04.05.1927
Efri deild: 65. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2407)

29. mál, bæjarstjórn á Norðfirði

Jón Baldvinsson:

Mjer skilst, að aðallega sje karpað um það nú, hvort ný rök hafi komið fram í málinu. En það er alls ekki höfuðatriðið, því að hjer er ekki þörf á neinum nýjum rökum. Það eru alveg sömu ástæður fyrir hendi hjer og verið hafa, þegar núverandi kaupstaðir hafa fengið sín kaupstaðarrjettindi. Að vísu hefir altaf verið nokkur reipdráttur um þetta, því að jafnan reynist erfitt að breyta gömlu skipulagi, þó að óyggjandi sje, að hið nýja gefist betur, og þó að vitanlegt sje, að ekki verði staðið á móti breytingunni til lengdar. Það er altaf nokkur hluti manna, sem er ófús á allar breytingar. Yfirleitt hefir það dregist of lengi hjer á landi, að kauptún fengju að ráða málum sínum og nota gjaldþol íbúanna til þarflegra framkvæmda í þágu kauptúnanna, svo sem til að koma á vatnsveitu, skolpræsum og öðru, sem miðar að því, að gera kauptúnin vistleg og byggileg. En á þesskonar framkvæmdum er venjulega ekki byrjað fyr en kauptúnin hafa fengið að ráða málum sínum sjálf. Nú stendur svo á, að mikill vöxtur hefir hlaupið í kauptúnið Nes í Norðfirði, og því meir sem það stækkar, því brýnni er nauðsyn þess, að það fái að ráða málum sínum sjálft. Hjer þarf engin ný rök fram að færa. Jeg álít það rjett gert af hv. flm., að bera málið fram ár eftir ár. Það er algengt um nauðsynjamál, að þau ná ekki fram að ganga fyr en búið er að velta þeim fyrir þinginu í mörg ár. Mótstaða hreppanna í kring er svo sem auðskilin. Sumpart er hún sprottin af venjulegri íhaldssemi, og sumpart af því, að þeir óttast að missa tekjur við breytinguna. Hv. flm. hefir gert grein fyrir því, að þetta kauptún er í örum vexti, en hinsvegar ef til vill um vanrækslu að ræða í heilbrigðisráðstöfunum, erfiðleika á tollinnheimtu o. fl., sem orðið gæti landinu dýrari heldur en samþykki kaupstaðarrjettindanna. Mjer fanst hv. frsm. (GÓ) taka málið í hálfgerðu gamni og vilja koma sjer hjá rökræðum með kímilegum útúrsnúningi. Það er auðvitað hægt að vekja bros með slíkum málaflutningi, en ljett eru venjulega þau rök og lítils virði, sem þannig eru fram borin, þegar þau eru krufin til mergjar. Jeg vil stuðla að því, að þetta frv. nái fram að ganga.