04.05.1927
Efri deild: 65. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (2410)

29. mál, bæjarstjórn á Norðfirði

Ingvar Pálmason:

Það er dálítið snúningasamt, að elta hv. frsm. (GÓ), þegar hann hefir ekki önnur ráð til þess að verja nefndina en að snúa út úr orðum mínum. Hann benti á ósamræmi í skýrslu minni, þar sem jeg sagði, að skip væru að koma og fara allan daginn frá og til Norðfjarðar. Jeg held, að hv. frsm. hafi ekki gert þetta af því, að hann hafi ekki skilið, hvað jeg meinti, heldur af því, að hann hafi ekki viljað skilja það. Það er það sama sem vantar hjer, sem vantar í alla framkomu hv. allshn. í þessu máli, það er skilningur og rjettsýni.

Þá sagði hv. frsm. áður, að úr því að við á Norðfirði gætum borgað 8–9 þús. kr. árlega í sýslusjóð, þá gætum við líka komið upp hjá okkur vatnsveitu o. fl. En jeg hjelt, satt sagt, að hv. frsm., sem er góður bóndi, mundi skilja það, að ef hann þarf t. d. að borga 3/4 af tekjum bús síns í ýms opinber gjöld, þá dregur það úr framkvæmdum yfirleitt.

Að endingu vil jeg láta það koma skýrt fram, að hv. allshn. vill ekki skilja þetta mál og færir engin rök fram gegn því, heldur reynir hún að snúa því í villu og bjarga sjálfri sjer á þann hátt.