05.03.1927
Neðri deild: 22. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (2415)

61. mál, mat á heyi

Flm. (Jón Sigurðsson):

Jeg skal hafa stutta framsögu í þessu máli, því að sannast að segja bjóst jeg alls ekki við, að við kæmumst að því í dag. Í greinargerðinni eru færðar ástæður fyrir því, að þetta frv. er borið fram, og skal jeg ekki endurtaka það. Aðeins segja það, að hvort svo sem þessar hömlur á heyflutningi standa lengur eða skemur, þá er jafnsjálfsagt að stuðla að því, að gera innlent hey sem aðgengilegasta vöru fyrir notendur. Og það er trúa mín, að því aðeins verði hægt að vinna þann innlenda markað fyrir okkar hey, að að það sje gert eitthvað verulegt til þess að tryggja það, að kaupendur sjeu ekki sviknir á vörunni. Það mun hafa átt sjer víða stað, að menn hafi beðið um svo og svo gott hey, bestu töðu og þess háttar, en fengið stórskemda vöru í staðinn. Á þessu verður ekki ráðin bót, nema til sjeu löggiltir menn, sem hægt sje að snúa sjer til um mat á heyinu. Þeirra mundi að sjálfsögðu ekki verða þörf nema á tiltölulega fáum stöðum á landinu.

Þá er sumstaðar vöknuð hreyfing í heyskaparsveitum, þar sem ekki er mikið landrými, en hinsvegar heyafli góður, í þá átt, að mynda fjelag til þess að greiða fyrir sölunni. Á þann hátt gætu menn snúið sjer til slíks fjelags og verið öruggir um að fá mátulega mikið af hverri heytegund. Þetta eru auðvitað mikil þægindi, að geta fengið þannig á einum stað, í stað þess að verða að leita til margra. Af þessu tvennu hefi jeg viljað hreyfa þessu máli, en þetta frv. er fyrst og fremst sniðið eftir staðháttum, þar sem jeg þekki best til. En jeg væri þakklátur væntanlegri nefnd fyrir að færa það í þann búning, sem gæti verið haganlegastur fyrir sem flesta.

Þá ætla jeg ekki að hafa þessi ummæli fleiri, en vil óska þess, að málinu verði vísað til landbn., að umr. loknum.