04.05.1927
Efri deild: 65. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (2405)

29. mál, bæjarstjórn á Norðfirði

Ingvar Pálmason:

Mál þetta var flutt nokkuð snemma á þessu þingi. Það var tekið til 1. umr. 19. febr., og er búið að dvelja hjá nefndinni frá 19. febr. til 30. apríl, eða 70 daga.

Maður gæti nú búist við, að hjer væri ekki að neinu flanað, en alt vel athugað. En hvorki af nál. nje framsöguræðunni er hægt að marka slíkt. Mjer er ekki grunlaust um, að nefndin hafi ætlað sjer að leggjast á málið. Jeg hefi eiginlega fulla ástæðu til að álíta, að það hefi verið fyrir ítrekaða áskorun mína, að málið kom fram.

Þessi meðferð nefndarinnar virðist mjer benda í þá átt, að hún hafi haft það á meðvitund sinni, að ekki væri rjett að farið með þetta mál — að í málinu fælist meiri sanngirni en nefndin vill kannast við. Það er auðvitað, að ef um fjarðstæðu hefði verið að ræða, þá tók það ekki langan tíma fyrir sömu mennina, sem höfðu málið til meðferðar á síðasta þingi, að komast að niðurstöðu. Þess vegna þori jeg að draga út frá þessu þá ályktun, að nefndinni þyki ekki ugglaust um, að hún fari rjett að í þessu máli.

Það væri nú hugsanlegt, að önnur ástæða lægi til grundvallar fyrir drætti á málinu, sem sje sú, að nefndin hefði verið að afla sjer frekari upplýsinga heldur en hún átti kost á í fyrra. Að vísu þykist jeg hafa gefið ítarlegar upplýsingar um þetta mál og fært fram sæmileg rök fyrir því — sem ekki hafa enn verið hrakin — að hjer væri um sanngirniskröfu að ræða. — En það væri sem sagt afsakanlegt hjá nefndinni, úr því að hún var heldur treg til þess að ganga með málinu, þótt hún vildi afla sjer frekari upplýsinga og staðfestinga á umsögn um málið. Og til þess gat auðvitað þurft að nota talsverðan tíma. En jeg held mjer sje óhætt að staðhæfa, að nefndin hafi ekki leitað minstu upplýsinga um málið; það kom enda fram í þeim fáu orðum, sem hv. frsm. (GÓ) ljet fylgja frv. nú. Jeg veit það fyrir víst, að hjer í Reykjavík var innan handar að leita til manna, sem mjög vel höfðu vit á þessu máli. Þar vil jeg fyrst benda á landlækni, sem nú á síðasta sumri var í embættisferð um Austurland og dvaldi nokkra daga á Norðfirði. Jeg veit fyrir víst, að hann leit svo á, að það væri mjög varhugavert fyrir Alþingi, að standa móti þessari kröfu Norðfirðinga, sökum þess, að af því gæti stafað töluvert tjón fyrir kauptúnið frá heilbrigðislegu sjónarmiði. Það hefði mátt vænta þess, að nefndin hefði leitað umsagnar þessa manns. Það var bein skylda hennar, eins og jeg benti á í fyrra við umræður um þetta mál. Ein ástæðan fyrir því, að krafa þessi er fram komin, er sú vanhirða, sem þetta kauptún, sem mörg fleiri, hefir orðið fyrir í uppvextinum. Jeg sýndi fram á það, að það væri töluvert alvarlegt mál fyrir löggjafarvaldið, að ráða bót á þeirri vanhirðu, sem uppvaxandi sjóþorp á þessu landi hafa orðið fyrir undanfarið. Það mætti máske segja, að þetta væri afsakanlegt fyrir löggjafarvaldið, vegna þess að fremur stutt er síðan þessi sjóþorp og kauptún fóru að vaxa. En þegar reynslan er búin að benda löggjafarvaldinu á, að um hættu er að ræða, og þegar kröfur eru fram komnar um, að úr sje bætt að einhverju leyti, þá virðist það vera næstum að segja ófyrirgefanlegt athugaleysi af löggjafarvaldinu, því að jeg vil ekki álíta það annað en athugaleysi, að þverskallast við þessum kröfum, án þess að ganga úr skugga um, að kröfurnar sjeu ekki á rökum bygðar.

