04.05.1927
Efri deild: 65. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (2406)

29. mál, bæjarstjórn á Norðfirði

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Það fór líkt og jeg bjóst við og gat um í framsöguræðu minni, að von væri á einhverju frá hv. flm. (IP), og jeg yrði að standa upp aftur. En jeg bjóst ekki við, að hv. flm. (IP) þætti nál. ómerkilegt, því að sjeð hefi jeg nafn hv. 2. þm. S.-M. (IP) undir ekki merkilegra nál. en þessu, og framsöguræður hefir maður heyrt úr þeirri átt litlu veigameiri en mína.

Það er auðheyrt, að háttv. flm. (IP) álítur, að varla sje um önnur mál að ræða á þingi en þetta, hvort bæjarstjórn skuli vera á Norðfirði ellegar ekki. Hann virðist halda, að þessa 70 daga, sem hann segir málið hafa legið fyrir allshn., hafi nefndin annaðhvort altaf verið að athuga þetta mál og leita sjer upplýsinga um það, ellegar ekkert gert. Að sjálfsögðu hefir nefndin haft mörg mál til meðferðar, og ekki nema eðlilegt, að hún eyddi ekki miklum tíma í það, sem hún hafði athugað til hlítar í fyrra. Var málið ítarlega rætt þá, og hefði lítt prýtt framsöguræðu mína, þótt jeg hefði tekið upp í hana alt, sem þá kom fram, enda mun mörgum tamara en mjer að tyggja upp sömu ummælin þing eftir þing. Þótt málið hafi lengi legið hjá allshn., nær engri átt að drótta að henni iðjuleysi fyrir því, enda hygg jeg, að frá engri nefnd í háttv. deild hafi verið afgreidd jafnmörg mál nú á þinginu. Nefndin hefir sömu skoðun á málinu nú og í fyrra, og hafði gert grein fyrir skoðun sinni þá. Og nefndin spurðist fyrir um það hjá háttv. flm. (IP), hvort endilega væri nauðsynlegt, að það kæmi fyrir sem allra fyrst, til þess að verða felt. Jeg sje ekki betur en að eins sje hægt að bera það upp á næsta þingi, þótt það verði ekki felt fyr en í dag.

Háttv. flm. (IP) var að furða sig á því, að allshn. skyldi ekki hafa leitað til landlæknis. Jeg hefi ekki heyrt, að landlæknir væri neitt sjerstakt „autoritet“ í þeim efnum, hvar ætti að setja bæjarstjórnir og hvar ekki. Ef landlæknir er ágætur ráðunautur á því sviði, gæti kannske komið til mála að leita til annara lækna hjer í bænum alveg eins. (IP: Jeg hugsa, að það væri óhætt líka). Jeg vona að háttv. deild misvirði það ekki við allshn., að hún hefir ekki farið með þetta mál beint til landlæknis eða lagt það undir umsögn læknastjettarinnar.

Það getur meir en satt verið hjá hv. flm. (IP), að kauptúnið sje í sjerstakri vanhirðu, þótt ekki hafi nefndin heyrt þess getið. En það er óvíst, að sú vanhirða hverfi, þótt þar komi bæjarstjórn. Kauptúnið er hreppur út af fyrir sig og eins ástatt um það eins og mörg kauptún önnur, sem hafa litlu og sum engu færri íbúa en þetta, og ekki kvartað um vanhirðu fyrir þær sakir. Hv. flm. (IP) tók til dæmis Seyðisfjörð, og kvað þann bæ mundu vera æði mikið ver staddan, ef hann hefði ekki fengið kaupstaðarrjettindi á sínum tíma. Seyðisfjörður var kauptún í miklum uppgangi, en er hann fjekk sín bæjarrjettindi, skeði það merkilega, að hann hætti að eflast. Hvort það var fyrir vanhirðu sakir eða ekki, veit jeg ekki. Um það veit háttv. flm. (IP) miklu betur en jeg. En hitt veit jeg, að þetta getur vel komið fyrir með þessi sjávarþorp. Meðan alt leikur í lyndi hvað aflabrögð snertir og útgerðin er í lagi, fjölgar fólkinu, og þá finst því þegar brýn þörf að fá bæjarrjettindi. En er sjórinn bregst, fækkar fólkinu og þörfin minkar fyrir bæjarstjórn, ef hún nokkurntíma hefir verið fyrir hendi, eða hverfur alveg.

