04.05.1927
Efri deild: 65. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (2409)

29. mál, bæjarstjórn á Norðfirði

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Háttv. 5. landsk. (JBald) hafði vikið einhverju að mjer, sem jeg því miður ekki heyrði. Hann hafði slegið því föstu, að nefndin hefði ekki komið fram með nein ný rök í málinu. Það er aldrei nema satt, en rökin frá í fyrra duga, enda taldi hv. flm. (IP) heldur enga þörf á nýjum rökum. En eins og jeg tók fram, heyrði jeg ekki ræðu hv. 5. landsk. (JBald), en jeg býst við, að hún hafi verið lík öðrum ræðum hans, sem hann er að gera sjálfum sjer til skemtunar að flytja.

Háttv. flm. var meðal annars að tala um, að nefndin fengi ekki þakklæti hjá honum fyrir afgreiðslu þessa máls. Jeg held, að það hafi verið óþarfi af háttv. flm., að taka þetta fram, því satt sagt vissi nefndin það fyrirfram, að hún mundi ekkert þakklæti fá hjá honum fyrir afgreiðslu málsins. Flm. mála eru nefnilega ekki vanir að þakka nefndum fyrir, þegar þær ráða til að fella mál þeirra. Frv. þetta var borið fram fyrir ári síðan, og þá felt hjer í deildinni; er því ekki að búast við, að það verði samþ. nú, af nær alveg sömu mönnum og feldu það þá. Annars býst jeg við, að kauptúnið setti ekki mjög mikið ofan, þó að frv. þetta yrði t. d. ekki að lögum bráðlega, úr því líka að það hefir blómgast svo mjög sem af er látið undir þessu gamla sveitarstjórnar fyrirkomulagi.

Þá var hv. flm. að tala um, að þetta væru ekki barnabrek, þar sem það væri borið fram hvað eftir annað af sömu mönnum. En jeg veit ekki, hvað lýsir betur barnabrekum en það, að vera altaf að klifa á því sama, sem búið er að neita um. Þegar hv. flm. fór að tala um skipakomurnar á Norðfjörð, hætti jeg að fylgjast með. Nú sagði hann, að þangað kæmi dálítið á fjórða hundrað skipa á ári, en í fyrri ræðu sinni sagði hann, að skip væru að koma þangað og fara allan sólarhringinn, og meira að segja væru 50 skip stundum inni í einu. Jeg veit satt að segja ekki, hvernig á að vera hægt að koma þessu saman. Mjer er því næst að halda, að hv. flm. hafi verið að reyna að blekkja deildina með þessum ummælum um skipagöngurnar.