Það, sem jeg átel hv. allshn. mest fyrir, er það, að hún notaði ekki þennan langa tíma, sem hún hefir haft málið til athugunar, til þess að kynna sjer það ítarlega. Allir allshn.mennirnir eru ókunnugir á þessum stað, að undanteknum einum, sem hefir haft nokkur kynni af Norðfirði fyrir nokkuru, þegar kaupstaðurinn var að byrja að vaxa. Og jeg hygg, að sá maður, sem er hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), hafi í sinni embættistíð fengið töluverða reynslu fyrir því, að kauptúni á stærð við Norðfjörð hefir orðið það heilladrjúg hjálp að geta fengið sjálfstjórn í sínum málum nægilega snemma. Mjer er óhætt að fullyrða, að ef Seyðisfjörður hefði ekki fengið sín bæjarrjettindi á þeim tíma, sem hann fjekk þau, þá væri hagur hans allur annar nú.

Jeg vil ennfremur benda á, að um fleiri menn var að ræða hjer í Reykjavík, sem ekki var nema sjálfsagt að allshn. leitaði álits til. Vil jeg þar nefna skipulagsnefndina, sem starfar í þessum málum og gerir skipulagsuppdrætti fyrir kauptún og bæi. Þessi skipulagsnefnd var einmitt s. l. sumar á ferð á Austurlandi, og fyrir tilverknað hreppsnefndarinnar í Neshreppi var hún fengin þangað, til þess, ef hægt væri, að fá hrundið í framkvæmd mælingum til undirbúnings skipulagsuppdrætti fyrir Neskauptún. Annars hafði skipulagsnefndin ekki hugsað sjer, að mæling á Neskauptúni yrði framkvæmd á næstunni. En hreppsnefndin sætti lagi og sendi menn og hesta eftir nefndinni til Eskifjarðar á sunnudegi, því að aðra daga gátu þeir ekki mist vegna sinna föstu áætlana. En hvað skeður? Þegar skipulagsnefndin kemur til Norðfjarðar, sannfærist hún strax af eigin sjón, að engan tíma má missa og símar þegar eftir mælingamanni til þess að gera mælingar og uppdrætti af Neskaupstað. Og það hefi jeg eftir Guðmundi prófessor Hannessyni, að hann sagði, að hvert ár, sem liði án þess hafist væri handa í þessum skipulagsmálum, kostaði ekki aðeins kauptúnið heldur landið líka tugi þúsunda.

Ef háttv. allshn. hefði notað 1 dag af þeim 70, sem málið lá hjá henni, til þess að kalla Guðmund Hannesson á fund sinn, hefði hann getað veitt henni upplýsingar til staðfestingar á því, er jeg nú hefi haldið fram. Einasta ástæðan, sem fram er færð gegn kröfu Neskauptúns um bæjarrjettindi, er sú, að meiri hl. sýslunefndar er henni mótfallinn. Það er rjett, og mjer dettur ekki í hug að neita því. En síðar mun jeg koma að því, af hvaða rót sú andspyrna er runnin. En ef háttv. allshn. hefði ómakað sig til þess að leita upplýsinga hjá sýslumanninum í Suður-Múlasýslu, sem hefir manna best, þeirra, er í sýslunefnd sitja, þekkingu á þessu máli og aðstöðu til þess að vera að sjálfsögðu tekinn til greina, þá mundi hún hafa komist að raun um, að hann leggur með því, að kauptúnið fái bæjarrjettindi. Háttv. allshn. datt ekki í hug að hafa svo mikið fyrir. Hún hefir legið á málinu og ekki gert neina tilraun til þess að afla sjer fróðleiks um það. Það er ámælisvert. Jeg verð að líta svo á, að málið sje, eins og það kemur nú frá hendi háttv. allshn., með öllu óupplýst af nefndarinnar hálfu. Þær einu upplýsingar, sem liggja fyrir, eru þær, sem jeg gaf við framsögu þessa máls á þingi í fyrra, og stendur það alt óhrakið enn, er jeg sagði þá. Jeg get því fyllilega vænst þess, að háttv. deild taki þær upplýsingar gildar.

Skal jeg svo víkja örfáum orðum að nál. Það er það helsta, sem fyrir liggur frá nefndinni, því að á framsöguræðunni var ekki mikið að græða. Í nál. kemur í ljós, að háttv. allshn. þykir kynlegt, að sami maður skuli flytja þetta frv. aftur nú. Það getur vel verið, að henni þyki það kynlegt. En jeg get fullvissað hana um það, að hjeðan af verður það flutt á hverju þingi, þar til það nær fram að ganga. Hverjir svo sem verða þingmenn Sunn-Mýlinga, og hvaða flokki sem þeir fylgja, þá verða þeir allir á sínum tíma að flytja það. Það kemst enginn að sem þingmaður, nema hann heiti þessu máli fylgi. (JóhJóh: Þá skal mig ekki furða, þótt hv. þm. (IP) fylgi því fast eftir). Þetta bendir aðeins á, að hlutaðeigendum, hverjum stjórnmálaflokki sem þeir fylgja, er uppfylling þessarar kröfu slíkt áhuga- og nauðsynjamál, að þeir geta með engu móti sætt sig við annað en að fá því framgengt.

