13.04.1927
Neðri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2365)

44. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. minni hl. (Halldór Stefánsson):

Jeg gæti fyrir mitt leyti látið falla niður umr. um þetta mál, en jeg held, að það sje þó rjettara, samkvæmt venjunni, að tala sig dauðan áður, og vil jeg þá leyfa mjer að víkja örlítið að því, sem hv. frsm. meiri hl. (JakM) sagði.

Hv. þm. (JakM) vill krefjast þess, að minni hl. sanni, að það sje ekki vegna launakjaranna, þessi skortur á ljósmæðrum. En þetta er ósanngjörn krafa, því að þar sem hv. meiri hl. byggir sínar ástæður á þessu atriði, þá er það einmitt hans skylda að sanna ástæður sínar með rökum. Við höfum leyft okkur að draga þetta atriði í efa, og fært til nokkrar líkur, svo sem málfærslu þá, sem hefir verið höfð uppi um þetta mál, og því vil jeg þá bæta við, að jeg veit ekki til þess, að hingað til hafi þinginu borist nokkrar kvartanir frá hjeruðunum sjálfum um vöntun á ljósmæðrum. Nei, kvartanirnar allar eru komnar frá ljósmæðrum hjer í Reykjavík, en ekki frá ljósmæðrum utan af landi; jeg held að það sje öllum vitanlegt.

Þá mintist hv. frsm. minni hl. á, að það væri ekki rjett hermt hjá okkur upp á hv. meiri hl., að launin ættu að vera full framfærslulaun, og viðurkennir nú, að frá þeirra hendi sjeu launin ekki hugsuð sem full framfærslulaun, og jeg get þá tekið þessa játningu gilda frá þeirra hendi. En frá ljósmæðranna hendi er það sótt þannig, því að í þeirri greinargerð, sem Ljósmæðrafjelagið hefir samið og lagt upp í hendurnar á flm. frv. og prentuð er sem ástæður fyrir frv., er sagt (með leyfi hæstv. forseta):

„Engin stúlka, sem stundar ljósmóðurstörf, þótt í fámennu umdæmi sje, getur ráðið sig í neina aðra vinnu; þess vegna þarf hún að hafa föst laun, sem ekki sjeu minni en vinnukonulaun.“

Það er þá gott að hafa fengið það fram, að hv. meiri hl. vill ekki fallast á þessi rök Ljósmæðrafjelagsins.

Þá var hv. frsm. meiri hl. að minnast á dýrtíðaruppbótina frá hendi sýslusjóða. Það má vera kunnugt, þótt jeg viti það ekki, hvort t. d. Reykjavíkurbær hefir greitt þessa uppbót, en hvað sýslusjóði út um land snertir, þá hygg jeg, að sumir hafi greitt hana, en sumir ekki. En ef svo er, að þessi uppbót hafi aðeins verið greidd á stöku stöðum, þá sýnist mjer það vera full bending um það, að þörfin sje ekki eins brýn og haldið er fram, því að það eru þó hjeraðsbúar, sem sýslusjóðirnir eiga að hafa forsjá fyrir, sem ljósmæðraskorturinn bitnaði sárast á, og kröfur til umbóta mundu koma fyrst til sýslusjóðanna, sem mundu verða vel við þeim fyrir sitt leyti, ef þeir fyndu sjerstaklega sárt til þessa skorts.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl. (JakM), að launakjör ljósmæðra væru ekki sambærileg við nein önnur launakjör opinberra starfsmanna, en þetta vil jeg ekki viðurkenna. Jeg skal viðurkenna, að störfin eru ekki sambærileg við störf annara lágt launaðra starfsmanna, en launakjörin, fyrir þau störf, sem int eru af hendi, held jeg að sjeu fullkomlega sambærileg, t. d. við laun pósta, hreppstjóra o. fl. En, sem sagt: jeg get vel látið umr. hjer niður falla, því að jeg býst ekki við því, að við getum orðið sammála, hv. frsm. meiri hl. (JakM) og jeg. Jeg er fús til, að svo vöxnu máli sem er, að leggja málið og ástæður okkar undir úrskurð hv. deildar, því að við verðum hvort sem er að hlíta, hvern úrskurð deildin gefur.