrum, sem áður þjónuðu, því að jeg hygg, að þær hafi margar hverjar ekkert staðið ver í stöðu sinni en þær lærðu nú á dögum. (JakM: So-o-o?). Já, so-o-o! Jeg frábið allar aðdróttanir að hinum góðu gömlu konum. Annars veit jeg vel, að þungamiðja þessa uppvaknings er hjer í Reykjavík, eins og um allar launakröfur, þær byrja hjer, og eru svo blásnar út um alt land hjeðan.

Þá sagði þessi háttv. þm., að hin mörgu óskipuðu læknishjeruð sönnuðu ekkert annað en slæm launakjör. En mjer finst þau sanna annað meira, að landið hafi ekki efni á að borga læknum sínum og ýmsum öðrum starfsmönnum, eins og þeir geta unnið sjer inn í fjölmennum bæjum, ef duglegir eru. Annars má ekki gleyma því, að litlu og fámennu læknishjeruðin úti á landi eru betur launuð en hin stóru og fjölmennu.

Þá taldi hann ekki sambærilegt, að bera saman óveitt læknishjeruð og yfirsetukvenna, því aðeins væru örfá læknishjeruð óveitt, ef þá nokkur væru, en fjöldi yfirsetukvennaumdæma. Sje þetta þannig, þá hefir það breyst mjög alveg nú á síðustu tímum, því að þegar Reykhólahjerað var óveitt, átti jeg tal um þetta við landlækni, og taldi hann þá óveitt 5–6 hjeruð.

Háttv. flm. (JakM) hristir höfuðuð. Hann má það, því að vel má vera, að það hristist svo til í því, að hann muni, hve mörg óveittu læknishjeruðin eru, því hann brast alveg minni til þess að skýra frá því áðan.

Eins og jeg tók fram áðan, ætla jeg ekki að sýna málinu neina sjerstaka óvild á þessu stigi; vil bara halda fast við, að það sje athugað í nefnd, hvort sýslusjóðirnir í raun og veru sjeu færir um efnalega að bæta þeim bagga við sig, að greiða dýrtíðaruppbót af sínum hluta launanna.

Að endingu vil jeg segja: lof sje Ljósmæðrafjelaginu fyrir að bera svo mjög fyrir brjósti hag kynsystra sinna út á landi, sem lýsir sjer í frv. þessu.!!