20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (2391)

32. mál, kosningar til Alþingis

Jón Ólafsson:

Jeg hefi verið að velta því fyrir mjer, hvort það væri nokkrum til hagsbóta, að færa kjördaginn, og jeg hefi talað við ýmsa menn um þetta, bæði nær og fjær, og það er svo, að flestir á Suðurlandi, sem jeg hefi talað við, eru á móti færslu kjördagsins.

Jeg hefi komist að þeirri niðurstöðu, að færsla kjördagsins sje gerð fyrir nokkrar sýslur á Norðurlandi, sem hafa fyrir augum síðustu útkomu á kosningum til Alþingis. Mjer er kunnugt um það, að hjer á Suðurlandsundirlendinu er mjög mikill meiri hluti á móti þessu; það kunna að vera nokkrir bændur, sem vilja frekar hafa kjördaginn að vorinu. En að því er snertir Árnessýslu sjerstaklega, þá eru þar tvö allstór sjávarþorp, og leitar fólk þaðan mjög mikið atvinnu út úr þeim, t. d. til Norðurlands, en það er svo með alla smáþorpsmenn á landinu, að þeir leita meira og minna atvinnu út úr sínu plássi, og þekki jeg það af eigin reynslu, að þeir, sem annars eru komnir út af sínu eigin heimili, hafa í raun og veru ekki mikinn áhuga fyrir því, að nota sinn kosningarrjett. Það má náttúrlega segja, að það sje þeim sjálfum að kenna, þegar þeim er gefinn greiður aðgangur að því, en það er nú svo samt, að þar sem menn eru ókunnugir, þar munu þeir frekar hika við að nota kosningarrjett sinn.

Það þekkja allir sem verið hafa hjer á Suðurlandi, að mesti annatíminn er í byrjun júlí. Það eru bæði fráfærur, aðdrættir allir, flutningur ullar í kaupstað og margt fleira; jeg hefi t. d. talað við marga Rangæinga um þetta, og þeir segjast miklu frekar kjósa 1. vetrardag, því að þá hafa bændur lokið af haustferðum sínum og sláturtíð, og þykjast þá frekar geta látið það eftir sjer, að sækja kjörfund. Mjer er kunnugt um það, að þeir láta að minsta kosti ekki húsmóður, dóttur eða son sækja kjörfund að vorlagi, þó að húsbóndinn fari, en ef annir eru búnar, þá geta þeir látið það eftir sjer.

Jeg geri ekki svo mikið úr þeirri rjettarbót, sem á að vera fólgin í frv. á þskj. 266. En jeg verð að segja það, að þegar hv. meiri hl. allshn. ákveður þessa breytingu, þá verður hann að leggja það til grundvallar, hve mörgum landsmanna er gert rangt til með þessu, og hve margir það eru, sem í raun og veru vilja það. En mjer er vel kunnugt um, að mikill hluti bænda á Suðurlandi vill miklu síður hafa kjördaginn 1. júlí heldur en 1. vetrardag. Jeg er í raun og veru hálf hissa á hv. 2. þm. Arn. (JörB), að hann skuli gera kjósendum sínum þann ógreiða, að ljá þessu frv. fylgi sitt, því að margir af kjósendum þessa hv. þm. (JörB) verða að sækja atvinnu aðra landsfjórðunga, og jeg veit líka, að það væri tap fyrir þann flokk, sem jeg heyri til, að hafa kjördaginn 1. júlí. Jeg vil heldur ekki vera að gera öðrum rangt til, sem teldu sjer skaða í því, ef kjördagurinn yrði fluttur, og jeg sje heldur enga ástæðu til þess, og jeg trúi því ekki fyr en jeg tek á, að hv. deild samþykki þessa ráðstöfun á kjördeginum.