04.05.1927
Efri deild: 65. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (2408)

29. mál, bæjarstjórn á Norðfirði

Ingvar Pálmason:

Jeg býst við, að hv. frsm. (GÓ) þykist nú hafa gert hreint fyrir dyrum nefndarinnar. Jeg held, að hann hafi nú samt í upphafi tekið rjetta stefnu með því að segja sem fæst. Hann sagði, að jeg hefði borið nefndinni á brýn hroðvirkni, eins og jeg vissi ekki, að hún hefði haft nein önnur mál til meðferðar. En hv. frsm. verður að gá að því, að nefndin fjekk þetta mál með þeim fyrstu, en setti það samt algerlega á hakann. En af hverju? Jú, hv. frsm. sagði, að nógur tími væri í dag til að fella frv. Það lítur samt út fyrir, að nefndinni hafi þótt rjettara að hafa vaðið fyrir neðan sig og koma svo seint með álit sitt, að litlar líkur væru til þess, að frv. næði fram að ganga, þó að það kynni að verða samþ. Í þessari deild. Háttv. frsm. sagði, mjög brosleitur, að hann vissi ekki til, að landlæknir væri neitt „autoritet“ í þessu máli. Jeg hjelt, að hann hefði þó töluvert með heilbrigðismálin að gera, og þau koma þessu máli ekki svo lítið við. Annars fór hv. frsm. á svig við allar röksemdir. Hann sagði, að ekkert nýtt hefði komið fram í málinu. En þess var engin þörf, því að hann hefir ekki hrakið neitt af þeim rökum, sem fram komu í fyrra. Háttv. frsm. vildi snúa við dæminu, sem jeg nefndi um Seyðisfjörð, og sagði, að aðstreymi til bæjarins hefði minkað, þegar hann fekk kaupstaðarrjettindi. Þetta er rjett. En þó aðstreymið hyrfi, hefir hann samt getað haldið sjer svo í samkepninni við nærliggjandi kauptún, að hann þrífst vel. Á það má líka benda, að Seyðfirðingar hafa kosið sjerstakan bæjarstjóra, af því að þeir álitu, að bæjarmálin eigi helst að vera í höndum slíks manns. Af þessu sjest, hve mikils þeir meta rjettindi sín. Háttv. frsm. fórst heldur óhöndulega, þegar hann fór að tala um skipakomurnar til Norðfjarðar. Honum fanst frásögn mín koma kynduglega fyrir, af því að við hefðum kvartað um strandferðaskipsleysi. En ætli honum fyndist það bæta mikið úr strandferðaleysinu á Blönduósi t. d., þó að þangað kæmu 2–3 hundruð færeysk fiskiskip eða enskir togarar eða franskar fiskiskútur. Jeg held, að þessi hnittni komi hv. frsm. að litlu haldi. Þá sagðist hann ekki geta sjeð, að sýslumaðurinn í Suður-Múlasýslu hefði meira vit á þessu máli en aðrir sýslunefndarmenn. Enginn mun nú samt kunnugri þessum málum en hann. Enginn mun kunnugri skipakomum, tollgjöldum og slíku, svo að ekki er ólíklegt, að hann geti um þetta mál dæmt öðrum fremur. Þá þótti hv. frsm. það ærið óskemtilegt fyrir mig, að rogast með þennan bagga á þing ár eftir ár. Jeg get sagt honum það, að mjer er aldrei nauðugt að fylgja þeim málum, sem jeg veit að eru góð.

Það sjá allir, hversu mikil blóðtaka það er fyrir Neshrepp, að þurfa að greiða 8–9 þús. kr. árlega í sýslusjóðsgjald, og fá lítið eða ekkert aftur í staðinn. Það væri ekki svo lítið, sem mætti gera í þorpinu sjálfu fyrir þá upphæð, ef það fengi að njóta hennar.

Jeg býst nú við, að hv. frsm. (GÓ) svari mjer því, að þörfin fyrir sjerstakan bæjarfógeta á Norðfirði sje vafasöm, þar sem kunnuga menn deili á um það, eins og sveigt er að í nál. Jeg býst við, að þessir kunnugu menn sjeu sýslunefndarmennirnir í Suður-Múlasýslu. En jeg verð nú að segja, með allri virðingu fyrir sýslunefndinni, þá tel jeg hana á engan hátt kunnugri þessu máli en mig. En það er aldrei nema satt, að hún er kunnugri en háttv. frsm., sem þó þykist tala hjer eins og kunnugur maður.

Jeg held jeg finni svo ekki ástæðu til að svara háttv. frsm. öllu meira, með því líka, að jeg tel tilgangslaust að færa fram ný rök í málinu, þar sem nefndin hefir látið undir höfuð leggjast að hnekkja þeim rökum, sem fram hafa verið borin með máli þessu, enda þótt hún leggi á móti því, að það verði samþykt.

Það hefir altaf verið svo hjer á Alþingi, að þingið hefir haft tilhneigingu til þess að standa á móti slíkum kröfum sem þessum; hafa því þau bæjarfjelög, sem bæjarrjettindi hafa fengið, orðið að toga alllengi í, þar til þau hafa fengið rjettindin, og eins mun fara hjer. Norðfjarðarkauptún fær bæjarrjettindi, þó að seinna verði. Hjer er því aðeins um tímaspursmál að ræða; það ætti hv. deild að athuga. Jeg tel ekkert vit vera í því, að eyða tíma þingsins ár eftir ár til þess að hamla á móti þessu sjálfsagða máli, sem hlýtur að ganga fram, og það áður en langt líður. Það kostar peninga fyrir landið, og þá ekki svo litla, auk þess sem það gerir kauptúninu mikið tjón.