20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (2388)

32. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Árni Jónsson): Þetta mál er orðið svo kunnugt, að ekki er ástæða til að fara um það mörgum orðum. Þetta er þriðja þingið, sem hefir það til meðferðar. Fyrst var það flutt 1921 af okkur þm. N.-M. Þá var lagt til, að kosningar færu fram í 10. viku sumars, nefnilega frá 23.–29. júní, en allshn. breytti því þannig, að þær skyldu fara fram í 11. viku sumars, nefnilega frá 30. júní til 6. júlí. Það var samþ. með 16:11 atkv. og afgreitt til Ed. Þegar þangað kom, voru undirtektirnar í fyrstu góðar, en brátt fór að bera á mótmælum, sem áttu sinn þátt í því, að deildin treysti sjer ekki til að afgreiða frv., heldur vísaði því frá með rökstuddri dagskrá. Síðan var það borið hjer fram að nýju 1925, og þá var farið jafnframt fram á þá breytingu, að skifta mætti hreppi í kjördeildir. Það varð að samkomulagi í nefnd, að aðeins sú breyting skyldi ná fram að ganga, og hún var samþ. og varð að lögum. Nú hefir frv. enn verið borið fram. Allshn. hefir haft það til meðferðar, en klofnað. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ., en minni hl. leggur á móti því. Meiri hl. hefir gert tvær brtt. við frv. í frv. stendur, að ef 1. júlí beri upp á sunnudag, skuli kosið næsta virkan dag á undan, en meiri hl. vill hafa næsta virkan dag á eftir. Vegna kjörskránna er sú breyting óhjákvæmileg.

Hin brtt. er um það, að talning atkvæða skuli frestað, þar til 5 vikur sjeu liðnar frá kjördegi. Jeg þarf ekki að fjölyrða um ástæðurnar fyrir þeirri tillögu. Mönnum eru þær kunnar.

Færsla kjördagsins er fullkomlega rjettmæt krafa frá sveitabúum. Á haustin er allra veðra von, eins og greinilega kom í ljós síðastliðið haust. Margir dagar geta farið í ferðalagið, og t. d. á kvenfólk alls ekki heimangengt. En aftur að sumri til, þá er færðin venjulega hin besta, og um það leyti, sem hjer er farið fram á, litlar annir, svo að það er hægt að segja, að það sje einna heppilegastur tími, sem hægt er að finna, þessi góði tími, sem kallaður er „milli heys og grasa“.

En það er nú svo, að þrátt fyrir það, þó að fylsta sanngirni mæli með þessu, þá hafa nokkrir kjósendur talið sig verða útundan, ef þetta yrði samþykt. Hafa sjerstaklega komið mótmæli frá verkamönnum, og því borið við, að margir þeirra sjeu frá heimilum sínum um þessar mundir, og eigi því óhægt með að mæta á kjörstað. Þetta er auðvitað rjett, að margir kjósendur eru ekki staddir í nánd við sinn kjörstað á kjördegi, en jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að í lögunum frá 1914, um atkvæðagreiðslu þeirra manna, sem staddir eru utan þess hrepps eða kaupstaðar, þar sem þeir standa á kjörskrá, felist nægileg heimild fyrir þá til að neyta kosningarrjettar síns, svo að þeir menn geti vel við unað. En til þess að gera öllum til hæfis, þá vill meiri hl. nefndarinnar ekki daufheyrast við kröfum þessara manna, og hefir þess vegna borið fram það frv., sem hjer er næst á dagskránni, um atkvæðagreiðslu utan kjörstaðar kjósenda við alþingiskosningar, þar sem svo er ákveðið, að hver maður geti kosið þar sem hann er staddur, án þess að hafa þau gögn í böndum, sem nú eru lögboðin.

Eins og nú er, þá er alls ekki farið fram á það að gera neinum hægt fyrir á kostnað annara. Það er aðeins farið fram á það, að gefa fjölda kjósenda kost á að neyta sinna rjettinda, án þess að skerður sje rjettur nokkurs annars aðila með því. Jeg geri mjer þess vegna fylstu vonir um, að þetta frv. nái samþykki hv. deildar.