Þótt háttv. flm. geri lítið úr þeirri skoðun, sem allshn. lætur í ljós í sambandi við þetta frv., að hún telji varhugaverða fjölgun embættismanna, nema brýn þörf sje á, þá ætla jeg ekki að gera neitt „númer“ úr því. En jeg man ekki betur en háttv. 2. þm. S.-M. (IP) sje fyllilega með á nótunum, þegar rætt er um fækkun embættismanna yfir höfuð. Því verður ekki neitað, að mörg kauptún hafa svipaða aðstöðu og Nes í Norðfirði og mundu koma á eftir með samskonar kröfur.

Þá vitnaði háttv. flm. kröftulega í skipulagsnefndina. Hún hafði komið þar og unnið að skipulagsuppdrætti, og Guðmundur prófessor Hannesson á að hafa talið skaðlegt, að framkvæmdir drægjust nokkuð. Jeg hefi líka talað við prófessorinn. Hann álítur, að þessu skipulagsverki þurfi að flýta í öllum kauptúnum. Þörfin er víðar brýn, þótt bíða verði. Nes í Norðfirði er ekkert sjerstakt að því leyti, og eins má byggja eftir skipulagi í kauptúni og kaupstað. Hv. flm. lagði lítið upp úr því, þó að meiri hluti sýslunefndarinnar væri á móti málinu, en tók hinsvegar fram, að sýslumaðurinn hefið mjög gott vit á þessum hlutum. En honum láðist alveg að færa einhver rök fyrir því, að sýslumaðurinn hefði meira vit á þessu heldur en sýslunefndin.

Þá áleit hv. flm. það lítið þrósunarefni fyrir nefndina, að hún væri sömu skoðunar nú og í fyrra. Jeg get a. m. k. ekki álitið það ámælisvert, og það bendir þó í þá átt, að eitthvert vit hafi verið í áliti hennar í fyrra, fyrst hún hefir ekki þurft að skifta um skoðun. Hv. flm. bætti því við, að nefndin væri enn sömu skoðunar eftir tveggja ára starf. Hann heldur víst, að nefndin hafi setið yfir þessu máli milli þinga. Jeg verð nú að segja fyrir mig, að jeg lagði það á hilluna milli þinga, eins og fleiri feld mál. Mjer fanst annars hv. flm. undarlega æstur í þessu máli og einhliða, en ef til vill hefir hann verið það vegna tilhugsunarinnar um að þurfa að láta þennan bagga fylgja sjer á hvert þing. Því að væntanlega býst hann við að eiga eftir að sitja á mörgum þingum enn. Jeg held, að jeg kysi fremur í hans sporum að leggja niður þingmensku, heldur en verða að burðast með þennan sama böggul ár eftir ár. Þá lýsti flm. því yfir, að margt væri ógert í þorpinu, það vantaði vatnsveitu, raflýsingu o. s. frv. En jeg held, að þetta hljóti að vera þorpsbúum sjálfum að kenna, fyrst efnahagur er góður og engin vissa fyrir, að því yrði fremur kipt í lag, þó kauptúnið fengi kaupstaðarrjettindi. Þá var hann að tala um þessar miklu skipakomur til Norðfjarðar. Hann sagði, að skipin væru þar að koma og fara allan sólarhringinn og stundum lægju þar 50 skip samtímis. Jeg fer að halda, að það sje meira um skipakomur þarna en hjer í Reykjavík. En þetta lítur náttúrlega dálítið öðruvísi út, ef þetta er svona aðeins lítinn tíma úr árinu. Annars hefir mjer nú heyrst af því, sem rætt hefir verið hjer í þinginu um strandferðirnar, að ónógar ferðir væru til Norðfjarðar heldur en hitt. Hv. flm. mintist litið á nál. Honum þótti það þó ofsagt, að kunnugustu menn deildu um þörf þessarar breytingar. Sýslunefndin gerir samt ekki mikið úr þessari þörf. Hún segir, að breytingunni mundu fylgja nokkur þægindi fyrir Neskauptún, en úr nauðsyn hennar gerir hún ekki mikið. Það mun nú líka hafa reynst svo, að þesum nýju kaupstöðum hefir þótt bæjarstjórnarfyrirkomulagið nokkuð dýrt. Á það má líka líta, að ef Norðfjörður fengi þessi rjettindi, mundu ýms kauptún vilja fara sömu leið. En það gæti orðið alltilfinnanleg aukning á gjöldum ríkissjóðs, ef hann þyrfti að kosta dýra embættismenn í öllum kauptúnum, jafnfjölmennum.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að karpa meira um þetta, enda býst jeg við, að hv. flm. fari nú að uppgefast, þar sem hann hefir engin ný rök fram að bera.