Í nál. stendur, að nefndin hafi ekki skift um skoðun síðan í fyrra. Það er sjálfsagt mikið rjett, en ekki sjerlega hrósvert, nema ef hún hefði reynt að leggja meiri drög til andmæla en hún hefir gert. En það skortir mjög, að henni hafi tekist að finna nokkur rök fyrir mótstöðu sinni, þrátt fyrir tveggja þinga leit. Að vísu notar hún þessa einu röksemd, að sýslunefndin sje á móti og Suður-Múlasýsla bíði fjárhagslegt tap, ef Neskauptún hlýtur bæjarrjettindi. Jeg get ekki neitað því, að sýslusjóður Suður-Múlasýslu tapar 14 af tekjum sínum, ef þessi krafa nær fram að ganga. En á hitt verður maður að líta, hvílíkt fjárhagslegt tjón það er kauptúninu, sem alt á eftir ógert, vantar vatnsveitu, raflýsingu, heilbrigðisráðstafanir o. s. frv., að vera ekki fjár síns ráðandi. Er nokkur sanngirni í því, að þetta kauptún greiði 8–9 þús. kr. á ári í sýslusjóð og fái ekki neitt í staðinn? Það er ábyrgðarhluti fyrir löggjafarvaldið, ef það verður vart við slíkar misfellur sem þessar, að þverskallast þá við að leiðrjetta og færa í betra horf.

Lítum nú á afstöðu sýslunefndarinnar í Suður-Múlasýslu. Á fundi í s. l. apríl var þetta mál enn borið upp til atkvæða. Reyndust 9 sýslunefndarmenn vera á móti því, að Neshreppur fengi kaupstaðarrjettindi, en 6 með, og þar á meðal var sýslumaður. Svo langt er þá komið, að sýslumaðurinn kannast við, að hjer sje um misrjetti að ræða, og hann vill sýna fulla sanngirni, þótt sýslusjóður verði fyrir tekjumissi. Auk þess ber sýslufundargerðin frá 1926 það með sjer, að sýslunefndin hefir öll í einu hljóði viðurkent rjettmæti þessarar kröfu, en ekki viljað sleppa hinum góðu tekjum. Nei, það er tvíeggjað sverð hjá háttv. allshn., að nota gjöld Neshrepps í sýslusjóð sem ástæðu á móti þessu frv. Það er einmitt aðalástæðan, sem mælir með því. Þau hlunnindi, sem Neskauptún hefir frá sýslunni, eru ekki önnur en hluti Neshrepps af berklavarnakostnaði, hálf laun yfirsetukonu og 12–14 hundaskamtar. Ekki einn eyrir til vega, ekki einn eyrir til hreinlætis- og heilbrigðisathafna í kauptúninu. Þetta er alt og sumt, sem Neshreppur fær úr sýslusjóði fyrir sitt 8–9 þús. kr. tillag. Ef þetta er ekki ástæða með málinu, þá get jeg ekki skilið, hvernig hægt er að nota það sem ástæðu móti því.

Háttv. allshn. víkur að því í niðurlagi nál. síns, að af þessu frv. leiði fjölgun embættismanna, og það er hlutur, sem helst ekki má nefna. En þessi ástæða er haldlaus, því að hvar sem þörf krefur, þýðir ekkert að hamla á móti, að nauðsynlegir embættismenn bætist við. Þjóðin gerir sjálf kröfu í þá átt. Ef það er rjettmætt, að Neskauptún fái kaupstaðarrjettindi, verður þjóðfjelagið að taka á sig aukinn kostnað, sem af því leiðir. En annars er vansjeð, hvort aukin útgjöld ríkissjóðs af þessari breytingu gætu ekki unnist upp á öðrum sviðum. Jeg skal benda á eitt dæmi: Nú er launalitlum og ábyrgðarlitlum hreppstjóra falið að annast innheimtu tolla og skipagjalda í Norðfirði. Þótt hann ræki starf sitt sem best hann getur, má búast við, að eithvað geti farið utanhjá, t. d. skipagjöld. Skipakomur á Norðfjörð eru mjög tíðar, og sjerstaklega er ilt að hafa hendur í hári hinna útlendu skipa, en þeirra fjöldi er mikill. Er erfitt fyrir launalága hreppstjóra að ganga úr skugga um að ekkert skip sleppi, þegar á sumum tímaum árs að skip eru að koma og fara nær allan sólarhringinn. Þar liggja kannske í einu 40–50 skip, og væri talið nóg starf einum manni annarsstaðar að annast eftirlit með þeim. En það er ekki sanngjarnt, að ætlast til slíks af hreppstjóra, sem hefir aðeins nokkur hundruð krónur í laun á ári. Það er óþarfi að taka það fram, að jeg er ekki með þessu að gefa í skyn vanrækslu á þessu sviði, þótt jeg telji ekki ugglaust um, að eitthvað kunni að sleppa af skipum, án þess að greiða lögboðin gjöld. Hjer er aðeins um galla á skipulagi að ræða.

