28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (2397)

32. mál, kosningar til Alþingis

Jón Kjartansson:

Það er aðeins út af brtt. á þskj. 409, að jeg kveð mjer hljóðs.

Eins og hv. þdm. muna, var hjer feld brtt. við 2. umr. þessa máls, á þskj. 315, sem fór í líka átt og þessi brtt., nema hvað hún var aðgengilegri, ef maður á annað borð vildi ganga inn á að samþykkja það frv., sem hjer kemur næst á dagskránni. En þessi brtt. á þskj. 409 er að mínu áliti mjög óaðgengileg. Þar er sagt, að talning atkvæða megi ekki fara fram fyr en líklegt sje, að komin sjeu til yfirkjörstjórnar öll atkvæði, sem greidd hafa verið utan kjördæmisins á kjördegi. En svo er sagt, að aldrei megi skemmra líða en 4 vikur frá því, er kosning fer fram, og til þess, er atkvæði eru talin.

Jeg skil ekki, hvers vegna hv. flm. (JG) hefir sett fyrri hluta brtt., því að mjer finst, að síðari hlutinn setji nægar skorður, þar sem sagt er, að ekki megi telja atkvæðin fyr en 4 vikur eru liðnar frá kosningu. Því að það getur varla komið fyrir að allir fjarverandi menn hafi neytt atkvæðisrjettar síns, og af því leiðir, að þetta „ætla má“, getur ekki komið á undan ákvæðinu um 4 vikur. En ef hv. þm. (JG) ætlast til, að mat eigi sjer stað, eftir þessar 4 vikur, um það, hvort öll atkvæði sjeu fram komin, þá álít jeg, að það sje með öllu óforsvaranlegt. Það gæti ekki komið til mála, að þau atkvæði, sem kæmu til yfirkjörstjórnar eftir að þessar 4 vikur væru liðnar og talning væri lokið, yrðu tekin til greina. Jeg sje þess vegna ekki, að hægt sje að samþykkja þessa brtt. Jeg býst ekki við, að frv. það, sem er á dagskránni hjer næst á eftir, verði samþykt, og álít jeg því, að það eigi að fella þessa brtt. Jeg vona því, að þessi brtt. verði feld, og frv. svo samþykt óbreytt, eins og það liggur fyrir.