13.04.1927
Neðri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (2362)

44. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. minni hl. (Halldór Stefánsson):

Það hefir í raun og veru litla þýðingu, þótt við hv. frsm. meiri hl. (JakM) ræðumst á fyrir auðum sætum, og altaf er örðugt að tala, þegar maður fær enga áheyrn fyrir hávaða og ys í deildinni. Þó verð jeg að segja örfá orð til andsvara ræðu hans. — Mjer skilst, að aðaláherslan sje lögð á, að nú þegar sje farið að verða vart við ljósmæðraskort, og að hann sje yfirvofandi í enn ríkara mæli. Jeg hefi nú bent á í nál., að engin sönnun er fyrir því færð, að þetta stafi af launakjörunum einum saman, og einnig sýndi jeg með ljósum rökum í fyrri ræðu minni, að þessi störf eru engan veginn svo mjög illa launuð. Það er ekki hægt að greiða full laun fyrir það, sem ekki er nema mikill minni hluti af því, sem maður getur leyst af hendi. Mjer finst jeg ekkert tilefni hafa gefið til þess samanburðar, sem hv. frsm. meiri hl. (JakM) gerði, þegar hann sagði, að hann efaðist um, að jeg væri svo mikill áhugamaður, að jeg vildi vinna störf mín af eintómum áhuga. Þetta er alls ekki rjettur samanburður við ljósmæðurnar, því að enginn ætlast til, að þær vinni störf sín af eintómum áhuga. Laun þeirra eru nú betri en nokkru sinni fyr, eftir þá launabót, sem Alþingi veitti þeim í fyrra. Annars er þetta mál ekki sjerlegt kappsmál fyrir mjer, en jeg get hugsað mjer að líta á það í sambandi við annað mál, sem einnig liggur fyrir háttv. deild, kröfur embættismanna um almennar launabætur nú, ári fyr en launalögin eiga að koma til endurskoðunar. Ef þetta frv. verður samþ., getur það rutt brautina fyrir hinum kröfunum. Og þótt 40 þús. kr. sje ekki mikil upphæð, er þó oft svo að heyra sem hv. þdm. þyki muna um minna, ekki síst þegar þessi greiðsla kemur sennilega til að ryðja brautina fyrir margfalt meiri útgjöldum.

Það er rjett hjá hv. frsm. meiri hl. (JakM), að ekki væri óhagstætt fyrir minni hl. að bera saman laun yfirsetukvenna og kaup vinnukvenna, ef sá samanburður væri rjettur að öðru leyti. En jeg viðurkenni ekki, að ljósmóðurstörfin geti talist aðalstörf, og það er aðal ágreiningsatriði okkar hv. frsm. meiri hl. (JakM). Hann viðurkennir nú, að skoðun mín sje ekki fjarri sanni, þegar um húsmæður sje að ræða, en þegar aðrar konur annist störfin, geti þær mjög lítið annað gert. Jeg þykist nú vera sæmilega kunnugur úti um sveitir landsins, og jeg hefi aldrei þekt annað en að ljósmæður leystu jafnframt mörg önnur störf af hendi. Þegar það eru rosknar konur, ráða þær sig venjulega til innanhússtarfa, með þeim skilyrðum, sem staða þeirra krefur, en ungar stúlkur ráða sig til allra algengra sveitastarfa, þótt þær kunni að undanskilja sig sumum hinum erfiðustu. Fleira þykist jeg ekki þurfa að segja til andsvara.

Jeg get tekið undir það með hv. frsm. meiri hl. (JakM), að eðlilegast væri að fresta atkvgr. um frv., þar til bekkir eru fullskipaðir, þótt það brjóti ekki bág við þingsköp að afgreiða það nú.