04.05.1927
Efri deild: 65. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (2404)

29. mál, bæjarstjórn á Norðfirði

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Þeim hv. þdm., sem áttu sæti á síðasta þingi, er mál þetta sæmilega kunnugt, því að það var þá felt alveg samhlj. frv. hjer í hv. deild.

Nú hefir þetta mál verið góðan tíma hjá allshn.; hún hefir nú athugað það aftur og komist að sömu niðurstöðu og í fyrra, að ekki væri vert að láta þetta mál ganga fram. Ástæður nefndarinnar eru teknar greinilega fram á þskj. 464, og jeg sje því eiginlega ekki ástæðu til að bæta neinu þar við að svo stöddu. Og þótt jeg búist jafnvel við, að allshn. fái fremur vanþakklæti fyrir þessa niðurstöðu sína hjá hv. flm., sem leggur svo mikið kapp á þetta mál, að hann ber það nú fram þing eftir þing, þá geri jeg ráð fyrir að svara honum fremur litlu, þótt hann vilji segja eitthvað, sem ekki væri einskært hrós um nefndina.