20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (2392)

32. mál, kosningar til Alþingis

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg ætla ekki að fara að blanda mjer inn í verkefni hv. frsm. meiri hl. (AJ), því að hann er fullfær um að svara fyrir hönd okkar meirihlutamanna. En það er vegna ummæla hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), að jeg tek til máls.

Hv. þm. (JÓl) kveðst hafa átt tal við mjög marga menn á Suðurlandi um þetta, og sagði, að þeir láti sjer í ljettu rúmi liggja færslu kjördagsins, og ef til vill, að nokkrir teldu sjer það óhagræði. Jeg hygg nú, að við Sunnlendingar sjeum svo settir í þessu efni, að það komi einna sjaldnast fyrir hjer, að við getum ekki sótt kjörfund; en það hefir þó komið fyrir, og vil jeg þar minna á kjördaginn 1919. Þá var hríðarbylur fram eftir öllum degi, og í uppsveitum Árnesýslu sóttu ekki nema nokkrir menn kjörfund, og sumstaðar var veðrið svo vont, að menn fóru einmitt þann dag að gá að sauðfje, í stað þess að sækja kjörfund. Nú s. l. haust var svo kalt veður, að það fóru aðeins karlmenn lengra að, en alls ekki konur nema af allra næstu bæjum, og var þó miklu betra veður hjá okkur á Suðurlandi heldur en í hinum hlutum landsins. En þó að svo hefði verið ástatt, að aðeins við á suðurkjálka landsins hefðum getað sótt kjörfund þennan dag, en stórir hlutar landsins hefðu ekki getað það, þá hefði jeg alls ekki horft í það, að breyta til um kjördaginn, og jeg veit, að kjósendur mínir eru þannig skapi farnir, að þó að við með því að færa kjördaginn gerðum okkur sjálfum nokkurt óhagræði, þá munum við ekki telja það eftir okkur, til þess að geta gert öðrum það mögulegt, að neyta kosningarrjettar síns. Og fyrir þá sök er jeg fyrst og fremst ákveðinn í því, að greiða þessu frv. um færslu kjördagsins atkvæði mitt. En jeg get líka bætt því við, að þar sem svo er ástatt, að þrátt fyrir góða veðráttu er það okkur hagræði, að flytja kjördaginn, þá er ennþá meiri ástæða fyrir mig til að fylgja þessu frv., og með þeirri breytingu, sem hjer er á ferðinni um atkvæðagreiðslu utan kjörstaðar kjósenda, þá er mönnum gert jafnhátt undir höfði að neyta kosningarrjettar síns, hvar sem er á landinu, ef það frv. verður samþykt, sem jeg geri ráð fyrir, og vil jeg þá um leið geta þess, að fylgi mitt við færslu kjördagsins er bundið því skilyrði, að hitt frv. nái fram að ganga. Þá geta menn kosið, hvar sem þeir eru staddir á landinu. Og þó að þetta sje annatími. Það skal jeg játa, þá er hann það nokkuð jafnt hjá öllum.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. minni hl. (HjV) sagði, þó að jeg viti, að hv. frsm. meiri hl. (ÁJ) muni svara því, vildi jeg aðeins drepa á eitt atriði. Hv. þm. (HjV) sagði, að um þetta leyti árs, 1. júlí, væru menn svo uppteknir af annríki, að þeir gætu ekki gefið sjer tíma til að hugsa um stjórnmál svo sem þyrfti, og þess vegna væri tíminn mjög óhentugur, sjerstaklega fyrir verkafólk; en jeg vil nú lýsa yfir því, að það eru alveg eins annir til sveita á þessum tíma, svo að það stendur þeim jafnt í vegi, eða vill nú þessi hv. þm. (HjV) kanske nefna mjer einhvern þann tíma ársins, þegar sveitamenn hafa ekki anna að gæta. Jeg veit annars ekki betur en að þannig sje orðið ástatt í mörgum sveitum þessa lands, að það sje orðinn óslitinn annatími árið um kring. 1. vetrardag getur oft verið svo ástatt, að stórhættulegt sje, að karlmenn fari heiman, því að þá þarf oft að bjarga skepnum undan illviðri. Þess vegna getur viljað til, að mönnum sje ómögulegt að gegna störfum kjörstjórna, ef þeir eiga að vera 3 daga að heiman, eins og gert er ráð fyrir í brtt. háttv. frsm. minni hl. (HjV). Jeg býst helst við, að hann hafi borið fram þessa brtt. sökum ókunnugleika á háttum sveitamanna. Ella hefði hún ekki fram komið. En eins og drepið var á við 1. umr. þessa máls, þá á að hafa kjördag þannig að sem flestir kjósendur, hvað sem þeir gera og hvar sem þeir eru, geti neytt þessa rjettar síns. Meiri hl. nefndarinnar hefir nú gert tilraunir til þess, að bæta úr þessu.

Jeg held að það sje nokkuð orðum aukið, sem menn færa til andmæla fræslu kjördags eða frv. um kosningu fjarstaddra manna. Það er víst, að sje mönnum ant um, að allir geti notað kosningarrjettinn og telji það eins miklu varða og þeir háttv. þm., er talað hafa á móti málinu, láta í veðri vaka, þá eiga þeir ekki að hyllast til, að láta kjördag vera á þeim tíma, sem mörgum mönnum er ómögulegt að neyta þessa rjettar. Það skiftir litlu máli, þó að þetta hafi ekki áhrif beinlínis á úrslit kosninga. En mörgum mönnum er áhugamál að nota þennan rjett. Á því löggjafarvaldið að fara þá braut, að gera öllum þetta sem hægast.

Jeg mun nú, þrátt fyrir spár og yfirlýsingar manna, greiða frv. þessu atkv. mitt, og þekki jeg illa skap kjósenda minna, ef þeir vilja ekki sýna mönnum í öðrum landshlutum rjettlæti á við sjálfa sig. Þeim væri þá illa í ætt skotið, þar sem þeir eru afkomendur Haukdæla og Oddaverja. (TrÞ: Þeir eru nú víðar!).