Jeg get ekki stilt mig um að minnast á það, sem sett er í niðurlag nál., þar sem talað er um stofnun nýs embættis og bætt við þessari klausu: „sem af kunnugustu mönnum er mjög um deilt, hvort þörf sje á“. Væri gaman að vita hvaðan háttv. nefnd eru komnar þessar upplýsingar. Þetta eru líklega þær einu upplýsingar, sem hún hefir aflað sjer á þessum 70 dögum. Hverjir eru svo þessir kunnugu menn? Ekki er það jeg, og ekki er það sýslumaðurinn í Suður-Múlasýslu. Nei, jeg held, að hjer hafi skolast upp hjá nefndinni veikleikinn sá, að hún var sjálf alt of ókunnug.

Þá er líka bent á í niðurlagi nál., að með þessari kröfu sje ýtt undir kauptún, sem hafa líka aðstöðu, að koma fram með samskonar kröfur sjer til handa. Jeg álít, að hvert það kauptún, sem hefir sömu aðstöðu og Nes, eigi að fá kaupstaðarrjettindi, hafi til þess fulla sanngirniskröfu. En jeg vil benda mönnum á, ef þeim er það ókunnugt, að ekki er eins ástatt um eitt einasta kauptún annað á landinu. Væri fróðlegt að grenslast eftir, hvort háttv. allshn. hefir kynt sjer skipakomur þangað eða innflutning og útflutning af Norðfirði síðastliðið ár. Mjer leikur sterkur grunur á, að hún hafi alls ekki kynt sjer þessa höfuðþætti í lífi kauptúnsins. Var þó ekki mikil fyrirhöfn að fletta upp í Hagtíðindunum. Í framsöguræðu minni gaf jeg háttv. nefnd kost á að kalla mig á fund til þess að veita henni þær upplýsingar, er jeg mætti, áður en hún ákvæði sig um málið. En hún hefir ekki sjeð ástæðu til þess. Hún hefir sjálfsagt haft kunnugri menn að leita til. Hitt viðurkenni jeg, að háttv. nefnd gerði mann á minn fund með þau skilaboð, hvort jeg vildi ekki heldur að málið yrði svæft í nefndinni en drepið í deildinni. Jeg neitaði því, og því er málið nú hjer til umræðu og atkvæða. Mjer er ekki grunlaust, að háttv. nefnd hafi leitað lags, hvort ekki væri mögulegt að vísa málinu til hæstv. stjórnar. Þannig ber öll meðferð háttv. nefndar þess vott, að hún vill helst komast hjá að eiga nokkuð við þetta mál. Það er rjett eins og hún hafi á tilfinningunni, að ekki sje það sem rjettast, sem hún leggur til. Ef þetta mál væri einhver fjarstæða, þyrfti ekki að fara í neina launkofa með það, heldur ætti að vera óhætt að leggja það fram í dagsins ljós. En meðferð háttv. allshn. á því sýnir glögglega, að hún vill hliðra sjer hjá því, af því að undir niðri sjer hún rjettmæti þess og veit, að það hlýtur að ganga fram fyr eða síðar.

Jeg vil benda háttv. deild enn einu sinni á, að það er spurning, hvort það er ekki fjárhagslegt tjón fyrir ríkissjóð að þverskallast við þessari kröfu. Jeg hygg það kosti ríkissjóð nokkra upphæð árlega, að málið verður borið fram hjer á Alþingi á hverju ári þar til það verður samþykt.

Jeg held óhætt sje að láta hjer við sitja. Jeg þykist hafa sýnt fram á, að meðferð málsins í háttv. allshn, gefi síst ástæðu fyrir háttv. deild að verða á móti frv. Og jeg þykist líka hafa sýnt fram á, að þau rök, er jeg færði máli mínu til stuðnings á síðasta þingi, og hefi að nokkru endurekið aftur nú, standi enn óhrakin; og með því að þau voru allítarleg, sje jeg ekki ástæðu til að endurtaka þau frekar. Jeg er þess fullviss, ef háttv. deild athugar þau rök nægilega, mun hún ekki sjá sjer fært að verða við till. háttv. allshn á annan veg en þann, að samþykkja frv. Jeg treysti því, að háttv. þingmenn hafi sjálfir kynt sjer þetta mál og skapað sjer á því skynsamlega skoðun, og byggi jeg meira á henni en því, sem fram er komið fyrir tilverknað allshn.